adsendar-greinar Mannlíf
Anna Sólrún er full tilhlökkunar fyrir nýja starfinu. Ljósm. glh.

„Tónlist er allstaðar“

Anna Sólrún Kolbeinsdóttir hefur verið ráðin tónmenntakennari við Grunnskólann í Borgarnesi. Hún byrjaði í nýja starfinu á mánudag í síðustu viku og er full tilhlökkunar fyrir vetrinum. „Þetta er algjörlega nýtt fyrir mér og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ segir Annar Sólrún í spjalli við blaðamann Skessuhorns. „Ég ætla mér að hafa þetta létt og skemmtilegt og hef verið að nýta tímann, frá því ég hóf störf, til að skipuleggja veturinn.“ Nokkur ár eru síðan síðast var boðið upp á fasta tónmenntakennslu við grunnskólann.

Var ekki í atvinnuleit

Það var ekki á döfinni hjá Önnu Sólrúnu að starfa hjá Grunnskólanum í Borgarnesi. Sjálf var hún nýbyrjuð að vinna í leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi og líkaði vel. „Ég sá stöðu tónmenntakennara auglýsta en var ekkert að hugsa frekar út í það þar sem ég var nýbyrjuð á Uglukletti og líkaði vel. Ég ætlaði ekki að vera gellan sem væri hoppandi á milli vinnustaða og vildi alls ekki hafa slíkt orð á mér,“ útskýrir Anna Sólrún hreinskilin. „Hún Systa Valgarðs, deildarstjóri og kennari í grunnskólanum, hafði samband við mig og hvatti mig til að sækja um en alltaf hrissti ég það af mér, enda ekkert í atvinnuleit. Systa hafði svo mikla trú á mér og í rauninni lét mig ekkert í friði þangað til ég sótti um,“ bætir Anna við og hlær. „Svo ég sótti um en fór auðvitað um leið til Kristínar skólastjóra í Uglukletti, alveg miður mín, og tilkynnti henni hvað ég hefði nú gert. Ég var í hálfgerðum bömmer yfir þessu öllu saman en Kristín tók þessu svo vel og sýndi mér mikinn skilning,“ segir Anna þakklát.

Vill virkja tónlistaráhugann

Anna Sólrún spilar á píanó og hefur verið í tónlistarnámi tengt hljóðfærinu um helming ævi sinnar, tekið tiltekin próf og þar frameftir götum. „Ég var að læra tónfræði og hvaðeina. Ég ætla nú samt ekki að fara að vera með þessa djúpu, ströngu tónfræðikennslu fyrir krakkana,“ segir Anna létt í bragði. „Mig langar að kynna krökkunum fyrir tónlist og takti almennt. Sýna þeim hvað tónlist er ótrúlega breið flóra, að hún sé í rauninni allsstaðar.“

Fyrsti til sjöundi bekkur mun verða með fastan tónmenntatíma í stundatöflu sinni en nemendur á unglingastigi fá að velja sjálfir hvort þeir vilji nýta sér tónmennt. „Mér finnst viðhorfið til tónmenntar vera svolítið; sitja og syngja. Ég ætla ekkert endilega að vera eingöngu þar. Mig dreymir um að krakkarnir hafi áhuga á því að grafa ofan í tónlistarsöguna hjá hinu og þessu tónlistarfólki eða hljómsveitum. Finna til dæmis út úr því hvernig Bítlarnir komu til og af hverju þeir urðu eins frægir og raun ber vitni. Mig langar rosalega að krakkarnir spyrji spurninga og forvitnist um tónlist almennt. Svo væri geggjað að stofna skólahljómsveit eða jafnvel kór ef áhugi er fyrir hendi. Bara fyrst og fremst að efla áhuga krakkanna fyrir tónlist, sama hvernig tónlist það er,“ segir Anna Sólrún áhugasöm.

Gott og vont

Anna segist kunna ýmislegt þegar kemur að tónlist en aldrei hefur hún verið með fulla kennslustofu af nemendum til að kenna svo þetta er allt saman nýtt fyrir henni. „Ég kenndi í tónlistarskólanum á Hólmavík í einn vetur sem var í rauninni mjög handahófskennt. Ég var 18 ára og bjó í Þýskalandi þar sem ég var bara að lifa lífinu og temja hesta í rólegheitum. Þá hefur fyrrum píanókennari minn samband við mig og tilkynnir mér að hann sé að fara í fæðingarorlof og ég eigi að koma heim og leysa sig af. Ég hélt hann væri að grínast en aldeilis ekki. Hann var þá búinn að rýma gestaherbergið og sagði bara, þú kemur,“ segir hún og hlær. „Ég kom heim, fór að kenna í tónlistarskólanum á Hólmavík einn vetur. Þarna var bara einn og einn í einu sem var rosa kósí svo það verða töluverð viðbrigði að hafa fulla stofu af nemendum.“

Anna segist ætla að hafa námsfyrirkomulagið létt og skemmtilegt og bætir því við að þar sem ekki hefur verið föst tónmenntakennsla síðustu ár fái hún frjálsar hendur til að skipuleggja námsefnið. „Þetta er svona gott, vont. Maður er ekki að koma inn í starf þar sem allt er í föstum skorðum svo ég hef mjög frjálsar hendur til að gera það sem ég vil. Á móti kemur er áskorun að vita hvar skal byrja og finna upp á hvað skal gera. En ég er komin í allar Facebook grúbbur tileinkaðar tónmennt til að sækja mér innblástur. Aðrir tónmenntakennarar eru duglegir að deila sinni reynslu og sínum verkefnum með okkur hinum og ég er ofsalega þakklát fyrir það. Ég er komin með fullt af hugmyndum og er mjög spennt fyrir þessu,“ segir Anna að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira