
Andlát – Magnús Þór Hafsteinsson
Strandveiðisjómaðurinn sem lést í gærmorgun í kjölfar þess að bátur sem hann réri á sökk vestur af Blakki við Patreksfjörð, hét Magnús Þór Hafsteinsson. Auk sjómennsku var Magnús Þór afkastamikill rithöfundur og þýðandi, fyrrum blaðamaður og alþingismaður.
Í frásögn af slysinu í gær segir að það hafi verið skipverji fiskibáts í grenndinni sem hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir klukkan 11 um morguninn og tilkynnt að bátur væri sokkinn og að einn maður væri í sjónum. Þyrla Gæslunnar og áhöfnin á björgunarskipinu Verði II á Patreksfirði voru kölluð út á hæsta forgangi. Þá voru öll skip á svæðinu beðin um að halda tafarlaust á staðinn. Áhöfnin á Verði II var fyrst viðbragðsaðila á vettvang og náði manninum úr sjónum. Hann var fluttur með björgunarskipinu til Patreksfjarðar, en var úrskurðaður látinn við komuna þangað.
„Aðstandendur Magnúsar vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra aðila sem að málinu komu sem og samfélagsins á Patreksfirði,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Þar vottar lögreglan aðstandendum einnig samúð sína og þakkar viðbragðsaðilum, sjófarendum og öðrum sem komu að málinu. „Unnið er að því að ná bátnum sem Magnús var á af sjávarbotni og stefnt er að því að flytja hann til Reykjavíkur til frekari rannsóknar,“ sagði í tilkynningu lögreglu.
Magnús Þór Hafsteinsson var 61 árs að aldri, fæddur 29. maí 1964. Hann hafði í sumar gert út á strandveiðar á báti sínum Orminum langa AK-64 og réri frá Patreksfirði. Foreldrar hans voru hjónin Hafsteinn Magnússon og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir. Magnús er fráskilinn og lætur eftir sig fjórar uppkomnar dætur.
Magnús Þór menntaði sig sem búfræðingur með fiskeldi sem sérgrein á Bændaskólanum á Hólum og útskrifaðist þaðan 1986. Þá lauk hann háskólaprófi í fiskeldis- og rekstrarfræðum frá Héraðsháskóla Sogns og Firðafylkis í Noregi 1991 og meistaranámi í fiskifræði frá Háskólanum í Björgvin 1994. Hann átti afar fjölbreyttan vinnuferil að baki. Starfaði við landbúnað, fiskvinnslu, sjómennsku og fiskeldi, var rannsóknamaður við Veiðimálastofnun og hafrannsóknastofnanir Íslands og Noregs árin 1989 til 1997 og sinnti rannsóknum og kennslu við Sjávarútvegsháskóla Noregs í Tromsö 1994 til 1997. Magnús Þór var fréttaritari Ríkisútvarpsins í Noregi 1997 til 1999, blaðamaður hjá norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren og fréttamaður í sjónvarpi og útvarpi hjá RÚV árin 1997 til 2003. Hann starfaði víðar við blaðamennsku, meðal annars á Skessuhorni um miðjan síðasta áratug.
Magnús Þór settist á þing árið 2003 sem þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi. Hann sagði sig úr Frjálslynda flokknum árið 2009 en bauð fram krafta sína á Alþingi fyrir Flokk fólksins árið 2017 en náði ekki sæti á Alþingi. Hann gegndi í framhaldinu starfi framkvæmdastjóra þingflokksins. Magnús Þór var varabæjarfulltrúi á Akranesi eitt kjörtímabil 2006-2010, gegndi formennsku í menningar- og safnanefnd bæjarins og átti sæti í félagsmálaráði. Þá sat hann í fulltrúaráði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Eftir Magnús Þór liggja nokkrar fræðibækur sem einkum fjalla um síðari heimsstyrjöldina. Hann hefur verið atorkusamur þýðandi bóka undanfarin ár og nú síðast kom út bókin Lífið á jörðinni okkar eftir David Attenborough í þýðingu hans. Auk þess þýddi hann m.a. norskar glæpasögur. Magnús Þór ritaði fjölda greina um málefni tengd sjávarútvegi, stjórnmálum og fleira sem birst hafa í norskum og íslenskum fjölmiðlum.
Útgefendur Skessuhorns þakka að leiðarlokum Magnúsi Þór störf hans fyrir blaðið á sinni tíð og votta aðstandendum samúð.