Fréttir

Minningartónleikar um Ólaf Garðarsson trommuleikara

Ólafur Garðarsson tónlistarmaður hefði fagnað 75 ára afmæli 12. júlí, en hann lést síðastliðið vor. Af því tilefni ætla félagar Ólafs að halda honum til heiðurs minningartónleika á Hvanneyrarkránni í Borgarfirði klukkan 20 á laugardaginn. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Ólafur Garðarsson var fæddur á Ísafirði og bjó þar til tveggja ára aldurs en þá flutti hann með móður sinni til Reykjavíkur. Hann fór ungur að spila á trommur sem urðu hans aðal hljóðfæri síðan. Hann var einn af stofnendum skólahljómsveitar Langholtsskóla sem síðar varð landsfræg undir nafninu Tempó. Árið 1964 vann hljómsveitin sér til frægðar að hita upp fyrir bresku bítlasveitina Swinging Blue Jeans og síðar árið 1965 fyrir ennþá frægari sveit, Kinks.

Síðar átti hann eftir að gera garðinn frægan með flestum vinsælustu hljómsveitum Íslands. Nægir þar að nefna Óðmenn, Trúbrot og Náttúru. Ferilinn endaði hann með hljómsveitinni Forsælu í Borgarfirði.