adsendar-greinar Mannlíf
Hallbera Jóhannesdóttir og Bjarni Þór Bjarnason leiddu saman hesta sína við útgáfu bókarinnar. Ljósm. mm.

Á ferð og flugi með ömmu í Akrafjalli

Árið 2012 skrifaði Hallbera Jóhannesdóttir á Akranesi bókina Á ferð og flugi með ömmu og fékk hún Bjarna Þór Bjarnason listamann til að myndskreyta hana. Hallbera gaf síðan bókin út sjálf. Sú bók var um ömmu og Frey, sem er 6 ára, en þau fara um Akranes og amma fræðir strákinn í leiðinni. Bókin seldist fljótlega upp og eftir áskoranir ákvað Hallbera að gefa hana út aftur vorið 2019 auk þes að láta þýða hana á ensku og bar þá titilinn Granny and her little one exploring Akranes. „Meiningin hjá mér var að selja öllum túristunum sem voru væntanlegir á Akranes, áttu að fara í vitann og í Guðlaugu, en það fór eins og það fór. Sem betur fer ekki mjög stórt upplag, en vantar töluvert upp í kostnað,“ segir Hallbera. Nú hefur hún gefið út aðra bók svipað efnis og nefnist hún Á ferð og flugi með ömmu í Akrafjalli.

Komin undir pressu

„Á maður ekki að elta drauma sína,“ spyr Hallbera. „Alveg frá því að ég lauk við fyrri bókina fannst mér að verkefninu væri ekki lokið. Amma og Freyr yrðu að ganga á Akrafjallið, fjallið sem við Akurnesingar höfum fyrir augum okkar hvar sem er í bænum. Fjall sem er svo einstaklega fallegt í laginu séð frá Akranesi. Niðurstaðan varð sú að nú er að koma út bókin Á ferð og flugi með ömmu í Akrafjalli og aftur er það Bjarni Þór sem gerir frábærar myndir við textann. Reyndar varð ég að skipta um sögupersónu og nú er það Smári 8 ára sem fer með ömmu. Freyr stóri bróðir hans er komin með unglingaveikina og nennir ekki með,“ segir Hallbera kímin. „Ég tileinkaði fyrri bókina elsta barnabarni mínu og hafði hann í huga á meðan ég skrifaði bókina. Fyrir tilviljun komst ég að því að yngri bróður hans fannst bókin ekkert skemmtileg. Eftir nokkrar úrtölur fékkst skýringin. Hann var ekki í henni! Ég varð því að lofa að skrifa bók fyrir hann og stóð við það en nú er ég undir pressu því ég á sjö barnabörn.“

Ævintýraganga

Nýja bókin skiptist í tvo megin kafla. „Í fyrri kaflanum fara amma og Smári að Guðfinnuþúfu og í þeim seinni ganga þau á Háahnúk. Þau lenda í ýmsum ævintýrum á leiðinni, bjarga slösuðum hjólreiðamanni og fótbrotnu lambi auk þess sem amma fræðir drenginn um örnefni, segir honum frá flugslysum, Arnesi útilegumanni og Jóni Hreggviðssyni, en hann bjó við rætur fjallsins. Á milli kaflanna er saga í sögunni því amma og Smári velta því fyrir sér hvaða fólk þau Geirmundur og Guðfinna hafi verið. Niðurstaðan varð sú að þau skrifa sögu um þau þar sem finna má m.a. Grýlu og jólasveinana.“

Gott net aðstoðarfólks

„Bróðir minn Leó var nokkurs konar ritstjóri yfir mér, en hann hefur farið óteljandi ferðir í Akrafjallið. Þá hafa fjórir íslenskukennarar hér á Skaga lesið yfir textann, þær Laufey og Sigríður Skúladætur auk tveggja fyrrverandi kennara minna úr gagnfræðaskólanum, þeim Inga Steinari og Steingrímur Braga. Þannig að mér finnst ótrúlegt að villur finnist. Og ég hef ekkert verið að fara yfir lækinn þegar kemur að prentun þessara bóka minna því Prentmet hér í bæ hefur séð um hana og Þórður Elíasson setti bókina upp.“

Hvatt til gönguferða með börnunum

Hallbera segir að báðar þessar bækur séu fyrst og fremst hugsaðar til þess að fræða börn og fullorðna um sitt nánasta umhverfi í bland við dálítinn skáldskap og ævintýri. „Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, sagði skáldið forðum. En það þarf að varðveita þessi heiti og ekki síður allar sögurnar sem eru allt í kringum okkur og hvar er betra að byrja en á börnunum? Bókin á að hvetja fullorðið fólk til þess að fara með börnunum sínum í göngu- og hjólaferðir og fræða þau í leiðinni. Vissulega hafa báðar bækurnar fyrst og fremst tengingu við Akranes og þá um leið við Akurnesinga. En það eru allir velkomnir á Akranes og bærinn hefur upp á ótrúlega margt að bjóða og að ganga á Akrafjallið getur hver „meðalhreppakerling,“ farið, eins og rithöfundurinn Jón Trausti skrifaði 1917,“ segir Hallbera að endingu.

Hægt er að panta bókina hjá höfundi á netfanginu: hallberaj@gmail.com

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira