adsendar-greinar Tækni og vísindi
Óskar Guðjónsson er varaformaður Landssambands sumarhúsaeigenda og húseigandi í Munaðarnesi. Ljósm. mm.

Öryggisnúmer geta verið lífsnauðsynleg í sumarhúsum

Eigendum sumarhúsa hér á landi býðst að sækja um svokölluð öryggisnúmer sem fest eru með plötum á útvegg húsa og sömuleiðis innandyra. Þetta er þó valkvæð þjónusta sem hver og einn ákveður hvort hann kaupir. Sótt er um öryggisnúmer til Landssambands sumarhúsaeigenda sem úthlutar þeim. Við úthlutun neyðarnúmers er húsið samhliða skráð í gagnagrunn viðbragðsaðila Neyðarlínunnar-112 með hnitsetningu húss. Þegar slys eða óhapp verður í sumarhúsi er númerið gefið upp og geta þá viðbragðsaðilar, svo sem sjúkrabílar, lögregla eða slökkvilið, þá ekið beint að viðkomandi húsi með tilheyrandi tímasparnaði.

Óskar Guðjónsson er varaformaður Landssambands sumarhúsaeigenda. Sjálfur á hann sumarbústað í landi Munaðarness í Borgarfirði. Nýverið varð slys í húsi hans og vakti hann í kjölfarið máls á því hversu mikið það hafi hjálpað í því tilfelli að hafa skráð neyðarnúmer á húsinu, þegar hringt var í 112. “Sjúkraflutningamenn úr Borgarnesi gátu staðsett okkur á leið sinni á vettvang, opnað öryggishlið á afleggjaranum og voru komnir til okkar einungis fimmtán mínútum eftir að útkallið barst. Þetta sýndi mér vel hversu nauðsynlegt það er að hafa neyðarnúmer skráð í húsinu. Ég vil því hvetja alla sem ekki hafa slík númer að fá sér þau hið fyrsta,” sagði Óskar í samtali við Skessuhorn. Því má bæta við að hægt er að panta neyðarnúmer á sumarhús með að hringja í síma 581-3200 eða senda tölvupóst á sveinn@sumarhus.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir