adsendar-greinar Erlent
Jóhann Lind í fullum skrúða, tilbúinn í að gefa saman japönsk hjón. Ljósm. aðsend.

Jóhann Lind Ringsted giftir Japani í hjáverkum

Borgnesingurinn Jóhann Lind Ringsted hefur búið í landi hinna rísandi sólar, Japan, í ein tíu ár. Hann býr þar ásamt eiginkonu sinni Ayaka og dótturinni Hönnu í hafnarborginni Sendai í norðurhluta Japan og starfar þar sem kennari. Kennarastarfið er þó ekki að eina sem hann sinnir en hann nýtir helgarnar til þess meðal annars að gefa Japani saman í hjónaband. Hann er þó ekki prestslærður maður. Skessuhorn sló á þráðinn til Jóhanns og spurði hann út í hvernig lífið gengi fyrir sig í Japan og hvernig þetta giftingastúss hefði komið til.

Jóhann er sonur hjónanna Jennýjar Lind Egilsdóttur og Gunnars Ringsted í Borgarnesi. Jóhann er reyndar fæddur í Danmörku en faðir hans stundaði á þeim tíma nám í tónlistarkennslu, musikvidenskap, við Kaupmannahafnarháskóla. „Mér skilst að það hafi verið kaldasti dagur ársins, þegar ég fæddist,“ segir Jóhann um upprunann. Þrátt fyrir að hafa fæðst í Danmörku segist Jóhann vera afar slakur í dönsku, rétt svo geti kynnt sig með nafni á dönsku. „Á leiðinni á milli Íslands og Japan millilendi ég stundum í Kaupmannahöfn. Ég hef lent í því á leiðinni að Danir halda mig vera Dana og ávarpa mig sem slíkan. Þegar ég reyni hins vegar að tala dönsku þá kemur bara japanska.“

Tveggja ára gamall fluttist hann með foreldrum sínum og systur, Guðríði Ringsted, í Borgarnes þar sem hann ólst upp. Hann gekk í Grunnskólann í Borgarnesi. „Það gekk á ýmsu í grunnskólanum en það varð í lagi í lokin,“ segir Jóhann og hlær dátt. Hann flakkaði síðan svolítið á milli skóla. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri. Þaðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Aftur norður á Akureyri í Verkmenntaskólann en hafnaði að lokum á Akranesi aftur þar sem hann lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut. Eftir stúdentspróf fór hann á kynningu háskólanna þar sem hann lenti fyrir tilviljun í japönsku deildinni. Jóhann segist alltaf hafa haft áhuga á japanskri menningu og þarna hitti hann fyrir nemanda sem kynnti námið í japönsku á afar sannfærandi hátt. „Þarna kviknaði áhuginn á Japan fyrir alvöru og í kjölfarið sótti hann um inngöngu í nám í japönsku og fékk inni. Námið er þannig uppbyggt að fyrstu tvö árin eru tekin hér heima en síðan býðst nemendum skiptinám á síðasta árinu í Japan.

Jóhann hafði í nokkur sumur starfað í Upplýsingamiðstöð Vesturlands í Borgarnesi. Í upplýsingamiðstöðina lagði leið sína fólk af ýmsum uppruna. Jóhann starfaði áfram í Upplýsingamiðstöðinni á meðan á háskólanáminu stóð. Hann segir frá því að Japani sem kom þangað hafi hreinlega verið í sjokki yfir að starfsmaður í upplýsingamiðstöð í fjarlægu landi skyldi tala móðurmálið hans. Eftir tíu ára dvöl í Japan segist Jóhann reyndar vera farinn að hugsa og dreyma á japönsku. Þegar hann meiðir sig segir hann til að mynda ekki lengur ái! heldur itai!

Hrossakjötið lygilega gott

„Í Japan hóf ég nám í háskólanum í Iwate en hann er einn af stærri háskólum norðausturhluta Japan og jafnframt einn helsti landbúnaðarháskólinn í Japan. Þetta er árið 2011, um hálfu ári eftir jarðskjálftann mikla og flóðin eftir hann. Ég var fyrsti Íslendingurinn í skólanum og fékk strax yfir mig spurningaflóð um hvort ekki væri kalt á Íslandi. Í fyrstu dró ég nú frekar úr því, það væri nú ekki svo kalt. Þessi vetur var mjög kaldur á Íslandi og fljótlega gafst ég upp á að útskýra þetta og sagði bara: jú, það er svakalega kalt á Íslandi,“ segir Jóhann og hlær.

Annað sem Jóhann var mikið spurður um voru norðurljósin og maturinn sem Íslendingar borða. „Það er margt svipað með mataræði Íslendinga og Japana. Báðar þjóðir borða mikinn fisk og einnig hvalkjöt. Ég hafði mjög gaman af því að sýna þeim myndir af sviðum. Það fannst þeim skrýtið. En þegar ég sagði þeim að við borðuðum hreindýr og jafnvel kanínur datt alveg af þeim andlitið. Kanínur eru bara gæludýr hjá Japönum og hreindýr sjá þeir eingöngu fyrir sér sem dráttardýr fyrir sleða.“

Þá segir Jóhann að Japanir borði hrossakjöt. „Það er alveg lygilega gott. Þeir skera hrátt folaldakjöt í mjög þunnar sneiðar og bera það fram með miso sósu. Þetta er vinsælt í Japan en reyndar ekki þar sem ég bý. Ég ræddi það við mág minn á Íslandi að það væri alveg upplagt að selja þetta á Íslandi. Það skrýtnasta sem ég hef séð er bjarnarkló, alveg rándýr matur. Þá borða Japanir líka lifandi smokkfisk. Það kemur reyndar fyrir að fólk kafnar af því að borða lifandi smokkfisk. Það gerist líka með rétt úr hrísgrjónadeigi sem er vinsæll nýársmatur. Það er samt aðallega eldra fólk sem lendir í því.“

Giftingin aðallega upp á „showið“

Þegar Jóhann er spurður út í tilurð þess að hann fór að gefa Japani saman í hjónaband segist hann hafa fengið skilaboð frá bandarískum vini sínum sem væri að spyrja fyrir vin hvort hann gæti mögulega haft áhuga á að gifta fólk. Um væri að ræða fyrirtæki sem leigði út presta fyrir giftingar. Eftir þetta gerðust hlutirnir hratt. Hann fékk handrit í hendurnar og fékk að fylgjast með giftingu. „Síðan var ég spurður hvort ég treysti mér til þess að gera þetta og svo bara gifti ég næstu hjón. Síðan er ég búinn að gifta fullt af fólki. Ég var stressaður fyrst en nú er þetta bara komið upp í vana. Þetta er svolítið sérstakt, allir hágrátandi enda mikilvæg stund. Það er alltaf það sama sem fer úrskeiðis hjá fólki og ég veit orðið upp á hár hvernig á að bregðast við.“

Giftingin sem Jóhann framkvæmir hefur enga lagalega þýðingu en er bara athöfn. „Giftingafyrirtækin vilja geta boðið upp á alla möguleika. Það geta verið giftingar sem tengjast trúarbrögðum ekki neitt. Svo eru klassískar shinto giftingar þar sem er boðið upp á shinto prest og ekta japanskan stíl. Þá er einnig boðið upp á búdda brúðkaup þó að þau séu ekki eins vinsæl. Í Japan eru jarðarfarir hins vegar flestar að búddískum sið. Trúarbrögð í Japan eru bland af shinto trú og búddisma. Kannanir sýna þó að trúarbrögð eru á undanhaldi en ýmis hjátrú og hefðir halda þó velli. „Það er margt sem Japönum finnst þeir verða að gera því að það er partur af hefðinni. Shintoismi tengist til dæmis ýmsu, svo sem lukku í lífinu. Svo eru margir Japanir kristnir. Það tengist helst Nagasaki en þar er mikið um kaþólikka. Þetta er aðallega upp á „showið.“

Karaoke í lokuðum klefum

Næst er Jóhann spurður út í á hvern hátt lífið í Japan er frábrugðið því að búa í Borgarnesi. „Japan er náttúrulega svo stórt á allan hátt. Maður var stundum latur að labba þegar maður var að alast upp í Borgarnesi og lét skutla sér hvert sem maður fór. Hér labba ég stundum marga klukkutíma á dag, bæði fyrir hreyfinguna en líka vegna þess að það er bara nóg að gera. Í Borgarnesi þekkja allir alla en hér þekkir maður eiginlega bara vinnufélagana og nokkra vini.“

Hvað félagslíf varðar segir Jóhann: „Þetta hefur verið mjög skrýtið í þessu Covid ástandi. Maður hefur lítið farið út að hitta vini eða vinnufélaga. Fyrir jólin í fyrra var svolítið um zoom partý. Það er rík hefð fyrir því að fara út með vinnufélögunum í Japan. Maður er talinn eitthvað skrýtinn ef maður tekur ekki þátt í því. Hér eru svokallaðir All you can drink (drekktu eins og þú getur) staðir út um allt. Ég hugsa að ef við myndum reyna eitthvað svoleiðis á Íslandi myndi hreinlega allt fara til helvítis,“ segir hann og hlær hátt. „Venjulega er byrjað á að fara á svoleiðis stað og drukkið. Síðan er haldið á annan stað sem er þá kallaður seinni drykkja. Síðan er yfirleitt endað á karaoke stað sem þarf ekki endilega að vera bar heldur getur það hreinlega verið lokaður klefi einhvers staðar.“

Nýbúinn að kaupa sér hús

Jólahald er með talsvert öðru sniði í Japan en á Íslandi. „Jólin eru meira svona fyrir fullorðið fólk sem er að „deita“ en það eru samt alveg krakkar sem vilja fá jólagjafir og þess háttar og það færist í vöxt. Það er allt skreytt hér með jólaljósum en um leið og 25. desember er liðinn hverfur allt slíkt. Þá er byrjað að undirbúa áramót Japana, Oshōgatsu.“ En hvað með jólamatinn? „Það er KFC sem er langvinsælast, lúxuskjúklingur frá KFC auk þess sem búðir bjóða líka upp á stóran kjúkling. Einnig borða Japanir humar um jólin.“

Aðspurður segist Jóhann ekki vera á leið heim til Íslands í bráð. Þau hjónin eru nýbúin að kaupa sér hús og eru að flytja inn í það. Hann segir að það sé erfitt að bera saman húsakaup á Íslandi og í Japan. „Lengi vel voru stýrivextir neikvæðir í Japan. Fyrstu fimm árin eftir húsakaupin eru vextirnir 0,85 prósent. Ef það verður annað bankahrun þá er samt sem áður þak á hversu háir vextir mega verða. Hér eru engar sveiflur og við vitum að vextir munu ekki hækka,“ Það er svolítið annar raunveruleiki en við Íslendingar þurfum að búa við.

 

PS. Viðtalið við Jóhann birtist upphaflega í Jólablaði Skessuhorns 15. desember 2021.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Torfi F gefur út plötu

Þórarinn Torfi Finnbogason gaf út nýverið út plötu en hann er 45 ára fjölskyldufaðir frá Hvanneyri. Platan heitir Snjóarumvor og... Lesa meira