Fréttir
Fjórðungsmót Vesturlands fór fram í Borgarnesi í síðustu viku, dagana 2.-6. júlí. Mótið þótti takast afar vel og má þakka það góðri skipulagningu, glæsileg hross voru sýnd, knapar í fremstu röð og veðrið var gott. Meðfylgjandi mynd er tekin að aflokinni heiðurssýningu frá ræktunarbúi Ollu í Nýjabæ á laugardagskvöldinu. Ljósm. mm

Fjórðungsmót Vesturlands í Borgarnesi tókst með ágætum – myndasyrpa

Mikil hestaveisla var í boði í liðinni viku þegar Fjórðungsmót Vesturlands fór fram í Borgarnesi. Mótið hófst á miðvikudag en lauk síðdegis á sunnudaginn. Fóru þá gestir, knapar og starfsmenn mótsins sælir og glaðir heim. Var það einróma álit gesta og keppanda að mótið hafi heppnast vel, bæði hvað varðar skipulagningu, tímasetningar og utanumhald. Þar á framkvæmdastjórn mótsins heiður skilinn með þá Magnús Benediktsson framkvæmdastjóra og Eyþór Jón Gíslason í broddi fylkingar. Vallarstarfsmenn tryggðu góðar brautir og er rétt að hæla Björgvini, Óla og öðrum fyrir þeirra þátt. Þá var veður gott allan mótstímann en slíkt er lykilatriði til að njóta.