adsendar-greinar Mannlíf
Sveinbjörn Reyr Hjaltason. Ljósm. Skessuhorn/mm

Sveinbjörn Reyr tekst á við nýjan veruleika eftir vélhjólaslys

Sumardagurinn fyrsti fyrir rúmu ári hverfur Sveinbirni Reyr Hjaltasyni á Akranesi seint úr minni. Þann dag lenti hann í óhappi á motocrossbrautinni við rætur Akrafjalls, hendist á hjóli sínu út fyrir braut og liggur þar um tíma eða þar til félagi hans finnur hann eftir nokkra leit. Sveinbjörn Reyr brotnar við 6. hryggjarlið og er lamaður eftir slysið. Eftir sjálfu slysinu man hann lítið sem ekkert, einungis einhverskonar myndbrot eða óljósar glefsur. Samhliða því að vera í endurhæfingu á Grensás hefur Sveinbjörn, eða Svenni eins og hann er jafnan kallaður, glímt við ýmis eftirköst slyssins. Meðal annars þverrandi mátt í hægri hendi og lærbrot. Framundan er aðgerð 7. maí sem felur í sér að tappa af vökva sem þrengir að mænunni. En það er fleira framundan hjá Svenna og vinum hans. Næstkomandi laugardag standa jafnaldrar hans að áheitastökkum í Akraneshöfn. Safna á peningum til stuðnings Svenna þannig að hann geti fest kaup á sérútbúnu torfæruhjóli sem framleitt er í Ameríku. Hjól sem þetta kostar á þriðju milljón króna. Blaðamaður Skessuhorns hitti Svenna að máli síðastliðinn mánudag og fékk að fræðast um slysið og síðasta ár í lífi fjölskylduföðursins á Reynigrundinni, sem skyndilega þurfti að takast á við nýjar aðstæður og áskoranir.

Með tækjadellu frá unga aldri

Svenni í keppni á Akureyri. Ljósm. úr safni.

Sveinbjörn Reyr er fæddur 1971 og uppalinn á Akranesi. Aðspurður segir hann að nafnið Reyr sé dregið af hinum vellyktandi ilmreyr sem sumsstaðar vex. Foreldrar hans voru bæði Vestfirðingar en settust að á Akranesi eftir að þau höfðu fest ráð sitt. Faðir hans kom úr Laugardal við Ísafjarðardjúp en móðir hans, sem látin er fyrir allmörgum árum, var úr Álftafirði. Þau höfðu kynnst við nám í skólanum á Reykjanesi. Eiginkona Svenna er Guðný Ósk Stefánsdóttir og saman eiga þau þrjár dætur. „Ég ólst því upp hér á Akranesi við allt það frjálsræði sem það fól í sér. Ég var ungur farinn að keyra allskyns tæki enda tækjadellan talsverð. Byrjaði á skellinöðru en var auk þess á fjórhjólum, snjósleðum og svo á krossurum. Ég lærði bifvélavirkjun og hef starfað á Bílaverkstæði Hjalta Njálssonar allt frá 1995, nær allan minn starfsferil, ef undan eru skilin tvö sumur þegar ég fór með pabba að vinna á jarðýtu fyrir vestan 2006 og 2007. Motocross íþróttinni kynntist ég fyrst 2008 og var byrjaður að keppa 2009. Tók þetta alla leið eins og margir félagar mínir hafa gert,“ segir Svenni.

„Félagið okkar á Akranesi er stórt og fjölmennt og þar hefur verið öflugt unglingastarf sem við getum verið stoltir af.“ Svenni viðurkennir að deyfð hafi verið yfir félaginu síðasta sumar, sumpart vegna Covid-19 en einnig vegna þess að slysið setti óhug í mannskapinn. Menn hvíldu því margir hjólin. „Vonandi mun áhuginn og iðkunin vaxa að nýju,“ segir Svenni sem sjálfur ber titilinn brautarstjóri í Akrabraut sem Vélhjólaíþróttafélag Akraness á og rekur.

Slysið

Fjölskyldan á Reynigrund. F.v. Sveinbjörn Reyr, Guðný Ósk og dæturnar Ragna Dís, Agnes Rós og Stefanía Sól. Myndin er tekin á stúdentsdegi yngstu dótturinnar. Ljósm. Kim Klara.

Svenni segir að slysið síðasta vor sé sveipað þoku í minningu hans. „Þetta gerist á sumardaginn fyrsta, 23. apríl. Við félagar vorum að taka út brautina og ákveða breytingar fyrir sumaropnun. Ég var í brautinni og að koma á stökkpall í henni og man eiginlega fátt eftir það. Man þó einhvers konar myndbrot frá því að ég keyri á stökkpallinn og svo hef ég einhvers konar smá mynd í minningunni frá því ég er í sjúkrabílnum á leiðinni suður. Allavega hendist ég út fyrir brautina og hjólið lendir ofan á mér. Kannski hefur hjólið runnið á klakabunka undir moldarlaginu, ég veit það hreinlega ekki. Eftir stökkið og fallið ligg ég í smá tíma þar til félagi minn finnur mig loks. Þá var hann búinn að keyra tvo hringi eftir brautinni til að leita að mér en sá mig ekki í fyrstu. Meðan ég beið eftir aðstoð nær bensín að leka yfir fæturnar á mér og við það verður einhvers konar efnabruni í húðinni. Sá bruni átti eftir að leika stórt hlutverk í að hægja á bataferlinu hjá mér. Svo hefur einnig tafið mig að þegar ég var í teygjuæfingum hér inni á stofugólfi lærbrotnaði ég um verslunarmannahelgina. Líklega hefur verið leynt brot í beini eftir slysið. Þegar ég tók of mikið á því brotnaði einfaldlega leggurinn með miklum hvelli. Ég fór því í aðgerð og brotið neglt saman. Það gekk vel en skurðsárið ætlaði aldrei að ná að gróa. Þurfti ég því að fara í nokkrar aðgerðir þar sem reynt var að flýta því að sárið greri og þurfti að liggja inni á spítala í einar fimm vikur vegna þessa.“

Stefnan sett út í náttúruna

En fleira átti eftir að hægja á batanum hjá Svenna og enn ein aðgerðin er framundan. „Í nóvember finn ég að mátturinn í höndunum er að fjara út. Þá kom í ljós að mænugöngin voru að stíflast við það að mænan bólgnar út. Þessi mænuvökvamyndun er ofarlega í mænunni og tekur því máttinn úr höndunum. Sjálft hryggbrotið var í 6. hryggjarlið en bólgan var í nóvember komin alla leið upp í 6. hálslið. Ég var því sendur í aðgerð í desember sem tekst að hluta til. Ennþá er tilfinning í hægri hendinni en enginn máttur í henni. Læknirinn hefur því ákveðið að taka mig inn í aðgerð 7. maí næstkomandi og nú á að reyna að létta á þrýstingnum.“

Svenni keyrir þrisvar í viku á endurhæfingardeildina í Grensás þar sem hann fer í tækjasal auk þess sem iðju- og sjúkraþjálfarar hjálpa honum við æfingar. Hann segir lán í óláni að þau Guðný Ósk eiga einbýlishús á einni hæð á Grundunum og þurfti litlu að breyta í húsinu til að það yrði hjólastólafært. En með ómetanlegri hjálp góðra vina og fyrirtækja var aðgengi að utan gert aðgengilegt og innandyra þurfti litlu að breyta. Þá hefur heimilisbíllinn verið útbúinn til aksturs fyrir hann og einnig festi hann kaup á notuðum Benz lyftubíl. Vinir og félagar hans lögðust síðan á eitt við mála bílinn og gera hann enn betri. Svenni getur því ekið allra sinna ferða en nú er stefnan sett á enn meira frjálsræði með kaupum á torfæruhjóli fyrir hreyfihamlaða. Nú skal haldið út í náttúruna.

Torfæru þríhjól

„Það er eiginlega örstutt síðan ég heyrði fyrst af þessum hjólum, sem framleidd eru í Ameríku. Græjan sem nú stendur til að kaupa er frá fyrirtæki sem heitir Lasher Sport. Þetta er nokkurs konar torfæru þríhjól sem hægt er að knýja með handafli en er auk þess með rafmagns hjálparmótor. SEM samtökin, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, fundu þessi hjól í USA og kynntu fyrir félagsmönnum. SEM hefur ákveðið að hefja söfnun fyrir fjórum svona hjólum sem leigð verða út til hreyfihamlaðra viku í senn. Ég hef hins vegar áhuga á að eignast fimmta hjólið og geta haft það hér heima í skúr til taks,“ segir tækjamaðurinn Svenni sem kveðst fullur tilhlökkunar fyrir kaupum á þessu nýja hjóli.

„SEM samtökin eru frábær. Félagar úr þeim koma upp á Grensás og miðla upplýsingum um lífið framundan hjá okkur sem lendum í slysum. Þannig miðla samtökin ýmsum gagnlegum upplýsingum og hjálpa fólki í minni stöðu við að takast á við nýjan og gjörbreyttan veruleika. Ekki hvað síst er formaður SEM, Arnar Helgi Lárusson fisksali, einstakur maður. Hann á sjálfur öll hugsanleg met í hjólastólaakstri. Í sumar hefur hann ákveðið að hjóla áheitaferð eina fjögur hundruð kílómetra frá Jökulsárlóni og út á Reykjanes. Í þeirri ferð ætlar hann að safna fyrir fjórum hjólum fyrir SEM samtökin. Ég sé hins vegar fyrir mér að svona torfæru þríhjól opni fyrir mér möguleika á að komast út í hreina loftið. Við höfum frábæra göngu- og hjólastíga hér á Akranesi, góðar götur og gott veður. Á svona hjóli get ég í staðinn fyrir að fara út að hjóla eða hlaupa, ekið um allt, hitt fólk og tekið virkari þátt í lífinu að nýju.“

Stokkið til áheits

Hjól frá Lasher Sport svipað því sem til stendur að kaupa fyrir afrakstur söfnunar Club71 og fleiri velunnara Svenna.

Aðspurður segir Svenni að torfæruhjól af þessu tagi kosti að grunninn til um tvær milljónir króna, en hægt er að velja mismunandi aukabúnað, eins og fjöðrunarbúnað og fleira og þá hleypur verðið upp um nokkur hundruð þúsund krónur. „Ég hef því stefnuna á að kaupa eigið hjól og nota það sem nokkurs konar æfingatæki, viðra mig helst á hverjum degi. Ég ætla þó að bíða með að staðfesta kaup á mínu hjóli, sjá til hversu vel lækninum tekst að koma mætti í hendurnar og haga vali á aukabúnaði eftir því,“ segir Sveinbjörn Reyr Hjaltason að endingu.

Eins og fram kemur í frétt hér til hliðar hefur firnasterkur jafnaldrahópur Svenna ákveðið að standa fyrir áheitastökkum í Akraneshöfn laugardaginn 1. maí næstkomandi. Þá gefst öllum þeim sem vilja leggja söfnuninni lið kostur á að heita á stökkvarana, nú eða leggja beint inn á söfnunarreikning. Í forsvari fyrir átakinu er Pétur Magnússon jafnaldri Svenna og fleiri í Club71 en Pétur og Svenni ólust báðir upp á Grundunum við frjálsræði og útileiki af ýmsu tagi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir