adsendar-greinar Heilsa
Þegar búið er að yfirfara tækið, setja duftið í að nýju er þrýstingi komið á. Bjarni geymir tækið að lágmarki í einn sólarhring eftir hleðslu til að tryggja að þrýstingurinn haldist í því áður en það fer á sinn stað. Ljósm. mm.

Best að yfirfara slökkvitækin að lágmarki þriðja hvert ár

Slökkvilið Borgarbyggðar rekur slökkvitækjaþjónustu í slökkvistöðinni við Sólbakka í Borgarnesi. Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra er starfsemin með öllu aðskilin rekstri sjálfs slökkviliðsins, en er í boði í ljósi þess að einkaaðilar eru ekki að sinna þessari þjónustu í heimabyggð. Töluvert mismunandi er milli sveitarfélaga hvernig þessari þjónustu er háttað. Í slökkvistöðinni í Borgarnesi er tekið á móti slökkvitækjum allt árið, þau tæmd, yfirfarin, hlaðin og umhlaðin eftir atvikum. Loks er þrýstingi komið á tækin með því að dæla í þau hæfilegu magni af köfnunarefni.

Ómissandi öryggisþáttur

Endurhlaðin og yfirfarin slökkvitæki.

Eins og allir vita eru slökkvitæki ómissandi öryggisatriði á öllum stöðum, hvort sem um er að ræða heimili, hús eða fyrirtæki. Oft má með þeim, við afmarkaðan eld, slökkva áður en eldurinn nær að breiða úr sér og slökkvilið mætir á vettvang. Þá er mikilvægt að velja slökkvitæki sem henta aðstæðum á hverjum stað og nokkuð algengt að nauðsynlegt sé að vera með fleiri en eina tegund slökkvitækja og taka þau þá mið af aðstæðum. Bjarni segir að jafnaði yfirfari þeir um þrjú hundruð slökkvitæki á ári. Sá fjöldi mætti vera meiri í ljósi fjölda heimila og fyrirtækja á svæðinu. Hann segir að æskilegt sé að yfirfara slökkvitæki að lágmarki þriðja hvert ár ef aldrei hafi verið átt við þau á þeim tíma. Ef eitthvað hefur verið átt við tækin þarf að láta yfirfara þau strax. Þrýstingur í tækjunum gefur þó vísbendingu um ástandið. Þegar blaðamann bar að garði var Bjarni að ljúka við að yfirfara á þriðja tug slökkvitækja frá Grunnskóla Borgarfjarðar annars vegar og hins vegar frá ferðaþjónustunni á Gauksmýri í Húnaþingi.

Aðspurður segir Bjarni að slökkviliðið sjálft selji ekki tæki eða búnað. Hins vegar hafi verið gert munnlegt samkomulag við Kaupfélag Borgfirðinga um að hafa til sölu viðurkennd slökkvitæki, eldvarnarteppi, reykskynjara og annan búnað til að hægt sé að vísa fólki þangað þurfi það að endurnýja búnað á heimilunum eða bæta við.

Ekki lögbundin skylda eftir lokaúttekt

Það vekur athygli að skylda fólks til að hafa slökkvitæki og annan nauðsynlegan eldvarnabúnað í húsum er einungis til staðar þegar gerð er lokaúttekt á nýjum húsum. Eftir það er lagt í hendur fólks að halda þessum búnaði við og endurnýja eftir þörfum þannig að í öllum híbýlum séu slökkvitæki, eldvarnarteppi og reykskynjarar. Bjarni segir að þetta sé kerfisgalli og í raun ótrúlegt að eftirlit sé ekki löbundið í ljósi þess að búnaður þessi snertir öryggi fólks. Slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitsmenn hafa ekki lagaheimild til að fara inn á heimili fólks til að taka út hvort slíkur búnaður sé til eða virki. Því þarf að höfða til samvisku hvers og eins með það. Víða erlendis segir Bjarni að eldvörnum og eftirliti sé betur fyrir komið og nefnir m.a. að í Svíþjóð séu það tryggingafélög sem komi að slíku og jafnvel reki einnig slökkviliðin til helmings á móti viðkomandi kommúnu eða sveitarfélagi. Hér á landi vanti einhvers konar hvata eða áminningu til að fólk hafi eldvarnarbúnað í lagi. Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna er á hverju ári með átak. Nemendur í þriðja bekk grunnskóla eru heimsóttir, þeir fræddir um mikilvægi eldvarna á heimilum og oft koma börnin þessu svo á framfæri þegar heim er komið.

Bjarki Kristinn hvetur allan almenning til að yfirfara öryggisbúnað á heimilum og í fyrirtækjum, því enginn viti hvenær næst þurfi að grípa til hans. Mest sé hættan einatt í kringum hátíðir eins og þær sem nú fara í hönd.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira