
Írsk vika hefst á Útgerðinni í kvöld
Starfsfólk Útgerðarinnar mun stiga öldu Írskra daga sem nú eru að hefjast á Akranesi. Það verður nýjasti kórinn í tónlistarflóru Skagamanna sem ríður á vaðið í fjölbreyttri dagskrá Útgerðarinnar næstu daga. Dagskráin er einkum löguð að þörfum þeirra sem eldri eru og vilja ögn rólegri tíð. Vonast er til þess að útisvæði verði tekið í notkun síðar í dag.
Katla Bjarnadóttir eigandi Útgerðarinnar segir alltaf spenning í aðdraganda Írskra daga enda að líkindum von á miklum fjölda gesta til bæjarins sem munu samgleðjast bæjarbúum á þessari miklu bæjarhátíð. Írsku dagar Útgerðarinnar hefjast í kvöld með opinni kóræfingu nýjasta kórsins á Akranes, Skagavókal, undir stjórn Lilju Margrétar Riedel. Á opinni æfingu geta gestir Útgerðarinnar að sjálfsgögðu lagt sína rödd í púkkið að vild.
Á hverju kvöldi til sunnudagskvölds verður síðan fjölbreytt dagskrá að sögn Kötlu og aðfararnætur laugardags og sunnudags verður staðurinn opinn til kl. 04:30 og ættu því flestir að geta fullnægt skemmtanaþörfinni sem ekki síst gerir vart við sig á Írskum dögum.
Til þess að geta sinnt gestum betur, ekki síst í góðviðri, hefur Katla óskað eftir leyfi til að sinna gestum utandyra og vonast hún til þess að leyfi til slíks fáist síðar í dag.
Katla segir mikinn undirbúning að baki dagskrár Írskra daga og segir hana einkum lagaða að þeim sem eldri eru og vilja hafa rúmt í kringum sig og ögn rólegra umhverfi en jafnframt góða þjónustu. Því standi mun fleiri starfsmenn vaktina næstu daga en venjulega. „Ég er mjög bjartsýn að eðlisfari og veit að þetta verða ógleymanlegir dagar í góðum félagsskap.“