
Hafnarfjall Ultra fjallvegahlaupið tókst með ágætum – myndasyrpa og úrslit
Hlaupahópurinn Flandri hefur undanfarna mánuði lagt drög að utanvegahlaupinu Hafnarfjall Ultra. Komið var að stóru stundinni í gærmorgun þegar um 150 hlauparar voru ræstir í þetta ofurhlaup frá körfuboltavellinum við Hjálmaklett í Borgarnesi klukkan 10. Þar var búið að slá upp tjaldi og aðstöðu fyrir starfsfólk og keppendur. Þegar hlauparar komu í mark gátu þeir kastað mæðinni inni í tjaldi og nært sig, því í boði voru ávextir, drykkir og hamborgarar. Slík aðstaða þykir nauðsynleg í ofurhlaupum af þessu tagi. Langbestum árangri hlaupara má segja að Sigurjón Ernir Sturluson hafi náð. Hann hljóp Hafnarfjall sjö tinda og dali, þ.e. lengstu vegalengdina tæpa 34 kílómetra. Kom hann í mark eftir þrjá klukkutíma og fimmtíu mínútur og var hvorki meira né minna en klukkutíma fljótari að ljúka hlaupinu en næsti maður.