adsendar-greinar Mannlíf
Bjarni Skúli Ketilsson, jafnan þekktur sem Baski. Hér í gamla Iðnskólanum á Akranesi, þar sem hann heldur sýningu á verkum sínum nú um helgina. Ljósm. kgk.

Baski með sölusýningu í gamla iðnskólanum um helgina

„Það sem kemur innan úr listamanninum er það sem verður eftir á striganum“

Hann hefur búið og starfað í Hollandi frá árinu 1996 en þrátt fyrir það hafa heimahagarnir aldrei verið langt undan í listsköpun hans. Hann málar myndir og minningar frá heimabænum og reynir að draga fram fegurðina í hinu hversdagslega. Við það segist listamaðurinn fá einhvers konar útrás fyrir heimþrána. Hana ber hann alltaf í brjósti sér, þrátt fyrir að hann langi ekkert endilega að flytja aftur á æskuslóðirnar. Minningarnar hlýja honum, þær eru honum kærar og ræturnar á Skaganum sterkar þó tréð sjálft laufgist nú á öðrum stað á jarðkúlunni. Hann var útnefndur Bæjarlistamaður Akraness 2019 og kemur reglulega í heimsókn á Skagann. Þar dvelur hann einmitt um þessar mundir. Myndlistarnámskeið undir handleiðslu hans hófst í gamla Iðnskólanum í gærkvöldi og seinna í mánuðinum ætlar hann að halda myndlistarsýningu á sama stað. Húsið þykir honum fagurt og telur að vel færi á því að finna því hlutverk sem nokkurs konar menningarhús. Skessuhorn hitti Baska að máli nýverið og ræddi við hann um leik og starf, listina sjálfa og minningarnar frá Akranesi, sem hafa verið honum óþrjótandi uppspretta hugmynda í áranna rás.

Heimþrá og væntumþykja

Bjarni Skúli Ketilsson fæddist á Akranesi árið 1966. Þar sleit hann barnsskónum og hefur aldrei sagt skilið við Skagann þó hann hafi búið og starfað í Hollandi frá árinu 1996. „Skagablóðið rennur enn í mínum æðum,“ segir Baski. Heimabærinn er enda viðfangsefni margra listaverka hans. En hvað veldur því að Bæjarlistamaður Akraness 2019 ver dögum sínum í Hollandi við að mála myndir af Akranesi? „Það er náttúrulega heimþrá í þessu, en samt með væntumþykjutón. Ég er ekki að fara að flytja heim til að búa hér. En mér þykir vænt um þennan bæ, ber ofboðslega virðingu fyrir honum og hef áhyggjur af öllu sem er að gerast hérna og skipti mér af öllu sem við kemur honum þó ég búi ekki hérna,“ segir hann og brosir. „Ég hef til dæmis áhyggjur af því að hér sé enginn sýningarstaður fyrir listamenn. Ég hef ekki áhyggjur fyrir mig heldur fyrir aðra. Það verður að gera vel við listamennina. Skagamenn eiga svo marga góða listamenn, nægir að nefna tónlistarmennina. Tónlistarhúsið er reyndar nokkuð gott og tónleikastaðir en myndlistarmennirnir eru svolítið heimilislausir. Mér finnst vanta stað þar sem ungir og upprennandi lókal listamenn geta haldið sýningar,“ segir Baski.

Iðnskólahúsið verði menningarstaður

Hann langar að leggja sín lóð á vogarskálina til að breyta því. Baski telur að gamli Iðnskólinn við Skólabraut 9 gæti orðið kjörið menningar- og sýningarhús. Þar ætlar hann einmitt að halda myndlistarnámskeið, sem hófst 11. febrúar og síðan sýningu eigin verka dagana 22.-23. febrúar. „Gamli Iðnskólinn er fallegt hús á flottum stað með góðu aðgengi fyrir alla og nægilega stórt og rúmgott hús til að þar megi halda myndlistarsýningar,“ segir hann. „Ef til vill þyrfti að taka húsið í gegn og breyta því eitthvað að innan. Það gæti kostað einhvern pening ef á að gera það almennilega, en það yrði alltaf ódýrara en að byggja nýtt,“ bætir hann við. „Mig langar bara að sjá hér á Akranesi góðan menningarstað, með sýningarrými og kaffistofu, fyrir unga og upprennandi myndlistarmenn í bænum. Hver veit, þarna mætti jafnvel halda tónleika líka. Þess vegna ætla ég að prófa að sýna í gamla Iðnskólanum núna. Mig langar að sýna fram á að það sé hægt og að húsið henti í þetta,“ segir Baski, sem greinilega er hlýtt til hússins. „Minn árgangur lenti í því að ganga þarna í skóla skömmu eftir 1980. Við lentum á smá vergangi því það vantaði húsnæði og fengum að fara í gamla Iðnskólann. Þar var bara sópað gólfið og hent upp borðum og byrjað að kenna, en hann hafði þá staðið auður í einhvern tíma. Mér fannst þetta mjög fínt og á margar góðar minningar þaðan,“ segir Baski. „Þá var Harðarbakarí þarna rétt við hliðina á. Það var alltaf svolítið gaman hjá okkur krökkunum þegar brauðin í bakaríinu voru sett út til að kæla þau. Það vildi stundum rýrna svolítið hjá þeim þegar við vorum nálægt,“ segir hann og hlær við endurminninguna.

Listhneigður sem barn

Undanfarna þrjá áratugi hefur myndlistin átt hug Baska og hjarta. En hvað varð til þess að hann tók upp pensilinn í upphafi? „Mér gekk illa í skóla. Ég er lesblindur og átti erfitt með bóknámið, eins og reyndar fleiri listamenn. Það sást fljótlega að bóknámið ætti ekki fyrir mér að liggja. Gömlu stærðfræðibækurnar eru ekki mikið reiknaðar, en töluvert teiknaðar,“ segir listamaðurinn og brosir. „En ég hef alltaf litið á lesblinduna og þessa námsörðugleika frekar sem kost en galla. Ef fólk er með dyslexíu eða reikniblindu eða hvað eina þá er bara meira rými í heilanum fyrir þetta kreatífa,“ segir hann. „Enda þurfti ekki annað en að snúa við einkunnaspjaldinu hjá mér. Ég var verstur í reikningi og stafsetningu en bestur í skapandi greinunum,“ bætir hann við. „Svo man ég að í barnaskóla var ég búinn að þjálfa með mér mjög fallega skrift, með fögrum línum þó stafirnir lentu ekki alltaf á réttum stöðum,“ segir hann og hær við. „En maður á ekkert að láta neitt stoppa sig. Ég hef gefið út bækur þó ég sé lesblindur og slakur í stafsetningu. Það er allt hægt og alltaf hægt að fá hjálp. Sem betur fer fá börn sem eiga í námsörðugleikum meiri aðstoð í dag en þegar ég var ungur og menn þóttu bara vitlausir ef þeir gátu ekki lært stafsetningu eða gekk illa að lesa,“ segir Baski. „En alltaf náði ég athyglinni með því að teikna. Þar var ég bestur og var hrósað fyrir það. Kannski varð það til þess að ég lagði þetta á endanum fyrir mig, maður keppist jú við að gera það sem maður er bestur í,“ segir hann og rifjar upp sýningu sem hann tók þátt í þegar hann var ellefu ára gamall. „Mér hlotnaðist mikill heiður í ellefu ára bekk. Þá fékk ég að gera jólaskreytingar í nývígt íþróttahús á Vesturgötunni. Þar voru allir jólasveinarnir gerðir úr stórum korkflekum og ég fékk að gera Gáttaþef. Þetta hefur líklega verið fyrsta opinbera listasýningin sem ég tók þátt í,“ segir hann og brosir.

Frábærar vondar fréttir

Þrátt fyrir að hafa verið listhneigður ungur piltur segir Baski að hann hafi ekki fyrr en seinna ákveðið að reyna fyrir sér í myndlistinni. „Ég var alltaf að berjast í námi, gekk aldrei vel í því bóklega og flosnaði á endanum frá því. Þá lærði ég rafsuðu en fór að sækja námskeið í Myndlista- og handíðaskólanum þegar ég bjó í Reykjavík, fór svo í Lýðháskóla í Noregi og lærði leikmyndahönnun og leiktjaldamálun. Þegar ég sneri heim til Íslands á ný fór ég aftur í Myndlista- og handíðaskólann, lærði módelteikningar og tók myndlistaráfanga í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti,“ segir hann. Eftir á að hyggja má því líklega álykta sem svo að myndlistarmaðurinn hafi á þessum tíma verið að reyna að brjótast út í honum. „Ég var enn ekki ákveðinn í að láta verða af því að fara í myndlistarnám. Það gerði ég ekki fyrr en ég fékk óvæntar fréttir, sem ég vil meina að séu bestu fréttir lífs míns, þó þær hafi í eðli sínu verið slæmar. Ég fór til heimilislæknis og í ljós kom að ég er með ofnæmi fyrir krómi og nikkel. Heimilislæknirinn sagði við mig; „ef þú ætlar að vinna við rafsuðu og járn, þá gef ég þér tíma þangað til þú verður svona 35 ára. Þú ættir að velja þér eitthvað annað,“ sagði hann við mig.“

Lengi að finna sig

Þessar fregnir, sem Baski fannst svo gott að heyra, urðu til þess að fljótlega lét hann verða af því að elta myndlistardrauminn. „Einu ári síðar eða svo ákvað ég að láta slag standa og kýla á myndlistina,“ segir hann. „Í millitíðinni fór ég að vísu til Bolungarvíkur og var við ýmis störf. Ég var í fiski, vann í húsgagnaverslun og prófaði allt mögulegt. Bara aðeins að kynnast lífinu í litlu þorpi, það var alveg meiriháttar,“ segir Baski. Eftir stutta viðdvöl heima á Akranesi lá leiðin í myndlistarskólann og svo fljótlega eftir það í listaakademíuna í Enschede í Hollandi. Hann hafði þá kynnst eiginkonu sinni, hinni hollensku Arianne Bos. Þau kynntust á Íslandi, en það var Baski sem átti frumkvæðið að því að þau flyttust til heimalands hennar þegar hann hóf nám í akademíunni. Árið var 1996 og Baski þá að verða þrítugur. „Ég var seinþroska, við erum allir svo seinþroska þessir listamenn,“ segir hann og hlær við. En hann er bara einn þeirra sem þurftu að fá tíma til að átta sig á hvað þeir raunverulega vildu fá út úr lífinu. Baski lítur svo á að það hafi alls ekki verið ókostur að byrja seinna en flestir að leggja stund á listina. „Ég var þroskaðri fyrir vikið, búinn að prófa ýmislegt, vinna í fiski og öllu öðru sem mér fannst frábært. Það má ekki gera lítið úr því og ég hef notfært mér það í myndlistinni. Það er bara skóli lífsins, sem má alls ekki líta á sem slæman skóla. Það er þroskandi að kynnast lífinu í harðgeru þorpi eins og Bolungarvík, þar sem menn þurfa að hafa fyrir því að komast af. Slík lífsbarátta er virðingarverð,“ segir Baski.

Harður heimur

Hann segir að hið sama hafi gilt á Akranesi þegar hann var ungur piltur að alast upp. „Það þurfti að hafa fyrir hlutunum. Ég man eftir því þegar við vorum 13 ára, einmitt í Iðnskólanum. Við fórum stundum að hlaða niður mjöli í Síldarverksmiðjunni fyrir skóla, til að ná okkur í auka aur og það fannst öllum alveg sjálfsagt,“ segir hann. „En síðan vorum við hálfpartinn reknir heim úr skólanum til að fara í bað. Þó við hefðum skipt um föt þá var lyktin föst í hárinu og á höndunum á okkur. Við vorum orðnir samdauna óþefnum en þetta var auðvitað ekki boðlegt fyrir aðra nemendur og kennara,“ segir hann og hlær við. „Þetta var hluti af því að alast upp og bara gaman af því. Maður þurfti að hafa fyrir þessu,“ segir Baski. Er slíkt gott veganesti inn í heim listarinnar? „Já, það held ég. Að vera myndlistarmaður er ekkert „gef mér.“ Þetta er harður heimur og gengur misjafnlega vel. Ég held að enginn listamaður hafi sömu sögu að segja af því hvernig hann kemst áfram,“ segir Baski. Sjálfur er hann iðinn við vinnu sína. „Ég hef valið mér það að vinna alltaf og er alveg harður á því. Kannski lærði ég það af hörkunni á Íslandi að mæta alltaf snemma til vinnu og alltaf að gera eitthvað. Auðvitað gengur misjafnlega vel, það koma slæmir dagar inn á milli, en maður getur alltaf tekið eitthvað út úr vinnu hvers einasta dags, þó það séu ekki nema strokurnar eða mjög gróft uppkast. Það er alltaf eitthvað,“ segir hann. „Það sama gildir nú bara um flesta hluti í lífinu. Það gengur ekkert alltaf vel en ekkert er unnið algerlega til einskis,“ bætir Baski við.

Pensillinn hefur eitthvað að segja

List Baska hefur verið flokkuð undir hatt raunsæs expressjónisma. Blaðamaður gerist hér helst til ósanngjarn og spyr listamanninn hvort hann geti tekið undir þessa flokkun. Hann segir erfitt að ætla að fella sjálfan sig undir einhverja listastefnu, en segir þetta þó í grófum dráttum rétt. „Já, ég er einhvers konar fígúratífur, raunsæis expressjónisti sem sækir efnivið úr lífinu. Mér finnst gaman að mála sterkar sögur og sögutengd verk. Ég mála ekki alveg hárin á kinnunum fá fólki. Ég vil leyfa pensilstrokunum að tala, grófleikanum, ljósinu og birtunni. En ég er líka raunsær listamaður og fer strundum ansi nálægt því sem augað sér, en aldrei alveg,“ segir hann. „Versta gagnrýni sem ég hef nokkurn tímann fengið var þegar einu sinni kom maður til mín og sagði; „djöfull er þetta gott hjá þér, þetta er bara alveg eins og ljósmynd.“ Það tók ég til mín, þó hann hafi meint vel með þessu,“ segir Baski. Skyldi kannski engan undra, svona þegar út í það er hugsað. Baski er nefnilega ekki ljósmyndari heldur myndlistarmaður. „Ég forðast þetta algjöra raunsæi, það verður að vera munur á milli málverka og ljósmynda. Þetta er allt annað listform,“ segir hann. Pensillinn hefur þannig eitthvað að segja, til viðbótar við fyrirmyndina og strokur listamannsins á striganum endurspegla túlkun hans á því sem fyrir augum ber. Hann gæti málað hárnákvæma eftirmynd af sjómanninum á Akratorgi sem horfir út á hafið í slagveðursrigningu en hann vill það ekki. Hann vill túlka og tjá sig með öðrum hætti.

Misjafn er smekkur manna

Þegar kemur að myndlist vilja sumir ekkert annað en ljósmynd úr akrýlmálningu en aðrir helst bara nakin form og nokkra liti. Þegar öllu er á botninn hvolt snýst myndlistin nefnilega að stóru leyti um smekk augans sem á hana horfir. „Ég hitti Erró einu sinni í myndlistarskólanum og hann sagði, sem mér fannst alltaf gott veganesti; „ef þú ert með málverk sem þú ert að sýna tíu manns og allir segja „þetta er frábært hjá þér“, þá skaltu hætta sem myndlistarmaður því þetta er ekki að gefa þér neitt. En ef það eru tveir, þrír, sem finnst ekkert varið í þetta en aðrir nokkuð ánægðir, þá ertu á réttum stað,“ segir Baski. „Heimurinn er bara þannig að það hafa ekki allir sama smekk,“ bætir hann við. Ef til vill má túlka orð Errós einnig á þá leið að listamaðurinn þurfi fyrst og síðast að vera trúr sjálfum sér. Hann eigi að mála fyrir sig, fyrst og síðast, en ekki aðra. „Mér fannst þetta gott hjá Erró og það er ekkert endanlegt svar við þessari ráðleggingu hans,“ segir Baski. Þú, lesandi góður, getur ef til vill túlkað ráð Errós á enn annan hátt og er hér með hvattur til þess að gera það.

„Ég er bara Baski“

Og svarið við hinni ósanngjörnu spurningu um hvernig myndlistarmaður Baski er verður að fá að vera einfalt en í senn flókið. „Ég er bara Baski,“ segir listamaðurinn. Eðlilega er ekki hægt að ætla honum að dæma sjálfan sig. Til þess eru listfræðingarnir. Listamaðurinn hefur hann öðrum hnöppum að hneppa. „Ég held ég sé bara þokkalegur listamaður. Ég get lifað á listinni og þykir það bara býsna gott,“ segir hann, enda er það meira en margir geta státað sig af. „Þetta er ekki alltaf dans á rósum og margir þyrnar sem þarf að stíga á líka á leiðinni. Það þarf að hafa fyrir þessu. Ég get lifað á listinni í dag en hef oft í gegnum tíðina fengið hjálp frá mínum nánustu. Listamaður þarf að eiga góða að og ég skammast mín ekki vitund að segja frá því að ég hef oft þurft að sækja aðra vinnu með til að komast af. Ég vann með þegar ég var að stíga mín fyrstu skref og reyna að koma mér áfram í listinni. Það er engin skömm af því,“ segir hann.

Mikill hugmyndabanki

Utan þess að kenna á námskeiði og halda sýningu á Akranesi nú í febrúar, hvað er listamaðurinn helst að fást við þessi misserin? „Ég er með ákveðið þema í gangi núna. Ég fer til Reykjavíkur og mála húsin í kringum þar sem amma mín bjó þegar ég var lítill. Ég að fara með Akraborginni í heimsókn til ömmu,“ segir hann. Vonandi verður hann ekki sjóveikur á siglingunni. „Ég var reyndar alltaf sjóveikur á leiðinni þegar ég var lítill,“ segir Baski og hlær við. Þarna komum við aftur að minningunum. Eru þær endalaus uppspretta hugmynda? „Ég held það, já. Þær eru mikill hugmyndabanki. Ég hef verið mikið fyrir það í gegnum tíðina að mála minningar og hef svolítið gert af því að taka þessa sjálfsögðu hluti í umhverfinu og draga þá fram í dagsljósið. Þessa hluti sem fólk sér á hverjum degi og virðir ekki með athygli sinni; sama húshornið sem maður gengur framhjá á hverjum degi, sprungurnar í glugganum, garðslönguna sem liggur í garðinum eða köttinn sem situr í gluggakistunni. Svona hluti,“ segir Baski um fegurð hins hversdagslega. „Alls konar sjálfsagðir hlutir sem verða kannski ekki til eftir 15 ár,“ segir hann.

Listin kemur innan frá

Til þess dýfir hann minningunum í málningu og dregur myndir á strigann. Stíll Baska þykir mörgum auðþekkjanlegur og hann sjálfur telur sig hafa náð þeim stað að fólk þekki myndirnar hans án þess að vita að hann málaði þær. Stefna ekki allir listamenn einmitt að því? „Óvart jú, menn gera þetta bara óvart. Þú skalt ekki reyna að búa þetta til, held ég ekki. Ef þú keppist við að reyna að búa til þinn eigin stíl þá ertu á villigötum. Þetta þarf að koma innan frá,“ segir Baski. „Listamaðurinn á alltaf að vera hann sjálfur og gera það sem honum líður best með. Það sem kemur innan úr listamanninum er það sem verður eftir á striganum,“ segir hann. Slíkt hlýtur þó að vera erfitt og á köflum lýjandi. Fyrir mann sem er búinn að vera lengi í faginu, hvað er það sem drífur hann áfram á hverjum degi? Hann svarar í einu orði; „gaman,“ segir hann. „Þetta er gaman,“ bætir hann við til áherslu. „Mér finnst æðislegt að vinna við svona skapandi starf. Tala nú ekki um þegar maður selur. Ég sel töluvert mikið af því sem ég mála. Það gefur mér brauðaurinn og tækifæri til að halda áfram að gera það sem ég geri best og finnst skemmtilegast,“ segir Baski að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira