adsendar-greinar Tækni og vísindi
Skagamaðurinn Jón Gunnar Ingibergsson hóf fyrir rúmu ári störf í Vaktstöð siglinga. Hann var á vaktinni þegar tíðindamaður Skessuhorns kíkti í heimsókn. Ljósm. mm.

Á Vaktstöð siglinga eru alltaf að lágmarki þrír á vakt

Landhelgisgæsla Íslands gegnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að öryggi sjófarenda. Mælingar sýna að til stofnunarinnar er borið mikið traust. Landsmenn finna til öryggis að grannt sé fylgst með ferðum skipa og báta, þyrlur Gæslunnar þekkja allir og varðskipin gegna mikilvægu hlutverki við eftirlit og björgun. Í Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar við Skógarhlíð í Reykjavík er fjölþættri starfsemi Gæslunnar stýrt allt árið um kring, alla daga og alla nætur. Í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð eru höfuðstöðvar Gæslunnar, en auk þess er Neyðarlínan þar til húsa, Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur höfuðstöðvar sínar og þar er samhæfingarmiðstöðin sem virkjuð er umsvifalaust þegar stærri slys eða óhöpp verða á sjó eða landi og vá vegna eldgosa eða annarra náttúruhamfara grúfir yfir. Þar koma allir lykilstjórnendur viðbragðsaðila saman ef stórslys verða. Blaðamaður Skessuhorns kíkti í heimsókn í Vaktstöð Landhelgisgæslunnar í síðustu viku. Sest var niður í þá annars mannlausri samhæfingarmiðstöðinni á björtum maídegi og rætt við Ásgrím L Ásgrímsson sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Ásgrímur sýndi blaðamanni húsakynnin og meðal annars vaktstöðina þar sem alltaf er fylgst með umferð á sjó. Rætt er um vöktun með skipaumferð og sitthvað fleira.

Ætíð á bakvakt

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er hjartað í starfsemi stofnunarinnar og þar starfa 17 manns. Innan hennar er leitar- og stjórnstöð fyrir sjófarendur og loftför á Íslandi. Vaktstöðin sinnir fiskveiðieftirliti og er um leið landamærastöð fyrir ytri landamæri Schengen fyrir skipaumferð. Einnig er hún fjarskiptastöð fyrir skip og sinnir leiðarstjórnun fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa. Á Vaktstöðinni í Skógarhlíð eru alltaf að minnsta kosti þrír á vakt hverju sinni, allan sólarhringinn, allt árið. Á stórum skjám er fylgst með bátum og skipum og haldið samskiptum við skipsstjórnendur. „Það koma sannarlega álagstímar hjá okkur á vaktstöðinni. Við erum alltaf við öllu búin því óhöpp gera ekki boð á undan sér hvort sem er á sjó eða landi.“ Ásgrímur tekur sem dæmi að fimmtudaginn 16. maí hafi allt farið á fullt í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð þegar rúta valt í Skaftafellssýslu og mikill viðbúnaður björgunaraðila var settur í gang. „Þá önnuðumst við samskipti og stýringu þeirra björgunaraðila sem tiltækir voru á vegum Landhelgisgæslunnar, þyrla okkar og af dönsku varðskipi sem hér var statt kom einnig þyrla sem og flugvél Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan annast samskipti á milli áhafna þessara loftfara og  björgunarsveita, lögreglu og annarra sem koma þurfa að slysum af þessari stærðargráðu. Á vaktstöðinni hér eru alltaf einhverjir á bakvakt. Ég og kollegar mínir fara í aðgerðastjórnun. Það sama á við ef slys eða óhapp verður á hafi úti. Til dæmis kviknaði nýverið í vélarrúmi Sóleyjar Sigurjóns úti á hafi norðan við landið og þá er bakvaktin umsvifalaust kölluð út og tók þátt í stýringu aðgerða úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar með aðkomu bakvaktar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.“

Fjölþætt verkefni Gæslunnar

Í fyrstu ræddum við Ásgrímur um Landhelgisgæsluna og hlutverk hennar í öryggisneti landsmanna. „Landhelgisgæsla Íslands hefur nokkur skilgreind verkefni með höndum. Eitt af því er að vera svokölluð JRCC björgunarmiðstöð fyrir hafið og vegna loftfara, lögregla ber síðan ábyrgð á eftirliti og björgun á landi. Í starfi okkar felst meðal annars rekstur þyrla og flugvélar, varðskipa og annars búnaðar. Sérstök sprengjusveit er til dæmis starfandi hjá Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæslan er samskiptaaðili fyrir skip almennt og loftför sem taka þátt í leitar- og björgubnaraðgerðum og sinnir auk þess landamæraeftirliti fyrir hafið. Öll skip og bátar sem koma úr erlendri lögsögu eru vöktuð og þurfa þau að senda komuskýrslu með viðeigandi upplýsingum, það er okkar lagalega skylda að sjá til þess að því sé sinnt. Síðan sinnum við fjölbreyttum verkefnum og mönnum meðal annars Vaktstöð siglinga sem heyrir lagalega undir Siglingasvið Vegagerðarinnar. Það er þó Neyðarlínan sem tæknilega rekur vaktstöðina, AIS kerfið og fjarskiptakerfið sem sjófarendur nota og treysta á. Eftirlit með allri þessari starfsemi er síðan á höndum Samgöngustofu. Starfsemin sem fram fer hér í Skógarhlíðinni heyrir svo undir nokkur ráðuneyti,“ segir Ásgrímur.

Ber að tilkynna sig

Eitt af veigameiri verkefnum Landhelgisgæslunnar er að fylgjast með öryggi sjómanna á hafi úti innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins . „Sjálfvirka tilkynningaskyldan virkar þannig að skipstjórnarmönnum ber að hafa alltaf kveikt á AIS kerfinu í bátum sínum ef þeir fara úr höfn. Þeim ber einfaldlega lagaleg skylda til þess að kveikja á búnaðinum, að tilkynna sig úr höfn til að hægt sé að vita hvar þeir eru staddir. Þá er einnig mikilvægt að þeir tilkynni sig í gegnum talstöðina þegar haldið er úr höfn því um leið eru þeir að ganga úr skugga um að talstöðin virkar og sé stillt á rétta rás. Mörgum finnst fylgja því mikið skvaldur að hafa stillt á Rás-16, en hún er engu að síður mikilvæg þeirra eigin öryggi og annarra sem staddir eru á veiðum eða siglingu í grenndinni. Þá hefur einnig verið búið til app sem sjómenn geta notað í stað þess að tilkynna sig í gegnum talstöð.“

STK kerfið var gallað

Áður en sjálfvirka tilkynningaskyldan með búnaði sem kallast AIS var tekin í gagnið um borð í öllum bátum og skipum var svokallað STK kerfi notað við Íslandsstrendur frá árinu 1995. Það var séríslenskur búnaður frá Reycal  sem notast var við allt til ársins 2009. „Það kerfi hafði sína galla og í því voru mörg svokölluð skuggasvæði. Ekki síst var þjónustan við það þyngslaleg og búnaðurinn einungis í notkun við Íslandsstrendur. Til dæmis þurfti að senda tækin til viðgerðar í Bretlandi og erfitt að fá lánstæki á meðan. Það var ekki ásættanleg þjónusta fyrir útgerðir. Við slíkar aðstæður var örygginu ábótavant að því leyti að hafa þurfti talstöðvarsamband á þriggja tíma fresti og í millitíðinni gat margt gerst. Það kerfi var því barn síns tíma. Svo þegar strandveiðar hófust réði kerfið einfaldlega ekki við þá miklu fjölgun sjófarenda sem varð samhliða því. Þá voru yfir þúsund skip og bátar á sjó í einu og allt upp í 1100 þegar mest lét árið 2014.“

Sjálfvirk boð

Ásgrímur segir það almennt mjög mikilvægt að sjómenn láti vita þegar þeir fara á sjó og umgangist öryggiskerfið, þeirra eigin öryggi, af virðingu. „Um leið og menn láta vita af sér þegar haldið er frá bryggju er gengið úr skugga um að AIS kerfið sé í lagi og þar með sjálfvirka tilkynningakerfið eftir að þeir eru komnir lengra á haf út. Við höldum síðan skráningu meðan þeir eru á sjó og vöktum þá þar til komið er í land að nýju. Ef ekki berast sjálfvirk boð frá bátnum eða skipinu, þá er einfaldlega eitthvað að og eftirgrennslan fer í gang samkvæmt okkar viðbragðsáætlun. Stundum kemur í ljós að menn hafi haft slökkt á búnaðinum eða þá að hann hafi bilað og því sé ekkert að óttast, en ef það reynist ekki ástæðan fer viðbragðsáætlun umsvifalaust í gang.“ Ásgrímur segir að ekki sé óalgengt á álagstímum að 10-20 bátar séu í „vöntun“ á sama tíma og margvíslegar aðstæður geti komið upp. Sumir bátar eru jafnvel að veiðum í víkum fyrir vestan landið, alveg upp við kletta, þannig að merkin berast ekki vaktstöðinni. Aðrir drepi kannski á vélinni og aftengja allt rafmagn. Þannig auki slíkt ástand álag og vinnu þeirra sem sitja og fylgist með í Vaktstöðinni.

MarineTraffic er einkaframkvæmd

Margir sem fylgjast með förum skipa um lögsöguna á Internetinu þekkja Marine.traffic.com. Í því er hægt að fylgjast með ferðum margra sjófara sem skráð eru þar inn, en þó engan vegin ferðum allra. Ásgrímur segir að vegna persónuverndarsjónarmiða megi Landhelgisgæslan ekki birta þau gögn á sínum vegum. „Marinetraffic.com er vefur sem rekinn er í einkaframkvæmd og hafa þær upplýsingar sem á honum er að finna ekkert að gera með okkur eða aðra opinbera aðila. Þar birtast engu að síður gögn um ferðir margra smærri báta og stærri skipa ef þau senda út og í nágrenninu er móttökuloftnet sem nemur bylgjur frá þeim og sendir áfram. Við hjá Landhelgisgæslunni höfum hins vegar upplýsingar sem við birtum ekki opinberlega en notum í okkar vaktstöð enda er okkar hlutverk að fylgjast með öllum sem á sjó eru hverju sinni.“

Traust ríkir

Almennt segir Ásgrímur að margir sjómenn hafi í fyrstu ekki verið alltof hrifnir af því að Landhelgisgæslan hefði eftirlit með ferðum þeirra í gegnum AIS sjálfvirku tilkynningaskylduna. Fannst það e.t.v. jafnvel jaðra við njósnir. „Áður höfðum við bara aðgang að gervihnattagögnum í eftirliti okkar. Sjómenn voru margir ekki tilbúnir að gefa sjálfkrafa upp of miklar upplýsingar um til dæmis gjöful veiðisvæði og slíkt. En þessum breytingum sem auknu eftirliti og þar með auknu öryggi fylgdi fyrir sjómenn hafa fylgt kostir en við reynum að virða sjónarmið sjómanna. Með AIS kerfinu er smám saman að byggjast upp traust og gagnkvæm virðing milli aðila enda sjá allir að öryggi er veigamesta atriðið þegar siglt er á hafi úti og mikilvægt að skjótt sé hægt að bregðast við ef eitthvað hendir,“ segir Ásgrímur. „Við reynum alltaf að vera sanngjarnir í samskiptum við sjómenn. Við látum þá hins vegar hiklaust vita ef þeir eru t.d. á leið að toga inn í hólf sem lokað er fyrir veiðum. Erum hins vegar ekki á neinum nornaveiðum og reynum að passa okkur á að vera ekki með stífara eftirlit en nauðsyn ber til.“

Hættustig ef eitthvað bjátar á

Eftir því sem strandveiðarnar hafa þroskast og fest sig í sessi segir Ásgrímur að betri bátar og vanari menn séu nú við veiðar. „Í upphafi strandveiða voru inn á milli vanbúnir bátar, gamlir og lúnir. Nú eru þetta meiri atvinnumenn sem stunda veiðarnar en fyrstu árin var algengara að um frístundasjómenn væri að ræða sem höfðu takmarkaðri reynslu. Þeim hefur fækkað og auk þess eru færri vanbúnir bátar á sjó. Ef eitthvað er að láta sjómenn hiklaust vita og finnst gott að hafa okkur í bakhöndinni.“

Þegar vísbendingar berast Vaktstöð siglinga um að eitthvað sé athugavert við ferðir báts, eða hann sendir ekki sjálfvirk boð frá sér, fer strax af stað ákveðið ferli. „Í fyrsta lagi er byrjað að kalla bátinn upp í talstöð. Þá reynum við að „polla“ hann eins og það er kallað, kalla fram sendingar frá bátnum til að geta staðsett hann. Ef það ber ekki árangur er viðkomandi bátur kallaður upp í fjarskiptum eða reynt að hringja í viðkomandi en það getur verið snúið einkum eftir að gamla NMT símkerfið var aflagt en þá voru símarnir fastir í bátunum. Gátum þá flett þeim upp í símaskrá og hringt. Nú eru allir með farsíma og út frá lögskráningu þurfum við jafnvel að fara í gegnum ja.is til að finna gsm númer viðkomandi skipstjóra. Ef þessi leit og eftirgrennslan hinsvegar skilar engum árangri á 30 mínútum er lýst yfir hættustigi og ræst út þyrla, björgunarskip og aðrir björgunaraðilar. Aðrir nærliggjandi bátar eru auk þess beðnir um að hætta veiðum og fara samstundis til leitar og aðstoðar. Auk þess eru skipaðir vettvangsstjórar á svæðinu til bráðabirgða sem eru þá staddir um borð í skipi. Í framhaldinu er reynt að komast að því hversu margir séu um borð í viðkomandi báti og reynt að skipuleggja leitarsvæði, þá gjarnan einfalt svæði, settir hornpunktar, þannig að menn geti fljótt hagað leit og aðstoð í samræmi við það.“

Þrjú viðbragðsstig

Ásgrímur segir að þannig séu viðbragðsstigin þrjú; Óvissustig ef bátur hverfur úr vöktun AIS, hættustig eftir 30 mínútna árangurslausa eftirgrennslan og neyðarstig þegar staðfesting berst um að eitthvað hafi gerst og er þá allur tiltækur mannskapur ræstur út til leitar og björgunar. Björgunarskip og aðrir viðbragðsaðilar eru þá ræstir út með viðbúnaðarstiginu F1, sem þýðir að mannslíf geta verið í húfi. Ásgrímur segir að til sé mjög ítarleg ferlaskráning um viðbrögð við hinum ýmsu og ólíku óhöppum á sjó eða verkefnum sem Landhelgisgæslan kemur að á landi. Í rafrænni handbók sem Landhelgisgæslan lét útbúa fyrir nokkrum árum er að finna ákveðið flæðirit sem mjög flókið var að gera, en er einkar gagnlegt við ólíkar aðstæður. „Þetta flæðirit er afar fullkomið og vandað og hægt að kalla fram í því ótrúlega margar upplýsingar sem flýta leit og skipulagningu björgunaraðgerða hverju sinni. Það byggir ekki á neinni hefðibundinni forritun, heldur var verkfræðistofu með ákaflega hæfan verkfræðing innanborðs  fengin til að hanna það, en rökhyggja viðkomandi og geta til að sjá hlutina fyrir var ómetanleg við hönnun þessa flæðirits.“

Alltaf kveikt á Rás-16

Ásgrímur vill að lokum árétta að sjómenn hafi alltaf stillt á VHF Rás-16 þegar þeir eru á sjó. „Það eru mýmörg dæmi um að góð hlustendavarsla hafi bjargað mannslífum hér við Íslandsstrendur. Óhöppin gera aldrei boð á undan sér. Það getur verið álandsvindur og bátur orðið vélarvana skammt frá landi, kviknað í báti og engar bjargir í augsýn. Því geta nærliggjandi bátar og sjófarendur komið til hjálpar ef þeir heyra neyðarsendingar á Rás-16. Það er mikið öryggi fyrir sjómennina sjálfa og alla félaga þeirra í kring,“ áréttar Ásgrímur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira