adsendar-greinar Tíska
Guðrún með fjölskyldunni sinni.

Viðskiptavinir mínir eiga smá í dóttur minni“

Guðrún Lára Bouranel var í meistaranámi í lýðheilsuvísindum þegar hún ákvað að taka sér smá frí frá námi árið 2015. Hana vantaði eitthvað til að gera við tímann sinn og dró fram saumavélina og byrjaði að sauma föt í gjafir fyrir fjölskyldu og vini. Fljótlega spurðist út um saumaskapinn og áhugasamir fóru að hafa samband við hana um hvort hægt væri að leggja inn pantanir. Það endaði með því að um haustið 2015 var Guðrún búin að stofna fyrirtækið Guggzý utan um fatasauminn og opnaði Facebooksíðu til að koma fyrirtækinu á framæri. „Ég fór ekki aftur í nám eins og stóð til,“ segir Guðrún og hlær. „Það var bara ekki aftur snúið og ég hef verið að sauma síðan.“

Fikraði sig áfram í saumaskapnum

Guðrún er fædd og uppalin í Ólafsvík en býr í dag í Reykjavík. „Ég flutti í bæinn þegar ég fór í framhaldsskóla, eins og svo margir sem alast upp úti á landi. Ég hef ekki snúið aftur en fer samt alveg reglulega í Ólafsvík,“ segir Guðrún. Aðspurð segist hún ekki hafa lært fatasaum og að stefnan hafi aldrei verið að starfa við það. „Ég kláraði grunnnám í sálfræði og var í mastersnámi í lýðheilsuvísindum þegar ég tók pásu frá náminu,“ segir Guðrún. „Það var mamma sem kenndi mér upphaflega að sauma þegar ég var krakki og svo var ég auðvitað í handavinnu í grunnskóla. En það sem ég kann í dag hef ég mest lært bara sjálf. Ég hef mikið horft á kennslumyndbönd á netinu, skoðað saumabækur og svo bara fiktað og þannig fikrað mig áfram,“ segir hún.

Fötin fjármögnuðu glasameðferð

Guðrún á eina litla tveggja ár stelpu sem má segja að hafa orðið til í gegnum saumaskap mömmu sinnar. „Það er frekar skemmtilegt að segja frá en þegar ég byrjaði að sauma barnafötin átti ég ekki börn sjálf. Það sem í raun keyrði mig áfram út í þennan saumaskap, fyrir utan hversu skemmtilegt mér þykir þetta, var að við þurftum að fjármagna glasameðferð. Það kostar sitt að fara í slíka meðferð svo ég fór að selja fötin og öll salan fór bara beint í að borga fyrir meðferðina. Viðskiptavinir mínir eiga smá í dóttur minni,“ segir Guðrún og hlær. Hún var því vel sett með lager ef fötum á nýfædda dóttur sína þegar hún kom í heiminn fyrir tveimur árum. „Það er óhætt að segja að hana hafi ekki vantað föt. Ég passaði alltaf áður en hún fæddist að geyma fyrstu flíkurnar sem ég var að sauma fyrir mitt barn því ég ætlaði mér alltaf að eignast barn,“ segir Guðrún.

Föt úr lífrænni bómull

Fötin sem Guðrún saumar eru barnaföt úr lífrænni bómull fyrir allt frá nýfæddum börnum upp í 7-8 ára. „Öll efnin sem ég kaupi fæ ég frá hönnuðum í Svíþjóð og ég veit nákvæmlega hvaðan efnin koma, hver teiknaði hvert og eitt efni og úr hverju það er búið til,“ segir Guðrún og bætir því við að hún noti þunnt og mjúkt ullarefni innan í lambhúshettur. „Það er eina efnið sem ég nota sem er ekki lífrænt,“ segir hún. Fötin er hægt að kaupa í Útgerðinni í gamla Pakkhúsinu í Ólafsvík auk þess sem hægt er að hafa samband við Guðrúnu í gegnum samfélagsmiðlasíður Gúggzý, bæði á Facebook og Instagram, til að leggja inn pantanir. „Ég er líka dugleg að taka þátt í mörkuðum og um næstu helgi, 14. desember verð ég í Listasafni Reykjavíkur með fötin,“ segir Guðrún.

Fötin eru litrík og skemmtileg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira