adsendar-greinar Mannlíf
Listamaðurinn Tinna Royal hefur kvatt Bókasafnið í bili. Ljósm. vaks.

Bland í poka pokinn tæmdur

Myndlistarkonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Tinna Royal var bæjarlistamaður Akraness árið 2020. Hún var að ljúka sýningu sinni Bland í poka – Skúlptúrasýningu, sem hefur staðið yfir í Bókasafni Akraness frá 11. júní í sumar. Sumarið 2016 hélt Tinna myndlistarsýningu á Bókasafni Akraness og hefur starfað þar við íhlaupavinnu síðan. Þá hefur hún haldið sýningar á Vökudögum og m.a. sýnt í Galleríi Bjarna Þórs.

Krakkavæn sýning

Skessuhorn kíkti í heimsókn til Tinnu þar sem hún var að byrja að ganga frá sýningunni og aðspurð sagði hún að þetta hefði bara gengið rosalega vel, það væri búið að vera góður gestagangur á safninu og fólk hefði verið að koma eingöngu til að sjá sýninguna: „Flestir sem komu á sýninguna voru krakkar. Krakkarnir sáu skiltið fyrir utan og komu svo inn og báðu um bland í poka. Það var reyndar ekki í boði í þeim skilningi en síðan leist þeim bara vel á sýninguna enda er hún mjög krakkavæn.“

En hver er hugmyndin að baki sýningarinnar? „Það er engin myndlist á þessari sýningu, engin höggmyndalist en listamegin við línuna. Þetta er hluti af sýningunni sem ég ætlaði að halda sem bæjarlistamaður. Þetta er kannski formlega ekki sú sýning en ég verð síðan með sýningu á Vökudögum í haust sem verður þá seinni hluti.“

Tinna Royal hefur verið með fésbókarsíðu frá árinu 2014 því hún vildi aðgreina sig frá hennar persónulegu fésbók: „Það var ókunnugt fólk að senda mér vinabeiðni á facebook af því að það vissi af mér sem myndlistarmanni þannig að ég ákvað að búa til mína eigin síðu og sýna fólki hvað ég væri að búa til. Það var alltaf hugmyndin að finna hentugt listamannsnafn og svo var ég einhvern tímann í blaðaviðtali og mér sagt að ég gengi alltaf undir Tinna Royal og ég var bara sátt við þá nafngift. Nafnið er því dregið af Royal búðingnum og hentar mér bara vel.“

Alltaf á vinnustofunni

Tinna hefur alltaf verið að gera eitthvað í höndunum síðan hún var krakki og segist vera mikið fyrir fjölbreytnina, hún máli myndir, svo er hún að klippa og líma og leira en sé aðallega í myndlistinni. En hvað er fram undan? „Með þessari sýningu eru alls fjórar sýningar í ár hjá mér, ég er allar vökustundir á vinnustofunni minni. Mæti sjö á morgnana þangað til klukkan tólf þegar ég mæti hingað og fer svo aftur eftir vinnu á vinnustofuna til miðnættis Það er stórsýning á Laugaveginum fram undan í september/október í nýju galleríi í Reykjavík sem heitir MUTT og því er nóg að gera í undirbúningnum.“

Varðandi lifibrauðið segir Tinna að markmiðið sé að eiga fyrir vinnustofunni sinni á Ægisbrautinni sem hún segir að sé besta vinnustofa í heimi og að þær séu fjórar sem eru með aðstöðu þar og Tinna er þar flestum stundum nema þegar hún er að hlaupa í skarðið á Bókasafninu. En að lokum; hvernig myndi Tinna lýsa sér sem listamanni? „Ég myndi segja að ég sé voða krúttlegur myndlistarmaður og skapandi karakter.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira