adsendar-greinar Mannlíf
Fjölskyldan heima í stofu. Hannes S Jónsson og Bergþóra Sigurjónsdóttir ásamt þeim Jóni Gauti og Guðlaugu Gyðu. Ljósm. mm.

Fjölskylda hefur fengið sterk viðbrögð eftir hreinskipta færslu um einelti

Samfélagið þarf að viðurkenna vandamálið svo hægt sé að bregðast við

Á alþjóðlegum degi gegn einelti, 8. nóvember síðastliðinn, voru ýmsir sem drápu niður penna og skrifuðu um það alþjóðlega vandamál, og þar af leiðandi einnig þjóðfélagsmein, sem einelti er. Grípum fyrst niður í skilgreiningu á hvað einelti er. Á Vísindavefnum segir m.a: Einelti er ofbeldi þar sem einn eða fleiri ráðast að einum og beita hann ofbeldi yfir lengri tíma. Skilgreiningar fyrir einelti eru misnákvæmar. Á Íslandi kom fram skilgreining á einelti árið 1996 sem hefur verið mikið notuð allt til dagsins í dag og hljóðar hún svo „Um einelti er að ræða þegar einhver er tekinn fyrir og píndur, andlega eða líkamlega, aftur og aftur í lengri tíma af einum eða fleiri.“ Eftir því sem rannsóknirnar aukast hafa skilgreiningarnar orðið nákvæmari og afmarka hegðunina betur. Í dag er til að mynda talað um líkamlegt, andlegt og rafrænt einelti.

Einn af þeim sem tjáði sig opinskátt um einelti á alþjóðlegum degi gegn einelti var Hannes S Jónsson, tveggja barna faðir á Akranesi sem starfar sem formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Hannes skrifaði færslu á Facebook síðu sína sem óhætt er að segja að hafi farið eins og eldur í sinu um allt landið. Þar lýsir hann því hvernig sonur hans varð fyrir grófu og endurteknu einelti í grunnskóla, hvernig kerfið hafi brugðist og hvaða áhrif þetta áralanga einelti hafði á son hans, félagsþátttöku hans og raunar á fjölskylduna alla. Færslan var skrifuð í fullu samráði við soninn, þolandann, en Jón Gautur Hannesson er í dag 17 ára, er í framhaldsskóla og æfir íþróttir. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með fjölskyldunni á Akranesi um síðustu helgi, þeim Hannesi, Bergþóru Sigurjónsdóttur eiginkonu hans og börnum þeirra, þeim Jóni Gauti og Guðlaugu Gyðu. Þau segjast fús að ræða þessi mál opinberlega í þeim tilgangi að opna umræðuna og segjast vona heitt og innilega að samfélaginu takist í framtíðinni betur að takast á við einelti. Þau taka það fram að umræðuna kveiki þau ekki til að leita sökudólga, heldur vilja þau leggja sitt af mörkum til að samfélagið megi batna, allir fái sama rétt og tækifæri í lífinu.

Þurfti að sýna trúðslæti

Við byrjum á að grípa niður í færslu Hannesar: „Því miður þekki ég það allt of vel hvað einelti getur eyðilagt mikið fyrir einni persónu og fjölskyldunni, en sonur minn varð fyrir ljótu einelti á aldrinum 11-15 ára,“ skrifaði Hannes og tók fram að færslan hafi verið gerð með samþykki sonar hans sem þráir fátt meira en að einelti sé upprætt í samfélaginu. „Það sýnir mikinn þroska og hugrekki af hans hálfu,“ segir faðirinn stoltur. Við sitjum saman, blaðamaður og þessi fjögurra manna fjölskylda í hlýlegu eldhúsinu í einbýlishúsi þeirra í einu af nýju hverfunum á Akranesi. Fram kemur að þau hafi öll verið sammála um að opna þetta mál og vekja umræðu um einelti og afleiðingar þess. „Eineltið hófst þegar við fjölskyldan fluttum á Akranes þegar Jón Gautur var tíu ára og hann fór þá í nýjan skóla. Hann byrjaði í þessum nýja skóla og má segja að eftir um hálfan vetur hafi farið að bera á smá einelti í hans garð. Það hvernig honum var tekið af nýjum félögum í bekknum og árganginum. Eineltið hófst vegna þess að hann er lesblindur, átti því erfitt með nám og reyndi að spila ákveðið hlutverk vegna þess. „Fyrstu tvö árin var eineltið „vægt,“ ef hægt er að orða það þannig,“ segir Hannes. „Hans fyrstu viðbrögð fljótlega eftir að þetta einelti hófst var að sjálfsögðu að fara í vörn og átti hann það til að vera með trúðslæti sem var hans brynja gegn þessu ofbeldi. Þá var hann dæmdur af námserfiðleikum og trúðslátum, hann varð auðvelt „skotmark“. Því miður ágerðist eineltið með árunum. Það magnaðist eftir því sem hann varð eldri og varð ansi ljótt og illkvittið undir það síðasta þegar 8. bekk lauk. Það má segja að það hafi náð hámarki í Vinnuskólanum sumarið fyrir 9. bekk og þá áttuðum við foreldrarnir okkur á hversu slæmt og rosalega ljótt þetta einelti var orðið. Hann passaði sig á því að við vissum ekki alveg allt sem hafði gerst árið á undan í skólanum. Þarna þetta sumar opnaði hann sig hins vegar við okkur um stöðuna,“ segja þau Bergþóra og Hannes.

„Hann var ekki til“

„Það voru ekki bara einhverjir tveir eða þrír sem tóku þátt í eineltinu, heldur fjöldinn allur af krökkum. Sögurnar af hans einelti eru margar ljótar og sýna hvað við mannfólkið frá unga aldri getum verið vond við náungann. Það versta, fyrir utan andlega og líkamlega ofbeldið sem eineltið var, þá var það útskúfun úr bekknum/ árganginum og skólanum. Nánast allan 8. og 9. bekk var honum varla heilsað af félögunum. Það var eins og hann væri bara ekki á staðnum. Hann var hunsaður, hann var ekki til. Kennarar sem rætt var við sögðu alltaf; „þetta er alveg að fara að lagast, alveg að koma,“ en staðreyndin er sú að það var lítið eða ekkert verið að gera,“ segja þau Bergþóra og Hannes.

Nýr kennari reyndist bjargvættur

Þá lýsa þau Hannes og Bergþóra því sem þau segja að hafi verið vendipunktur fyrir son þeirra. „Loksins eftir nokkur ár og í byrjun 10. bekkjar var tekið á eineltinu af festu. Það var fyrir tilstilli frábærs kennara sem kom þá nýr inn sem umsjónarkennari í bekkinn hans. Hún heitir Ingibjörg Stefánsdóttir. Ingibjörg var ekki lengi að sjá að eitthvað óeðlilegt væri í gangi sem yrði að uppræta. Þrátt fyrir að ræða áhyggjur okkar við kennara árin á undan, þá var eins og þeir kennarar áttuðu sig ekki á alvarleika eineltisins og við fengum aldrei ráð frá þeim eða skólanum hvernig við sem foreldrar gætum tekið á málinu og gefið formlega tilkynningu um grun vegna eineltis. Við vorum ekki upplýst,“ segir Hannes með þunga. Í samtali við blaðamann kemur fram að fyrrgreind Ingibjörg sé nú umsjónarkennarinn í bekk dóttur þeirrar og það út af fyrir sig hafi veitt þeim kjark, gefið þeim það áræði sem þurfti til að færa upp á yfirborðið reynslu sonar þeirra.

Ekki vitlaus eða heimskur

Hannes og Bergþóra vilja meina að skólinn verði að taka fastar og öðruvísi á eineltismálum komi þau upp. Sé eineltisáætlun til staðar, þá virðist djúpt á henni og aðgerðir ekki að virka sem skyldi. „Þetta var orðið það slæmt áður en loksins var farið að taka almennilega á þessu að ég og konan mín áttum það eina úrræði að tala fyrir hönd sonar okkar við alla foreldrana í árgangi hans til lýsa fyrir þeim erfiðleikum og okkar áhyggjum af framtíð sonar okkar við þessar aðstæður. Hann 15 ára að hefja 10. bekk vildi og bað okkur um að tala við foreldrana. Hann bað okkur um að fara með skilaboð inn á fundinn og ég gleymi þessum skilaboðum aldrei. Skilaboðin voru þessi: „Pabbi og mamma; viljið þið segja í kvöld að ég er ekki vitlaus eða heimskur.“ Hann var sko aldeilis búinn að fá að heyra þessi orð um sig í nokkur ár. Þarna stóðum við berskjölduð með tárin í augunum og kökkinn í hálsinum yfir að tala upphátt um aðstæður sonar okkar. Við í orðsins fyllstu merkingu vorum að grátbiðja foreldrana um að tala við börnin sín og fá þau í lið með okkur fjölskyldunni og skólanum að gera allt til að setja plástur á stóra opna sárið sem sést ekki utan á börnum við þessar aðstæður. Einhverjir tóku þetta til sín og ræddu við börnin og erum við þakklát fyrir það. Við náðum að fá hluta af foreldrunum og þá um leið krökkunum með okkur í lið við að setja plástur á sárið og sonur okkar útskrifaðist úr grunnskóla, fékk nokkrar góðar minningar í lokin, ekki bara allar vondar. Það var stór sigur.“

Upplifir frelsi með bílprófinu

Þau Hannes og Bergþóra segja að svona mikið og langvarandi einelti í garð barns fylgi útskúfun úr nærsamfélagi og það sé virkilega vont og sárt að upplifa. „Það sem er svo sárt núna þegar minn einstaki hæfileikaríki sonur, með magnaðan húmor þrátt fyrir allt það sem á undan hefur gengið, nálgast 18 ára afmælið sitt eftir nokkra mánuði, að þá eru afleiðingar eineltisins ennþá til staðar hjá hópi ungmenna á hans aldri, reyndar bæði yngri og eldri, í okkar nærsamfélagi. Ég get eiginlega ekki orðað það öðruvísi en að hann er nánast dæmdur af sínum jafnöldrum. Því miður skemmir það fyrir honum enn þann dag í dag. Ýmislegt eins og áhugamálið sitt og íþróttina sem hann hefur stundað frá fjögurra ára aldri. Hann fær ekki að njóta sannmælis eða taka þátt á jafningjagrunni. Hann fær margar pillur og ljótar athugasemdir sinna eigin liðsfélaga enn þann dag í dag,“ segir Hannes. Jón Gautur æfir körfubolta með ÍA. „Það er eins og það sé ákveðin menning í því að halda bara áfram að vera illkvittinn í hans garð. Það er enn reynt að brjóta hann niður. Félagslegi þátturinn í uppvexti barnanna okkar er mjög mikilvægur og þar missti sonur minn úr nokkur mikilvæg ár sem mun taka allt hans líf að vinna með. Hann bað mig sérstaklega að minnast á þetta með félagslega þáttinn þegar við ræddum saman um að ég skrifaði pistilinn,“ segir Hannes.

Sterk viðbrögð

Hér lýkur tilvitnunum í skrif Hannesar á degi gegn einelti. Aðspurð segir fjölskyldan að viðbrögðin við skrifunum hafi verið ótrúlega mikil og víða. „Ef mig hefði órað fyrir að viðbrögðin hefðu orðið bara fimm prósent af því sem þau hafa verið, efast ég um að við hefðum lagt í þessa vegferð að opna okkur svona með þetta mál. Okkur hafa borist skilaboð af ýmsu tagi; símtöl og fjölmörg önnur viðbrögð á þessari tæpu viku frá því færslan fór í loftið. Þessi skilaboð eru í raun frá allri flóru íslensks samfélags. Þeirra á meðal frá nokkrum ráðherrum í ríkisstjórninni, Guðna Th Jóhannessyni forseta Íslands, fólki í íþróttahreyfingunni, tónlistarfólki, sveitarstjórnarfólki víða af landinu, frá skólafólki og fólki sem við þekkjum ekki neitt. Það hafa einfaldlega allir verið að tala um þetta og margir sem spegla sig í þessum aðstæðum. Það er langur vegur frá að við höfum náð að opna öll þessi skilaboð og hvað þá svarað þeim, slíkur er fjöldinn. Hér í nærsamfélaginu hefur hins vegar verið minna um viðbrögð. En við höfum fengið frábær viðbrögð og hvetjandi skilaboð frá stjórnendum ÍA og körfuboltafélaginu, en þessir aðilar vilja gera allt sem hægt er til að Jóni Gauti líði vel á æfingum. Engin viðbrögð hafa hins vegar verið frá skólanum eða forsvarsmönnum bæjarfélagsins okkar, sem við hefðum haldið að væri eðlilegt, ef þessir aðilar hygðust taka alvarlega þeirri gagnrýni sem við erum að setja fram. Við höfum hins vegar fengið viðbrögð frá fyrrum skólastjóra í Rimaskóla og kennurum hans þar.“ Hannes kveðst engu að síður vongóður um að samfélagið; skólinn og aðrir sem hlut eiga að máli, sýni tilburði til að vilja vinna gegn því ofbeldi sem einelti er. En nánar verður vikið að æskilegum viðbrögðum nærsamfélagsins síðar.

Láta vita

Þegar blaðamaður ræddi við fjölskylduna voru liðnir fimm dagar frá því Hannes birti færsluna á Facebook. Á þeim dögum höfðu skilaboðin fengið vængi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum auk þess sem rætt var við Hannes í morgunútvarpi Bylgjunnar og þá er væntanlegt innslag á Stöð 2. „Þessi massífa fjölmiðladekkun hefur leitt til þess að við höfum fengið hundruð skilaboða frá fólki sem sjálft hefur orðið fyrir einelti eða einhverjir sem því tengjast. Því er ljóst í okkar huga að vandamálið er afar víðtækt og alls ekki bundið við okkar sveitarfélag. Við erum að fá skilaboð frá fólki sem við þekkjum ekki neitt en fann sig knúið til að láta okkur vita og sýna samhug. Vænst þykir mér þó um skilaboð frá skólastofnun sem tilkynnti mér að þar væri nú skylduverkefni nemenda og starfsfólks að lesa færsluna mína. Í framhaldinu ætlar skólinn að ræða ólíkar birtingarmyndir eineltis í leik- og grunnskólum og viðbrögð við þeim,“ segir Hannes.

Í fyrsta skipti sem Jón Gautur

Í dag er Jón Gautur Hannesson sautján ára nemandi á opinni braut og á afrekssviði í Fjölbrautaskóla Vesturlands og er að standa sig vel í námi, störfum og leik. Hann náði bílprófinu villulaust í annarri tilraun og viðurkennir að það að hafa fengið bílpróf og bíl veiti honum frjálsræði. Bestu vinir hans í dag eru fyrir sunnan, vinir sem hann hefur átt frá því snemma í grunnskóla þegar hann var nemandi í Rimaskóla í Grafarvogi. Í sumar fékk hann starf hjá Stöð 2 og vann m.a. við upptökur og útsendingar á íþróttaleikjum, vann meðal annars grafík sem slíkum útsendingum fylgir. Hann segir að áhugasviðið sé tækni og miðlun og því hafi þetta verið draumastarf fyrir hann. „Þessi vinna fyrir sunnan í sumar var auk þess mjög lærdómsrík fyrir mig. Í rauninni í fyrsta skipti sem ég er einhvers staðar sem „Jón Gautur“ og algjörlega án þess að verða fyrir einelti eða verið tekinn sem gaurinn sem allir mættu djöflast í. Þetta var eiginlega alveg ný reynsla fyrir mig, undarlegt að þurfa að vera orðinn 17 ára og farinn úr sínum heimabæ til að upplifa eðlilega framkomu þeirra sem ég umgengst,“ segir hann.

Jón Gautur er hávaxinn og knár og hefur náð árangri í körfubolta. Var meðal annars valinn í afreksbúðir KKÍ U-14 í körfubolta. En á þeim vettvangi segist hann einnig hafa fengið að heyra það frá félögum sínum; hann hefði bara verið valinn af því að pabbi hans stýrir KKÍ, ekki út af eigin getu eða verðleikum! Enn æfir Jón Gautur þó körfubolta með ÍA og langar að halda því áfram frekar en að flytja sig yfir í annað félag. „Ég mæti á æfingar og svona, fæ lítið að spila, reyndar einnig vegna þess að ég hef glímt við meiðsli af og til undanfarin tvö ár, en á æfingum fæ ég kannski ekki eitt „Hæ“, ekki er yrt á mig! Upplifi þá þessa sniðgöngu sem ég hef vanist, enda eru þetta að hluta til sömu strákarnir og voru með mér í skóla.“ Hannes og Bergþóra vilja koma því á framfæri að það sé ekki hægt að sakast við körfuboltafélagið eða þá sem þar stjórna því þar hafa menn lagt mikið á sig til að reyna að laga þetta. Það sé númer eitt að búið er að dæma hann af sínum jafnöldrum sem smitar úr frá sér í nærsamfélagið. „Þetta er ómenning,“ segja þau staðföst.

Félagslegi þátturinn verstur

Það fer ekki á milli mála að bæði Jón Gautur og foreldrar hans eru staðráðin í að ræða reynslu þeirra opinskátt og gera það nú að vel ígrunduðu máli. Langur vegur er frá því að það sé sjálfsagður hlutur fyrir ungan mann að ræða þessa bitru lífsreynslu með þessum hætti. Sjálfur segist hann gera það til að samfélagið fái að vita af því sem er í gangi og geti þá brugðist við. „Þeir sem eru gerendur eða meðvirkir í einelti þurfa að átta sig á afleiðingum þessarar gerðar af ofbeldi. Sonur okkar er staðráðinn í að gefast ekki upp og vill fá að njóta þess að vera til í okkar nærsamfélagi á jafningjagrunni. Hann er með einstakt hjartalag og hugrekki sem við foreldrar hans og fleiri í fjölskyldunni erum afar stolt af,“ segja þau Hannes og Bergþóra. Sjálfur viðurkennir Jón Gautur að eineltinu sé hvergi nærri lokið, en birtingarmyndin sé kannski meira í formi tómlætis í hans garð og útskúfun frá félagslegri þátttöku. „Það er þessi félagslega útskúfun sem ég er kannski leiðastur yfir í dag. Í uppeldinu missti ég af því sem flestir þekkja að fá að „hanga með vinunum,“ af því að þeir vinir voru einfaldlega ekki til staðar. Til marks um það fer ég til dæmis ekki á skólaböll í FVA þó það standi mér alveg til boða,“ segir hann.

Hefjum umræðuna

Að endingu ræðum við hvernig samfélagið á Akranesi getur brugðist við til að koma í veg fyrir að einelti fái viðgengist í samfélaginu. „Það verða einfaldlega allir að temja sér það hugarfar að vera góðir við hvern annan. Það er svona lykillinn að því ef við eigum að ná árangri. Akranes er gott samfélag og hér er á flestan hátt frábært að búa en það má alltaf gera góða hluti betri. Það var ég, utanbæjarmaðurinn, sem vildi að við gæfum Akranesi séns á sínum tíma. Konan mín er uppalin hérna og af nokkuð stórri Skagafjölskyldu má segja en hún flytur í burtu 17 ára, en sjálfur er ég Kópavogsbúi. Það er ákveðin hræðsla hjá öllum að segja það upphátt en það er mörgu leyti erfitt fyrir þá sem flytja hingað að koma sér inn í samfélagið. Þeir rótgrónu sitja svolítið á sínu. Fólk sem á sér hér djúpar rætur þarf að eiga frumkvæði að þeim breytingum sem verður að gera. Ég og við höfum rætt þetta við ýmsa aðra sem eru í sömu sporum og ég, að vera aðkomumenn á Akranesi, hvernig okkur er tekið. Akranes er pínu lokað samfélag. Raunar þyrfti til dæmis að halda svona fræðslunámskeið fyrir bæjarfulltrúa, starfsfólk bæjarins og stofnana þess, um það hvernig er að vera nýbúi á Akranesi. Fólk þarf að temja sér að taka nýbúum í samfélaginu fagnandi og á jafningjagrunni. Það er ekki nóg að þiggja bara útsvarið frá okkur. Útsvarið okkar er nefnilega alveg jafn góður peningur og útsvar frá þeim sem hafa búið hér alla tíð. Þetta á jafnt við í allskonar félags- og íþróttastarfi og bara hvar sem er í samfélaginu okkar,“ segir Hannes. „Við þurfum því að ræða hlutina sem þarf að laga, draga af því lærdóm, og framkvæma. Við leggjum á það mikla áherslu að við erum ekki að leita sökudólga og það má alls ekki taka því þannig. Við búum í góðu bæjarfélagi en viljum bæta það. Ef hlutir sem þessir eru ekki ræddir þá lögum við þá ekki. Komum öll að borðinu og ég hvet þá sem stýra bæjarfélaginu að nýta sér þessa umræðu til góðs. Við erum klár í þá vinnu með bæjarbúum. Ofbeldismenning eins og mismunun og einelti verður ekki upprætt nema samfélagið allt viðurkenni að allir eigi að vera jafnir, börn sem fullorðnir. Við viljum segja sögu okkar til að reyna að opna fyrir umræðu af því tagi, því orð eru til alls fyrst,“ segir Hannes S Jónsson að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir