
Einkar vel tekist til með viðgerðir á Dagverðarneskirkju
Nú er stórum áfanga lokið í viðgerðum á ytra byrði Dagverðarneskirkju í Dölum og umhverfi hennar. Kirkjan, sem upphaflega var reist árið 1848 og endurbyggð árið 1935, var í sumar rétt af á stalli sínum, skipt var um glugga, pappi klæddur á hana og síðan stál á veggi og þak. Yfirsmiður við framkvæmdirnar var Baldur Þorleifsson úr Stykkishólmi en Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka stýrði hleðslu garða og fleira. Fjöldi veglegra styrkja hefur runnið til verkefnisins. „Nú er stór áfangi búinn, en samt mikið eftir; mála kirkjuna að innan og laga altaristöflur. Klára að hlaða vegg og loka kirkjugarði, ganga frá og laga legsteina og fleira, bílastæði og alla aðkomu,“ segir Bára H Sigurðardóttir formaður Hollvinafélags kirkjunnar og bætir því við að eftir séu ýmsar kosnaðarsamar framkvæmdir.