adsendar-greinar Heilsa
Þorbergur Þórðarson í hléi á púttæfingu.

Hefur stundað íþróttir frá barnsaldri

Þrátt fyrir árin telji brátt 83 hjá Þorbergi Þórðarsyni á Akranesi lætur hann hvergi deigan síga þegar þátttaka í íþróttum og útivist er annars vegar. Þorbergur starfaði við húsbyggingar í áratugi en síðari ár hefur hann verið útfararstjóri og tekur enn að sér verkefni á því sviði. Hann æfir reglulega pútt með eldri borgurum í Borgarbyggð, fer í gönguferðir með hundana sína og sinnir heilsunni af kostgæfni.

„Ég byrjaði í íþróttahúsunum þegar ég var sex ára gutti. Var svo 19 ára þegar ég fór að æfa og keppa í frjálsum íþróttum með Ungmennafélagi Reykdæla og hef eiginlega stundað einhverjar íþróttir allar götur síðan. Ég þekki því vel til í búningsklefunum. Meðal annars var ég í handboltanum og meira að segja fyrir heimsmeistaramótið 1958 komst ég í úrtakshóp í landsliðinu sem senda átti til Austur Þýskalands til fyrstu keppni Íslendinga á stórmóti. Þá var hinsvegar erfiðara um vik að sækja æfingar héðan frá Akranesi og fékk ég því sökum slæglegrar mætingar á æfingar ekki að fara með á mótið. Ég hef hins vegar alla tíð æft einhverjar íþróttir og nú á efri árum hefur það einkum verið pútt, golf, ringó og boccia. Allt svona góðar heldri manna íþróttir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að heilsusamlegt líferni, sem byggist á reglulegri hreyfingu og hollu mataræði, er lykillinn að því að vera við góða heilsu þegar komið er fram á níræðisaldurinn,“ sagði Þorbergur. Á meðfylgjandi mynd nartar hann í banana í æfingahléi með pútthópi eldri borgara í Borgarbyggð sem nú æfir í kjallara Frístundamiðstöðvarinnar á Akranesi alla fimmtudagsmorgna, þar sem æfingaaðstaða félagsins í Brákarey er lokuð um tíma.

Síðastliðinn fimmtudag var 25 manna hópur púttara úr Borgarbyggð við æfingar á Akranesi undir stjórn Ingimundar Ingimundarsonar. Auk þess hefur hópurinn fengið úthlutað tímum til æfinga í Mosfellsbæ, þannig að áfram verður æft tvisvar í viku meðan aðstaðan í Brákarey er lokuð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir