adsendar-greinar Mannlíf
Sauðburður er nú hafinn á Kverná. Ljósm. tfk.

Ungir bændur á Kverná hafa mörg járn í eldinum

Þau Júlía Sgorsaly og Rúnar Þór Ragnarsson eru ungt par í Grundarfirði en þau búa á bænum Kverná. Júlía er frá bænum Grossenhausen í Þýskalandi en flutti til Íslands árið 2016 til að læra íslensku í Háskóla Íslands. Núna er hún orðin virðuleg bóndakona á Vesturlandi og líkar það vel. Fréttaritari Skessuhorns fékk að trufla þau aðeins í sauðburðinum í liðinni viku.

Júlía var fyrst á Íslandi árið 2014 og vann þá í Austur Húnavatnssýslu og í Skagafirði við hestamennsku. Þá fór hún í nám í háskóla í Köln þar sem hún nam Norðurlandafræði. „Ég kom í heimsókn til Íslands um sumarið 2016 til að fara á Landsmót hestamanna á Hólum í Hjaltadal, en þar kynntust við Rúnar. Hugurinn leitaði því til Íslands að nýju. Ég skráði mig í nám í íslensku í Háskóla Íslands í skiptinámi frá Háskólanum í Köln.“ Árið 2018 flytur hún svo til Grundarfjarðar og þau Rúnar hefja búskap.

Rúnar Þór er uppalinn á Kverná en árið 2018 kaupa þau sig inn í bú foreldra hans og hefja búskap þar. Rúnar er einnig smiður og er að vinna fulla vinnu samhliða búskapnum. „Ég er líka að læra smíðar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og stefni á að ljúka sveinsprófi í haust,“ segir hann. Júlía starfar sömuleiðis utan búsins, en hún vinnur í íþróttamiðstöðinni í Grundarfirði. „Það er reyndar engin starfsemi í íþróttahúsinu núna út af Covid-19. En svo er ég líka í námi sem kallast Reiðmaðurinn frá Landbúnaðarháskóla Íslands og svo bókaranámi hjá Promennt.“ Hestamennska er í mestu uppáhaldi hjá henni. Rúnar og Júlía reka einnig hestaleigu á Kverná sem þau byrjuðu með fyrir tveimur árum. „Sumarið í fyrra gekk rosalega vel,“ segir Rúnar um hestaleiguna. „Við vorum með þrjár til fjórar ferðir á dag og voru þetta mest erlendir ferðamenn sem komu til okkar,“ bætir hann við. Útlitið er ekkert sérstaklega bjart fyrir sumarið hvað það varðar. „Við höldum samt áfram með hestaleiguna enda engin skuldsetning í þessu og vonandi lifnar yfir henni þegar þessu veiruástandinu lýkur,“ segja þau bjartsýn.

Á Kverná eru bæði kindur og hross. „Við erum með þrjúhundruð kindur, hesta, tvo hunda, þrjár kanínur, tvo ketti, fimmtán hænur og einn hana,“ bætir Júlía við og er með fjöldan á tæru. Þau eru bjartsýn á framtíðina og hlakka til að takast á við verkefnin sem hún ber í skauti sér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir