adsendar-greinar Mannlíf

Örninn varðveitti baukinn í áratugi

Byggðasafn Borgarfjarðar er eitt safnanna í Safnahúsinu í Borgarnesi. Söfnun muna hófst fyrir margt löngu og einn fyrstu gripa sem safnið eignaðist var tóbaksbaukur sem hafði verið í eigu Jóns Jónssonar bónda í Knarrarnesi. Saga bauksins er áhugaverð.

Jón var fæddur árið 1809 og varð einungis 37 ára gamall. Einhvern tímann á árunum 1830 til 1840 fór hann í Hraundalsrétt og týndi þá bauknum á heimleið. Hann hafði farið réttar götur og bað menn er fóru sömu leið rétt á eftir, að gá að bauknum og færa sér hann. En baukurinn kom aldrei fram og var ýmsum getum leitt að því hver hefði hirt hann. Síðar kom hið sanna í ljós og hér kemur sagan af örlögum bauksins:

Fram af Hamraendum er klettur, er heitir Sáta og þar hafði örn orpið, svo lengi sem menn mundu. Um aldamótin 1900 hætti örninn að verpa í Sátu, og var þá hreiðrinu sundrað. Þar lá þá baukurinn, því það var „assa“ gamla, sem hafði hirt hann og borið í hreiðrið til unga sinna.

Tóbaksbaukurinn er góður gripur, úr rostungstönn og silfurbúinn. Á svokallaðan stéttartappa (tappi í áfyllingargati bauksins) er grafinn stafurinn J, sem var upphafsstafur Jóns bónda.

Sá sem gaf baukinn til byggðasafnsins í Borgarnesi var Friðjón Jónsson á Hofsstöðum í Álftaneshreppi. Friðjón var fæddur árið 1895. Má leiða að því líkum að í það minnsta hálf öld sé síðan hann færði safninu gripinn sem þá hafði verið í hreiðri össunnar í 60 til 70 ár þar á undan. Svo hér er á ferðinni gripur með sögu sem nær allavega um 120 ár aftur í tímann.

Baukurinn er gott dæmi um þá merku gripi sem byggðasöfnin varðveita og sögurnar um fólkið að baki þeim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira