adsendar-greinar Mannlíf

Jaclyn setur upp sýningu á Vetrardögum á Akranesi

Núna um helgina 18.-20. mars heldur listakonan Jaclyn Poucel sýningu á málverkum sínum á Akranesi. Jaclyn er 28 ára listakona og fótboltakona frá Lancaster í Pennsylvaniu í Bandaríkjunum. „Það er ekki langt frá Philadelphia,“ útskýrir hún. Jaclyn flutti fyrst til Íslands árið 2016 til að spila fótbolta með ÍA í Pepsi deildinni. Hún kynntist þá Skagamanninum Benedikt Árnasyni og giftu þau sig árið 2019. „Ég byrjaði að spila fótbolta þegar ég var fjögurra ára, mamma mín var fótboltakona og hún var fyrirmyndin mín og þjálfaði mig þegar ég var ung stelpa,“ segir Jaclyn. Hún spilaði í 1. deild í háskóladeild í Bandaríkjunum, með liði University of Pittsburgh áður en hún fór í atvinnumennsku í Finnlandi, Íslandi og svo Skotlandi, þar sem hún spilaði með Celtic FC áður en hún flutti aftur til Íslands árið 2020. „Ég giftist og flutti aftur til Íslands og byrjaði að spila aftur með ÍA þar til ég varð ófrísk í fyrra,“ segir hún og bætir við að hún stefni á að spila aftur með ÍA næsta sumar. „Ég mun alltaf spila með ÍA ef ég get. Það var fyrsta liðið mitt hér og hér á ég heima. Ég er mjög stolt af ÍA og Akranesi,“ segir Jaclyn.

Aðspurð segir Jaclyn töluverðan mun vera á Íslandi og Pennsylvaniu í Bandaríkjunum. „Þar sem ég ólst upp voru margir sveitabæir og tré og það varð rosalega heitt á sumrin, en við fáum samt allskonar veður þar líka. En sjórinn þar er alveg nokkrar klukkustundir í burtu frá þeim stað sem ég er frá svo ég hafði ekki sama útsýni þar og hér á Akranesi,“ segir hún og bætir við að kúltúrinn sé líka nokkuð frábrugðinn. „Akranes er lítill staður og náið samfélag af fólki, sem hefur svo marga góða kosti. En það er svo mikið stærra samfélag þaðan sem ég er frá, í útskriftarárgangi 1993 í skólanum heima voru rúmlega 450 nemendur,“ segir hún.

Abstrakt listakona

Jaclyn hefur alltaf verið mjög listræn manneskja og hefur verið að mála síðan hún var barn. „Sem barn var ég alltaf að mála og teikna og reyna að skapa eitthvað fallegt,“ segir hún. Jaclyn lærði myndlist á heiðursstigi í skóla sem barn. „Ég málaði mjög lengi en hætti svo í nokkur ár á meðan ég var að var að byggja upp ferilinn í fótbolta. Þegar ég flutti svo til Íslands og Covid skall á byrjaði ég að mála aftur,“ segir hún. Jaclyn er abstrakt listakona, segist láta liti og mismunandi áferð segja sögu eða koma tilfinningum á framfæri. „Ég elska að geta séð og fundið hluti á ákveðinn hátt og málað það og fólk getur svo horft á verkið og og séð og fundið eitthvað allt annað. Ég vil að fólk finni það sem ég mála en ofgreini það ekki alveg í smáatriði. Ég elska að það er ekki hægt að segja hvað verkin mín eru eins og: „Þetta er málverk af báti“ og þú sérð bara bát. Ég er hrifin af því að í abstrakt málverkum eru engar reglur,“ útskýrir Jaclyn og bætir við að hún taki við sérpöntunum óski fólk eftir því. „Ég geri margar sérpantanir og ég nýt þess að skapa eitthvað sérstakt fyrir ákveðin rými á heimilum fólks eða skrifstofum.

„Ég vona svo að ég geti opnað mitt eigið gallerí einn daginn hér á Akranesi. En eins og er er ég með lítið stúdíó þar sem ég get boðið fólki að koma til að sjá verkin mín en ég get líka komið heim til fólks með verk sem það vill kannski sjá hvernig passar inn í rými.“ segir Jaclyn. Hægt er að fylgjast með henni á bæði facebook og Instagram undir nafninu jaclynarnasonart.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira