adsendar-greinar Tækni og vísindi
Guðmundur Sigurðsson og Bjarni Skúli bera málverkið frá kirkjunni og í gamla Iðnskólann þar sem forvörn og lagfæringar á verkinu verða unnar. Ljósm. Skessuhorn/mm

Altaristafla Akraneskirkju tekin niður til viðgerðar

Síðastliðinn mánudag var altaristafla Akraneskirkju tekin niður til forvarnar og viðgerðar. Skagamaðurinn Bjarni Skúli Ketilsson listmálari, Baski, tók að sér viðgerð á málverkinu og mun hann vinna verkið í húsnæði gamla Iðnskólans við Skólabraut. Baski hefur sérhæft sig í lagfæringum á eldri málverkum samhliða listsköpun sinni í Hollandi. Hann býst við að vinnan taki um tvo mánuði, verði í síðasta lagi lokið fyrir næstu jól. Um vandaverk er að ræða þar sem bakhlið verksins er fyrst hreinsuð og striginn lagfærður samkvæmt kúnstarinnar reglum. Til fyrsta hluta verksins fær hann sér til aðstoðar hollenska samstarfskonu sína. Eftir það tekur við mikil nákvæmnisvinna við hreinsun og skerpingu sjálfs málverksins. Sérstök efni eru notuð þegar gömul málverk sem þessi eru lagfærð, meðal annars olíulitir með mjög lítilli olíu til að halda réttu áferðinni og forðast t.d. skarpan mun milli nýrra og gamalla lita. Altaristaflan er nokkuð sprungin enda fyrstu árin geymd í óupphituðu húsnæði Garðakirkju þar sem rakastig var mjög breytilegt. Þá eru litir í myndinni farnir að fölna, einkum efri hluti verksins. Auk þess hefur nálægt við kerti; vax og hita í tímans rás, sett mark sitt á myndina.

Altaristaflan í Akraneskirkju er 150 ára og því eldri en kirkjan sjálf. Verkið prýddi upprunalega Garðakirkju en var síðar flutt á hestvagni upp á Akranes þar sem það hefur verið síðan. Sigurður Guðmundsson málaði myndina sem eftirmynd af altaristöflunni sem enn þann dag í dag prýðir Dómkirkjuna í Reykjavík. Upphaflega stóð til að Baski myndi stækka ljósmynd af altaristöflunni í raunstærð til að koma fyrir í rammanum og hafa sem altaristöflu í kirkjunni meðan viðgerð stæði yfir. Hann ákvað hins vegar að mála aðra mynd eftir þeirri gömlu. Það verk segist hann hafa málað með svipuðum aðferðum og listamenn fyrri tíma beittu. Eftirmyndin er því býsna lík frummyndinni. Aðspurðum um hvað hann hyggist gera við eftirmyndina þegar viðgerð á gömlu myndinni lýkur, segir Baski að hún verði einfaldlega föl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir