adsendar-greinar Bílar
James Einar Becker með Land Rover Discovery sport í bakgrunni. Ljósm. Lara Becker

Lét drauminn um bestu vinnu í heimi rætast

„Ég hef horft á þættina Top Gear í örugglega tuttugu ár og lengi haldið því fram að þeir sem sjá um þá þætti séu í bestu vinnu í heimi. Ég áttaði mig á að ég yrði aldrei ráðinn í svona vinnu nema ég myndi búa hana til sjálfur,“ segir James Einar Becker sem nú hefur farið af stað með þættina Tork Gaur. Í þáttunum reynsluekur James nýjum bílum og tekur það upp um leið og hann segir áhorfendum frá bílunum og hvernig hann upplifir þá. Um er að ræða stutta þætti sem hver er um þrjár til fjórar mínútur að lengd. Þættina vinnur James meðal annars í samstarfi við BL bílaumboðið, Víkurvagna og Kormák og Skjöld. „Ég er sjálfur að vinna sem markaðsstjóri við Háskólann á Bifröst og þar bý ég til markaðsefni. Ég er mikið að búa til myndbönd og auglýsingar og fannst ég alveg fullfær um að framleiða svona efni sjálfur. Þarna var ég líka að sameina tvö helstu áhugamálin mín sem eru kvikmyndagerð og bílar,“ segir James.

Samvinna við BL

James hafði áður gert trailer að þáttunum fyrir hugmyndadaga hjá RÚV en var hafnað. „Ég gafst alls ekki upp við það, enda sá ég ekki fyrir mér að framleiða svona þætt fyrir línulega dagskrá. Ég ákvað að taka málin bara í eigin hendur en vantaði þá aðgang að bílum,“ segir hann. „Mér datt þá í hug að selja bílaumboði þessa hugmynd. Bílaumboðin eru líka oftast bara með auglýsingar frá framleiðendum sem eru þá ekki gerðar á Íslandi. Það er erfitt að finna auglýsingar af bílum við íslenskar aðstæður,“ heldur James áfram. Hann ákvað að hafa samband við BL bílaumboðið því það umboð hefur flestar gerðir bíla. „Þau eru með níu merki og ég sá fram á að fá ansi góða flóru af bílum hvað varðar stærð, gerð og tegund. Ég náði að selja markaðsstjóra BL þessa hugmynd og fékk um hálft ár til að vinna þetta efni,“ segir hann.

Gerir mest sjálfur

Aðspurður segist James að mestu vinna þættina einn en hann fær stundum aðstoð þegar hann þarf bæði að láta keyra bíl og taka upp. „Þá hef ég fengið einhvern til að keyra fyrir mig, mest konuna mína en líka systir mína og manninn hennar. En ég geri handritin sjálfur, tek upp og klippi. Ég hef svo fengið smá aðstoð við markaðssetningu, þá við að finna markhópa á samfélagsmiðlum,“ segir James. „Þetta er svona 85% ég sjálfur,“ bætir hann við og hlær. En hversu langan tíma hefur hann fyrir hvern bíl? „Það er misjafnt hvað ég hef fengið að hafa bílana lengi. Það fer mikið eftir því hver hugmyndin er og hvert ég má fara með bílinn. Ég fékk í eitt skipti veglegan BMW sem ég sótti í lok dags og þurfti að skila aftur í hádeginu daginn eftir. Það var smá pressa. En oft hef ég fengið bílana um miðjan dag á laugardegi og fengið að hafa þá fram á mánudagsmorgun,“ svarar James og bætir við að þetta sé í raun bara helgarhobbí hjá honum.

Tengja bílana við raunveruleikann

Í einum þættinum sýnir James frá Isuzu pallbíl en þá nýtti hann tækifærið og notaði bílinn til að flytja hestana sína milli landshluta. „Ég er með tvo hesta sem ég var með í hagagöngu í Reykholtsdal en ég þurfti að koma þeim yfir á suðurlandið. En ég átti ekki bíl né kerru til að gera það. Ég fékk þá þennan Isuzu pallbíl til að sýna besta bílinn til að draga hestakerru. Kerruna fékk ég svo að láni frá Víkurvögnum og sýndi þá kerruna líka í þættinum. Þetta er að mínu mati besti þátturinn því í honum eru hestar, pallbíll og hestakerra, hvað viltu meira?“ segir hann og hlær. „Svo keyrði ég líka yfir Uxahryggi með hestana en það er myndræn og falleg leið,“ segir James og bætir við að hann reyni eins og hægt er að tengja bílana við raunveruleg verkefni til að sýna bílana enn betur og hvað þeir geta.

Brattabrekka falleg

James er búsettur á Bifröst og segist mikið hafa notast við umhverfið í Borgarfirði við upptökur á þáttunum. „Ég hef farið á Húsafell, Reykholtsdal og líka verið hér við Hreðavatn. En ég hef líka mikið notað Bröttubrekku, þar er eitt fallegasta útsýni af öllum heiðum á landinu og það er rosalega gaman að keyra kraftmikla bíla upp Bröttubrekku. Svo er ekki mikil umferð þar og ég þekki brekkuna eins og lófann á mér,“ segir James. „Það er líka fínt að keyra á bílunum hingað Vestur og kynnast þeim aðeins áður en ég byrja að taka upp. Á leiðinni reyni ég að finna eitthvað til að segja frá. Þó ég sé vissulega í samstarfi og reyni að finna björtu hliðarnar við bílana er ég alltaf hreinskilinn,“ segir hann. Þættirnir eru ellefu talsins og birtast einn í einu næstu fimmtudaga á öllum helstu samfélagsmiðlum eins og; Youtube, Facebook, Twitter, Linkedin og Instagram undir nafninu Tork Gaur. „Ég nota þetta verkefni líka svolítið til að læra inn á alla þessa samfélagsmiðla, hvað er að virka hvar og slíkt. Miðlarnir eru allir ólíkir og maður er svona alveg að detta í miðaldra svo það fer bara hver að verða síðastur að læra á og skilja alla þessa miðla,“ segir James og hlær. Fyrsti þátturinn birtist síðastliðinn fimmtudag þar sem James sýnir frá glæsilegum Hyundai.

Ekki allir sem fá þetta tækifæri

En er þetta í raun og veru besta vinna í heimi eins og James hélt? „Þetta er rosalega gaman, ég verð að segja það. Svo er þetta góð afsökun til að keyra nýja bíla á viku fresti. Það er ekki hver sem er svo heppinn að fá að prófa alla þessa glæsilegu bíla yfir heila helgi,“ svarar hann. Aðspurður segir James alls níu bíla vera sýnda í þáttunum en auk þess er hann með þætti sem sýna aðeins bakvið töldin. Hann heimsækir til dæmis BMW vottað verkstæði þar sem hann talar við einstaklinga í bílabransanum. „Ég ræði þar við bifvélavirkja um orkuskipti og hvernig þau hafa breytt starfinu á verkstæðunum. Menn eru ekkert lengur á kafi í olíu upp að öxlum. Þetta er allt annar raunveruleiki í dag. Þarna fara til dæmis bifvélavirkjar út á námskeið hjá framleiðendum BMW til að læra um nýjar vélar og hvernig þær virka. Þeir þurfa svo að ná prófum til að fá að vinna í þessum nýju bílum sem eru í ábyrgð. Ég sýni svona aðeins hvað það er sem fólk er að fá þegar það fer á BMW vottuð verkstæði með bílana sína. Ég reyni samt að vera ekki of nördalegur þegar ég er að segja frá og tala á mannamáli. Svo reyni ég líka að segja frá fleiru en bara túrbínum og öðru sem dellufólk hefur áhuga á. Ég reyni að miða að því að fólk fái umfjallanir um þá hluti sem það vill vita, eins og öryggismál og svoleiðis,“ segir James.

Vill gera fleiri þætti

Aðspurður segist hann vonast til að eiga eftir að gera enn fleiri þætti. „Það er líka svo gaman að búa svona á landsbyggðinni og fá að sýna aðeins frá þessu fallega umhverfi hér. Ég á enn eftir að taka upp á svo mörgum stöðum og gæti til dæmis tekið upp heila seríu á Snæfellsnesi. Það er líka svo gaman að síðan ég byrjaði á þessu er ég farin að horfa á umhverfið öðrum augum og spá mikið í því hvernig svæðin kæmu út á myndbandi,“ segir hann. En myndi hann þá halda áfram að vinna með BL? „Það hefur reynst mér vel og ég væri mikið til í að vinna með þeim áfram. En það væri líka gaman að komast í samstarf við einkaaðila sem eru að flytja inn svona ofur spes bíla, sportbíla eða ofurfjallajeppa. En við sjáum til með það,“ svarar hann. „Ég verð líka bara að þakka konunni minni og fjölskyldu fyrir að sýna mér skilning og skapa tækifæri fyrir mig til að sinna þessu áhugamáli. Það er ekkert sjálfgefið að geta vesenast í svona helgarhobbíi og þá er sannarlega gott að eiga góða að,“ segir James Einar Becker að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir