adsendar-greinar

Sagan af kindunum sem fluttar voru til Stóru-Vatnsleysu

Út er komin hjá bókaforlaginu Sæmundi á Selfossi bókin Kindasögur 2. Höfundar eru þeir Aðalsteinn Eyþórsson og Guðjón Ragnar Jónasson. Þeir gefa sig út fyrir að vera áhugamenn um sögur og sauðfé og gáfu í fyrra út bók með sama titli en þessi nýja er sjálfstætt framhald hennar. Það er skoðun höfunda að kindasögur séu sérstök grein íslenskrar sagnaskemmtunar sem eigi sér langa sögu en lifi enn góðu lífi – rétt eins og sauðkindin sjálf.

Höfundar leituðu víða fanga í efnisöflun sinni, t.d. í útvarpstilkynningar Sauðfjáverndarinnar frá því seint á síðustu öld þar sem sagði m.a. að sauðkindin væri fíngerð og viðkvæm. Í öðru bindi Kindasagna eru meðal annars rifjuð upp tildrög þessara tilkynninga, sagt frá afdrifum kinda í eldgosum og sauðfjárhaldi í höfuðborginni, vikið að framliðnum kindum, forystukindum, stökkrollum og karakúlfé, auk kinda í kvæðum íslenskra skálda.

Hér fyrir neðan er stuttur kafli úr bókinni þar sem segir frá Sæmundi Kristjánssyni sem flutti fé sitt norðan frá bænum Nýhöfn á Melrakkasléttu suður með sjó eða að Stóru-Vatnsleysu. Þar hugðist hann setjast að en margt fór öðruvísi en áformað var. Ærnar undu illa í nýjum heimkynnum og við grípum niður í frásögnina þegar verið var að flytja ærnar frá Akureyri suður til Reykjavíkur. Þær voru fluttar með gufuskipinu Botníu sem sigldi reglulega með farþega og varning á milli Íslands og Danmerkur:

Stefndu allar heim á leið

„Á leiðinni suður hreppti Botnía vont veður og máttu Sæmundur og aðstoðarmaður hans hafa sig alla við til að hafa hemil á fénu. Það tókst þó slysalaust og allar komust kindurnar heilu og höldnu til Reykjavíkur. Þeim tókst að reka féð klakklaust í gegnum höfuðstaðinn og komst allur hópurinn á einum degi suður að Stóru-Vatnsleysu.

Skömmu eftir að féð kom á Vatnsleysuströnd varð ljóst að það undi illa í nýjum heimkynnum, en þess var tryggilega gætt fram yfir sauðburð vorið eftir. Að honum loknum var því sleppt út á hraunbreiðurnar ofan við bæinn á Vatnsleysu. Er skemmst frá því að segja að stór hluti þess hvarf sjónum manna og sást aldrei framar á Vatnsleysuströnd. Haustið eftir kom nokkuð af fénu fram í afréttarlöndum Borgfirðinga, nokkrar kindur birtust norður í Húnavatnssýslu og allstór hópur kom að Kárastöðum í Þingvallasveit. Sagt var að fé Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hefði dreifst um fimm sýslur í leit sinni að átthögunum á Melrakkasléttu en drjúgur hluti kindanna týndist og kom aldrei fram; þær hafa trúlega farist í vatnsföllum, gjám og öðrum hættum sem urðu á leið þeirra. Þeir sem skráð hafa frásagnir af stroki Leirhafnarfjárins frá Vatnsleysuströnd, þeir Benjamín Sigvaldason frá Gilsbakka í Öxarfirði og Kristleifur Þorsteinsson á Stóra-Kroppi í Borgarfirði, leggja báðir áherslu á að strokukindurnar hafi þrátt fyrir allt verið á réttri leið norður á Sléttu en þeim hafi ekki enst sumarið til að komast á leiðarenda. Það má auðvitað til sanns vegar færa en hafa verður í huga að menn eða skepnur sem leggja af stað frá suðvesturhorni landsins verða óhjákvæmilega á nokkurn veginn „réttri leið“ á norðausturhornið ef haldið er í norður, austur eða eitthvað þar á milli. Eitt er þó víst, að strokukindurnar hafa ætlað sér heim á leið en í ljósi þess hve þær dreifðust víða má ætla að þær hafi haft ólíkar hugmyndir um réttu leiðina enda var úr vöndu að ráða af því að þær höfðu komið sjóleiðina að norðan.“

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir