adsendar-greinar Tækni og vísindi
„Okkar markmið og sýn er að Flóahverfið á Akranesi verði öðrum til fyrirmyndar hvað varðar skipulags- og umhverfismál.“

Vistvænir iðngarðar rísa í Flóahverfi á Akranesi

Akraneskaupstaður tilkynnti nýverið að skrifað hefði verið undir samstarfs- og markaðssamning við fyrirtækið Merkjaklöpp ehf. um samstarf við atvinnuuppbyggingu í Flóahverfi á Akranesi. Samningurinn markar upphaf að stóru og metnaðarfullu verkefni við atvinnuuppbyggingu á Akranesi og felur einkum í sér samstarf milli þessara aðila um að veita fyrirtækjum brautargengi að vistvænum iðngörðum á Akranesi og stuðla að hraðri uppbyggingu Flóahverfisins. Merkjaklöpp ehf. mun hafa það að sérstöku markmiði að þarfagreina og mæta þörfum fyrirtækja sem sjá sér hag í því að því að flytja starfsemi sína í Flóahverfi og taka þátt í uppbyggingu á vistvænum iðngörðum. Skessuhorn sagði frá hugmyndum um vistvæna iðngarða í mars síðastliðnum en framkvæmdir eru nú hafnar í Flóahverfi.

Hvað eru vistvænir iðngarðar?

Frá undirritun samstarfs- og markaðssamnings á milli Merkjaklappar ehf. og Akraneskaupstaðar. Alexander Eiríksson framkvæmdastjóri Merkjaklappar ehf., Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Guðmundur Sveinn Einarsson stjórnarformaður Merkjaklappar ehf. Ljósm. Akraneskaupstaður.

Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á heildrænni nálgun á uppbyggingu atvinnu- og iðnaðarsvæða með sjálfbærni og vistvænar lausnir að leiðarljósi. Mótaður er ákveðinn rammi um uppbyggingu svæðisins og þá lagður grunnur að víðtæku samstarfi fyrirtækja og ýmissa hagsmunaaðila sem samnýta innviði, aðföng og hráefnastrauma sína til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu og styðja við nýsköpun. Uppbygging vistvænna iðngarða er í mikilli sókn á heimsvísu sem aðferð framleiðslufyrirtækja til að stuðla að aukinni sjálfbærni og til að ýta undir getu þeirra til að starfa eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins en hér heima hafa til að mynda Landsvirkjun, Veitur og fleiri hagsmunaaðilar í orkugeiranum sýnt þessari aðferðarfræði sérstaka athygli. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur jafnframt haft þessi málefni og skilgreiningar vistvænna iðngarða til umfjöllunar svo líklegt verður að þykja að þessi nýja vistvæna aðferðafræði við uppbyggingu atvinnusvæða sé að ná fótfestu hér á landi.

Bæjarráð, skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar, ásamt bæjarstjóra og forsvarsmönnum Merkjaklappar ehf. með Al-hönnun ehf., hafa að undanförnu unnið hörðum höndum að þróun verkefnis um uppbyggingu vistvænna iðngarða en hið nýja atvinnusvæði í Flóahverfi á Akranesi hefur nú verið sérstaklega skilgreint sem vistvænir iðngarðar. Því gefst fyrirtækjum nú einstakt tækifæri til að byggja upp starfsemi sína í fyrirmyndarumhverfi og í takt við nútímakröfur um umhverfismarkmið. Flóahverfi er vel staðsett rétt utan þéttbýliskjarna Akraness og aðeins um 200 metra frá stofnbraut. Frá Flóahverfi er um 30 mín akstur til Reykjavíkur.

Iðngarðarnir verða byggðir upp með hliðsjón af alþjóðlegri umgjörð (International Framework) um innleiðingu á vistvænum iðngörðum (EIP).  Lönd eins og Danmörk, Frakkland og mörg fleiri hafa nýtt lykilþætti regluverksins um vistvæna iðngarða til að bæta samkeppnishæfni iðnaðar og framleiðslu í takt við umhverfismarkmið með t.d. kolefnisjöfnun en þá er einn af mikilvægustu þáttum vistvænna iðngarða það skilyrði að þeir þrífist í sátt við íbúðarbyggð og það sé virkt og opið samtal við íbúa samfélagsins um þróun svæðisins.

Framsækni á Akranesi

Fánaborg við framkvæmdasvæði Merkjaklappar í Flóahverfi.

Merkjaklöpp ehf. er framsækið fyrirtæki staðsett á Akranesi sem hefur það að markmiði að láta til sín taka í skipulagsmálum og uppbyggingu atvinnuhúsnæðis á Íslandi. Merkjaklöpp hefur sérhæft sig m.a. í byggingu atvinnuhúsnæðis, vistvænum lausnum og hönnun atvinnugarða en fyrirtækið þjónustar nú fyrirtæki og sveitarfélög við þróun fasteignaverkefna, markaðssetningu og skipulagsmál.

Skessuhorn ræddi á dögunum við tvo forsvarsmenn og eigendur Merkjaklappar ehf., þá Alexander Eiríksson og Guðmund Svein Einarsson, í von um að fræðast nánar um þetta fyrirbæri sem nefnt er vistvænir iðngarðar og margir eru að tala um í dag. Að þeirra sögn er mikil eftirspurn eftir aðlaðandi atvinnusvæði hér á landi í dag og helsta sóknarfærið í þeim efnum telja þeir vera að finna í Flóahverfi á Akranesi. Benda þeir á þá staðreynd að þrengt hefur mikið að fyrirtækjum og atvinnusvæðum víða á höfuðborgarsvæðinu þar sem atvinnuhúsnæði víkur fyrir íbúðarhúsnæði. „Það er verið að ýta fyrirtækjum út af þessum rótgrónu atvinnusvæðum eins og Höfðanum, Hálsunum, Vogunum og víðar, út í jaðra höfuðborgarsvæðisins. Fyrirtækjum sem hugnast illa atvinnusvæðin í jaðrinum við höfuðborgarsvæðið hafa verið að flytja sig enn lengra; til Þorlákshafnar, Árborgar, Keflavíkur og víðar, í leit að ákjósanlegum áfangastað fyrir sitt fyrirtæki,“ segja þeir félagar hjá Merkjaklöpp.

Jafnframt nefna þeir að á hefðbundnum athafna- og iðnaðarsvæðum í dag hrærist gjarnan saman alls konar starfsemi í bland og almennt litlar kröfur gerðar til þess að fyrirtækin og lóðahafar hirði lóðir sínar eða umhverfi með sérstöku tilliti til nágranna sinna, íbúa og umhverfissjónarmiða.  Skipulagsleysi og skammsýni hafi því miður að miklu leyti einkennt vinsæl atvinnusvæði en þeir benda á að fyrirtæki leggi nú alltaf meiri og frekari áherslu á umhverfismarkmið og ímynd sína í dag.

Í upphafi skal endinn skoða

Tölvuteiknuð mynd af Lækjarseli, vistvænum iðngörðum.

„Við þekkjum fjölmörg dæmi um að fyrirtæki hafi á undanförnum árum sóst eftir álitlegum lóðum á vinsælum iðnaðar- og atvinnusvæðum, t.d. í jaðri höfuðborgarsvæðisins við Esjumela, en þegar þessi fyrirtæki hafi svo byggt sína starfsemi á þeim lóðum sem á sínum tíma þóttu álitlegar og vel staðsettar, hafi þeim brugðið við það að nýir nágrannar þeirra taki lítið sem ekkert tillit til þeirra starfsemi eða framleiðslu og alls konar rusl og brotajárn frá illa hirtum lóðum nágranna þeirra jafnvel búið að umkringja nýtt húsnæði eða nýjar höfuðstöðvar fyrirtækis þíns. Það er auðvitað ótækt að geta ekki séð almennilega fyrir endann á svo mikilvægri fjárfestingu fyrirtækja sem hafa teiknað upp sína framtíð í fyrirmyndarumhverfi því umhverfi starfsstöðvar fyrirtækis getur nú skipt höfuðmáli ef fyrirtækið ætlar sér að ganga í takt við ríkar kröfur í umhverfismálum og geta verið samkeppnishæft á sínum markaði. Í upphafi skal endinn skoða við val á framtíðarheimili fyrirtækis sem endurspeglar ímynd þess og stefnu.“

Þeir benda áfram á það að illa hirt og illa skipulögð atvinnusvæði útiloki mörg stór tækifæri fyrir til að mynda líftækniiðnað, matvælaiðnað eða aðra spennandi en viðkvæma starfsemi. „Fyrirtæki sem fluttu starfsemi sína á opin og álitleg svæði fyrir segjum fimm árum eru nú kannski komin með bílapartasölur og malbikunarstöð í kross við sína starfsemi. Þessi skammsýni og skipulagsleysi þekkist til dæmis ekki við skipulagningu á íbúðabyggð í þéttbýli og myndi slík óregla ekki verða liðin. Af hverju á sú góða hugsun og fyrirhyggja í skipulagsmálum ekki eins mikið við þegar við skipuleggjum atvinnusvæði og þegar við skipuleggjum íbúðabyggð? Með þessu verkefni teljum við sveitarfélagið Akranes vera að koma með lausn á ákveðnu vandamáli,“ segja þeir félagar. „Hér hönnum við atvinnuhverfið frá upphafi til enda og hugsum fyrir öllum helstu þáttum og þjónustuþörf. Þá er jafnframt hugsað sérstaklega í vistvænum lausnum við t.d. orkumál, varma, sorpflokkun, endurvinnslu úrgangs og þess háttar. Fyrirtækin munu mynda saman hringrásarhagkerfi sín á milli með samnýtingu á hráefni og þjónustu hvors annars á sjálfbæru svæði. Hingað til virðast þessi mikilvægu atriði og þættir ekki hafa verið festir niður með heildstæðu skipulagi á afmörkuðu atvinnusvæði nema að verulega takmörkuðu leyti og á þessum helstu atvinnusvæðum virðist aðeins gilda einhvers konar frumskógarlögmál. Aðferðafræðin sem Akraneskaupstaður og Merkjaklöpp hafa verið að tileinka sér í þessum málum skapar að okkar mati einstakt tækifæri og jarðveg fyrir fyrirtæki sem þykir vænt um sína ímynd og sitt umhverfi og vilja vera öðrum til fyrirmyndar.“

Akranes gengur lengra en önnur sveitarfélög

Alexander og Guðmundur Sveinn benda á að t.d. í Þorlákshöfn virðist sveitarfélagið hafa markaðssett sig þar með framboði á ódýrum lóðum á afmörkuðum atvinnusvæðum fyrir utan þéttbýliskjarna og íbúðarbyggð. „Slík markaðssetning og nálgun er auðvitað ekkert nýtt hjá sveitarfélögum sem leitast við að laða til sín fyrirtæki og fjölga íbúum en við teljum að hugsa megi dæmið aðeins lengra því hagkvæmni fæst ekki aðeins fram með því að versla ódýrt. Við teljum að langvarandi hagkvæmni felist í vistvænum og snjallari lausnum en sveitarstjórn og skipulags- og umhverfissvið Akraneskaupstaðar hefur gengið lengra en önnur sveitarfélög í því að innleiða vistvænar og hagkvæmar lausnir í skipulagsmálum. Ívilnanir frá sveitarfélagi í skiptum fyrir að gangast undir vistvænt deiliskipulag og samnýting hráefnisstrauma og þjónustu með hringrás milli fyrirtækja skilar sér í stóraukinni hagkvæmni en síðast en ekki síst að þá styrkir vistvæn nálgun almennt til muna ímynd þeirra fyrirtækja sem tileinka sér grænar lausnir.“

Tekið vel á móti fyrirtækjum í Flóa

Að sögn þeirra félaga hefur tekist vel að undirbúa komu fyrirtækja í Flóahverfi og almennt hefur verið tekið vel í þá vistvænu hugmyndafræði sem regluverk og deiliskipulag á svæðinu tekur mið af. Allir þeir sem vilja taka þátt í vistvænum iðngörðum gangast saman undir það sem kalla mætti vistvænt deiliskipulag og lúta skilyrðum og ákvæðum er miða sérstaklega að því að viðhalda snyrtilegu og vistvænu atvinnusvæði í fyrirmyndarumhverfi. Merkjaklöpp hefur það hlutverk að aðstoða fyrirtæki við flutning á svæðið en í því ferli felst alltaf ítarleg þarfagreining á hverju fyrirtæki fyrir sig.  „Þegar fyrirtæki flytja sig á svæðið til okkar er allt inni í pakkanum og tilbúið. Við byrjum með þér á teikniborðinu frá lóðargrunni en að endingu sérðu girðingu og vöktuð hlið í kringum byggingar, bílastæðin koma malbikuð, hleðslustæði fyrir rafbíla og gróður á lóðinni. Við kappkostum að það sé allt frágengið þegar fyrirtækin koma á staðinn og flytja inn í nýja húsnæðið sitt en í þeim tilvikum sem fyrirtækjum fylgir eitthvað sem gæti valdið sjónmengun eða annarri mengun þá aðstoðum við fyrirtækin, og jafnvel þjálfum, við að ganga þannig frá fylgifé sínu á lóðinni að það sé öðrum ekki til ama eða umhverfinu til spillis.“

Þeir félagar segja skipulags- og umhverfissvið sveitarfélagsins, í samvinnu með bæjarstjórn, hafa unnið frábæra og óviðjafnanlega vinnu í skipulagsmálum á svæðinu en verið er að leggja lokahönd á vistvænt deiliskipulag sem ætti að vera hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. „Akraneskaupstaður vill ganga lengra í þessum efnum en önnur sveitarfélög hafa verið að gera og hefur sveitarstjórnin sýnt að þeim sé alvara í því að bjóða fyrirtækjum að setjast hér að. Við sjáum að flott fyrirtæki í dag eru að keppa mikið í kolefnisjöfnun, orkusparnaði, ímynd, upplifun starfsmanna og fleira svo vistvænar lausnir eru ofarlega í forgangi hjá fyrirmyndar fyrirtækjum í dag, bæði innlendum og erlendum. Vistvænar iðngarðar munu veita fyrirtækjum innan garðanna sérstakar viðurkenningu fyrir að ná ýmsum markmiðum í umhverfismálum. Þannig getum við séð til þess að alls kyns mengun verði haldið í algeru lágmarki og úrgangslosun verði til fyrirmyndar. Við munum líka sjá til þess að fyrirtæki á svæðinu séu sjálfbær og geti nýtt hráefnisstrauma hvort frá öðru ef kostur er. Það má segja að á svæðinu verði eins konar hringrásarhagkerfi,“ segja þeir Alexander og Guðmundur og halda áfram: „Þú getur sótt alla þjónustu sem fyrirtækið þarf innan svæðisins, mötuneyti og fleira fyrir starfsmenn, öryggiseftirlit, sorphirðu, bílaþvott, ræstingar, endurmenntun starfsmanna svo eitthvað sé nefnt. Það má segja að þetta sé svipað verslunarmiðstöð þar sem er einn leigusali og húsfélag sem sér um alla þessa þætti.“

Fyrirmyndar fyrirtæki í Flóahverfi

„Það eru ýmis vel fjármögnuð fyrirtæki í spennandi starfsemi sem við sjáum koma til okkar í Flóahverfi og taka þátt í vistvænum iðngörðum,“ segja Alexander og Guðmundur. „Akranes er orðið álitlegur staður fyrir slík fyrirtæki af fjölmörgum ástæðum. Hér bjóðum við upp á frábæra aðstöðu og þjónustu og fólk getur gengið eða hjólað í vinnuna. Við viljum auðvitað að fólksfjölgun fylgi atvinnuuppbygging en jafnframt að aukinni atvinnu á svæðinu fylgi fjölskyldufólk og nýir íbúar. Hér mun fólk vilja búa ef við getum boðið þeim upp á atvinnu við fyrirmyndaraðstæður og allar fjarlægðir til og frá vinnu eru í hjóla- eða göngufæri. Við höfum líka þetta frábæra landssvæði sem er í sérstaklega góðu færi við höfuðborgarsvæðið og allar samgöngur á milli til fyrirmyndar, og fara batnandi á næstu árum.“

Þeir benda á Ægisbraut á Akranesi þar sem eru í dag mörg iðn- og þjónustufyrirtæki. „Til stendur að breyta deiliskipulagi fyrir Ægisbraut þannig að í stað þess að vera iðnaðarhverfi í dag mun skipulag gera ráð fyrir íbúðabyggð. Deiliskipulag Ægisbrautar er til endurskoðunar og hefur undanfarið verið til umræðu í skipulags- og umhverfisráði. Við eigum von á því að þar fari hlutirnir að gerast innan nokkurra mánaða. Þar eru fyrirtæki sem verulega er farið að þrengja að en með þessum breytingum eykst verðmæti lóða fyrirtækjanna og því skapast tækifæri fyrir aðila á því svæði að færa sig yfir til okkar í Flóahverfi. Mörg fyrirtæki eru að sprengja utan af sér þau húsnæði sem þau reka starfsemi sína nú í en of lítilt eða úrelt húsnæði getur heft vöxt fyrirtækja og orðið til þess að eldri fyrirtæki verða eftir í samkeppni við ný og framsækin fyrirtæki sem hafa meira svigrúm til að vaxa. “

Þeir félagar segjast telja að Akraneskaupstaður sé nú í dauðafæri til þess að bjóða fyrirtækjum, fyrst bæjarfélaga, vistvæna iðngarða sem verði í takt við alþjóðlega umgjörð, kolefnisjöfnun og aðlaðandi markaðsumhverfi. Sú sérstaða sveitarfélagsins muni falla vel að markmiðum fjölda fyrirtækja hér á landi sem vilja vera til fyrirmyndar og auk þessa vera í takt við umhverfismarkmið stjórnvalda og sveitarfélags.

„Akraneskaupstaður sér mikil tækifæri í því að skapa sérstöðu með vistvænum iðngörðum og laða til okkar framúrskarandi fyrirtæki sem munu starfa í atvinnuhverfi þar sem forsvarsmenn fyrirtækja geta treyst því að sömu kröfur eru gerðar til annarra fyrirtækja í nágrenninu sem nær til stjórnunar, vöktunar, þjónustu, eftirfylgni umhverfisþátta, flokkun og losun úrgangs. Kröfurnar munu einnig ná til þess að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið með virkri umræðu með íbúum ásamt því að stuðla að efnahagslega jákvæðum áhrifum með fjölgun starfa. Kröfurnar verða ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin heldur mun þetta styðja enn betur við fyrirtækin í þeirra starfsemi og auka á trúverðugleika þeirra hvort sem þeirra þjónusta nær til innanlands eða alþjóða markaðar. Við erum ánægð með að hefja samstarf með frumkvöðlum sem deila hugmyndum bæjarstjórnar um eflingu atvinnulífs á Akranesi. Samningurinn við Merkjaklöpp ehf. er því frábært upphaf þessarar vegferðar og við hlökkum til samstarfsins. Ánægjulegt er að áhugi er á uppbyggingu á atvinnuhúsnæðis á Akranesi og erum við að undirbúa frekari gatnagerð í Flóahverfi til að mæta þeim áhuga”, segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.“

Akranes verði öðrum til fyrirmyndar

„Okkar markmið og sýn er að Flóahverfið á Akranesi verði öðrum til fyrirmyndar hvað varðar skipulags- og umhverfismál en jafnframt sé svæðið skilgreint sem vistvænn iðngarður þar sem margháttuð þjónusta og framleiðsla geti átt sér stað innan svæðisins auk samstarfs milli fyrirtækja innan svæðisins. Þannig sjáum við Akranes verða að eftirsóttustu áfangastöðunum á Íslandi fyrir fyrirtæki í sókn og vexti en fyrirmyndar fyrirtæki í dag eru að gera ríkar kröfur til umhverfisverndar og leitast eftir tækifærum til að ná fram sjálfbærni í aðlaðandi umhverfi“, segja Alexander Eiríksson, framkvæmdastjóri og Guðmundur Sveinn Einarsson , stjórnarformaður Merkjaklappar ehf. að lokum. Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðuni merkjaklopp.is

Þeir sem vilja kynna sér vistvæna iðngarða frekar, eða taka þátt í verkefninu, geta haft samband við Merkjaklöpp í gegnum heimasíðuna www.merkjaklopp.is eða í síma 419 0440. Nýr vefur hefur verið settur í loftið sem ætlað er að þjónusta og kynna vistvæna iðngarða í Flóahverfi en slóðin á vefinn er www.floi.is  Á vefnum www.300akranes.is má svo sjá allar helstu upplýsingar um lóðaúthlutanir og framkvæmdir á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir