adsendar-greinar Mannlíf
Útvarpsnefndin.

Að afloknu Útvarpi Akraness

Nú er enn ein útvarpshelgin liðin. En okkur finnst eins og við séum rétt að leggja af stað! Það er sagt að tíminn fljúgi þegar það er gaman og það á svo sannarlega við núna. Þetta hefur verið frábær helgi. Skemmtilegir þættir og fjölmargir viðmælendur. Mér telst til að 21 þætti hafi verið útvarpað beint og fjórir sem voru teknir upp áður. Auk þess var tónlist útvarpað alla nóttina. Að þessum þáttum komu um 37 stjórnendur og gestir í hljóðstofu voru 66 auk fjölmargra nemenda úr grunnskólunum hér í bæ, því hefur verið líf og fjör alla helgina.

Síðan 1988 hefur Útvarp Akranes verið fastur liður hjá Sundfélaginu og í jólaundirbúningi Skagamanna. Margir hafa sagt mér að þeir byrji jólaundirbúninginn þegar útvarpið fer í gang. Útvarpið fór fyrst í loftið til að safna fyrir tímatökutækjum í sundlaugina og ég veit ekki hvort útvarpið var hugsað til framtíðar þá, en alla vega erum við hér enn 33 árum síðar. Og erum ekkert á leiðinni að hætta.

Öll vinna við útvarpið er unnin í sjálfboðavinnu og vil ég fyrir hönd útvarpsnefndar þakka öllum fyrir aðstoðina. Þáttastjórnendum, viðmælendum, sundmönnum og aðstandendum þeirra og öllum öðrum sem koma að þessu starfi. Það er ekkert sjálfgefið að þetta gangi allt upp, en hafið hjartans þakkir fyrir. Einnig þökkum við öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa stutt okkur með auglýsingum og á annan hátt, ykkar styrkur heldur okkur á floti.

Útvarp Akranes hefur verið útvarp á faraldsfæti í gegnum tíðina og stundum skipt um húsnæði á hverju ári! Níunda árið í röð eru við í gamla Landsbankahúsinu, og hér hefur farið virkilega vel um okkur, frábær aðstaða á alla kanta. Bestu þakkir fyrir að leyfa okkur að vera hérna Ívar Örn og Akraneskaupstaður.

Einnig vil ég þakka tæknimönnunum okkar Óla Palla og Óla Val fyrir alla þeirra óeigingjörnu vinnu, þeir eru reyndar ekki bara tæknimenn, heldur aðstoða okkur við allt, undirbúning, ráðleggingar og alls konar reddingar.  Þessir snillingar okkar eru í einu orði sagt frábærir! Hjá þeim eru engin vandamál, bara verkefni að leysa.

Sundfélag Akranes óskar Akurnesingum og öðrum hlustendum nær og fjær, gleðlegra jóla og farsældar á nýju ári. Njótið aðventunnar, jólanna og samveru við vini og vandamenn.

Takk fyrir áheyrnina og heyrumst að ári liðnu.

Útvarpsnefnd Útvarp Akraness 2021 kveður að sinni.

Áslaug Guðmundsdóttir

Bjarney Guðbjörnsdóttir

Guðrún Guðbjarnadóttir

Hjördís Hjartardóttir

Maríanna Pálsdóttir

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg

Trausti Gylfason

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira