adsendar-greinar Mannlíf
Sigurjón Líndal Benediktsson og Lúkas Guðnason sýna verk sín í Safnahúsi Borgarbyggðar. Ljósm. arg.

Ungir listamenn sýna verk í Safnahúsi Borgarfjarðar

Í Safnahúsi Borgarfjarðar stendur nú yfir sýning á verkum sem þeir Lúkas Guðnason og Sigurjón Líndal Benediktsson, í daglegu tali kallaður Jónsi, unnu fyrir hlaðvarpsþáttinn Myrka Ísland. Lúkas og Jónsi eru báðir úr Borgarfirði, fæddir árið 2004. Blaðamaður Skessuhorns kíkti í Safnahúsið þar sem hann skoðaði sýninguna þeirra og ræddi við listamennina um verkin þeirra og listina.

Velur blýantinn

Aðspurður segist Lúkas kjósa blýantinn frekar en málninguna en hann hefur verið að teikna frá því hann var um fjögurra ára gamall. „Ég byrjaði samt ekki að teikna af neinni alvöru fyrr en ég var svona tólf ára. Þá fór ég að teikna eiginlega á hverjum degi. Ég er frekar vanafastur og lítið fyrir að prófa nýtt svo ég held mig við blýantinn en nota stundum kol líka,“ segir Lúkas og brosir. Hann segist mest teikna myndir af fólki. „Ég er lítið að teikna dýr eða náttúruna. Mér þykir bara skemmtilegast að teikna manneskjur,“ segir hann. Spurður hvort listaáhuginn komi úr fjölskyldunni segir hann: „Það eru ekkert margir listamenn í fjölskyldunni en amma mín er mikið að mála og bróðir hennar var líka mjög listrænn svo ætli ég hafi þetta ekki úr fjölskyldunni hans pabba,“ svarar hann.

Gerir eiginlega allt

Jónsi hefur verið að teikna og mála síðan hann man eftir sér en byrjaði einnig af fullri alvöru um tólf ára aldurinn. „Þá fór ég að hugsa að þetta væri kannski eitthvað sem ég gæti gert og unnið við í framtíðinni,“ segir Jónsi sem er í dag á listnámsbraut við Verkmennaskólann á Akureyri. Til að byrja með var hann mikið að teikna fólk en í dag er hann farinn að prófa ýmislegt nýtt. „Ég teikna bara allskonar núna; náttúru, blóm, fólk og eiginlega hvað sem er, nema ekki dýr,“ segir hann og hlær. Aðspurður segist Jónsi bæði teikna og mála. „Ég geri eiginlega allt,“ svarar hann en Jónsi hefur mikið verið að teikna með tússlitum, akrýl málningu, trélitum, olíulitum, pennum, bleki og kolum.

Myrka Ísland

Eins og segir hér að framan voru verkin á sýningunni í Safnahúsi Borgarfjarðar unnin fyrir hlaðvarpsþáttinn Myrka Ísland. En í þeim þætti segir sagnfræðingurinn Sigrún Elíasdóttir frá atburðum sem gerðust á tíma sem lítið er til af myndum frá. Hafði hún þá samband við Lúkas og Jónsa um að teikna myndir fyrir kynningarefni þáttanna. En hvernig er að teikna myndir svona eftir pöntunum? „Það er eriftt að vita hvar maður á að byrja, en annars er alveg misjafnt hversu erfitt það er,“ svara þeir. „Ég byrja oftast á að skissa upp allskonar þar til ég hitta á eitthvað sem mér líkar við og held þá áfram með það,“ segir Lúkas og Jónsi tekur undir það.

Drungalegar myndir

Myndirnar sem þeir teikna fyrir hlaðvarpsþættina eru frekar drungalegar en spurðir hvort þeir séu mikið að teikna síkar myndir svara Lúkas því játandi en Jónsi segist minna vera í því. „Ég er mjög hrifinn af því sem er drungalegt og kannski ekki alltaf bara happí og æðislegt. Ég reyni samt alveg stundum að gera eitthvað aðeins gleðilegra, sérstaklega því amma á svo erfitt með hvað myndirnar mínar eru krípí. Hún biður mig stundum um að teikna líka eitthvað fallegt,“ segir Lúkas og hlær. „Ég er alveg að teikna drungalegar myndir líka en ekki svona mikið eins og Lúkas. Ég geri alveg bæði,“ segir Jónsi.

Hægt er að skoða sýningu á verkum þessara listamanna hjá Safnahúsi Borgarfjarðar, þá mun sýningin fara á ferð um Vesturland. Hún verður sett upp á Bókasafni Akraness, Snorrastofu í Reykholti, Vínlandssetrinu í Búðardal og í Frystiklefanum í Rifi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir