adsendar-greinar Mannlíf

„Veit að kylfingar verða duglegir að spila í sumar“

„Upphaflega var stefnt að því að opna fyrir almennri umferð kylfinga 5. maí næstkomandi. En í ljósi þess hvað Garðavöllur kemur rosalega vel undan vetri og hversu vel hefur gengið að undirbúa völlinn getum við vonandi flýtt opnun og opnað hann sem fyrst, en næstu dagar koma til með að varpa frekari ljósi á það,“ segir Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis, í samtali við Skessuhorn síðdegis á mánudag. „Síðustu dagar, eftir að fór að hlýna í veðri, hafa gefið vellinum svakalega mikið. Frostið er alveg farið úr honum og hann er farinn að grænka mjög vel. Sjálfboðaliðar hafa verið að störfum á vellinum í þrjá daga og við höfum sömuleiðis fengið vallarstarfsmenn fyrr til starfa en venjulega. Búið er að valta flatirnar og slá þær allar einu sinni. Núna erum við að slá teigana og byrjuð að slá úti á velli í kringum brautirnar,“ segir hún. Jafnframt er verið að ljúka við breytingar á 3. teig, sem farið var af stað með síðasta haust. „Hann verður tyrfður í dag og þetta lítur allt saman mjög vel út. Nokkrum glompum hefur verið lokað og svo erum við að byggja upp tvo nýja teiga á 13. braut sem verða teknir í notkun í sumar,“ segir Rakel.

Spenna og eftirvænting

Framkvæmdastjórinn segist merkja mikla eftirvæntingu fyrir komandi sumri meðal kylfinga enda margir sem komust ekki í fyrirhugaða golfferð í vor. „Við finnum að það er hugur í mönnum og mikil jákvæðni. Golfið er náttúrulega íþrótt sem menn geta leikið úti í næði og nægu plássi. Veiran og ástandið í þjóðfélaginu hefur þar af leiðandi ekki mikil áhrif á hana. Hún hefur kannski áhrif á mótahald og stærri viðburði en ég veit að almennir kylfingar verði duglegir að spila í sumar,“ segir Rakel. „Nýliðum hefur fjölgað mikið í klúbbnum fyrir sumarið. Ég hef ekki tekið saman tölur yfir nýliðun í klúbbnum en hún er töluverð. Stjórn klúbbsins tók um daginn ákvörðun um að breyta svokallaðri fjaraðild, fyrir þá sem hafa lögheimili utan póstnúmeranna 300 og 301. Það er byrjað að kvissast út og sala á þeirri félagsaðild fer vel af stað þó við höfum ekkert auglýst hana enn sem komið er,“ segir hún. „Fyrsta stigamót GSÍ verður haldið hér helgina 22.-24. maí og á það mót koma allir bestu kylfingar landsins. Við erum byrjuð að undirbúa það og langar að gera mikið úr því. Þannig að það er eftirvænting hjá öllum og mikil spenna,“ bætir hún við. „Félagsaðstöðuna ætlum við að nýta til hins ýtrasta. Nú er komið tæplega ár síðan við fengum nýja húsið og við sjáum að við erum orðin mjög samkeppnishæf við golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu. Núna er Garðavöllur orðinn raunverulegur valkostur fyrir stærri mót og stærri hópa kylfinga,“ segir Rakel Óskarsdóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira