adsendar-greinar Mannlíf
Jóhannes Ármannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness. Ljósm. glh.

Vonast til að opna Hamarsvöll snemma í maí

„Hamarsvöllur kemur þokkalega vel undan vetri. Reyndar eru frostlyftingar í norðurhlutanum, en það er bara eðlilegt miðað við hvernig veturinn hefur verið. En annars lítur hann bara mjög vel út,“ segir Jóhannes Ármannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness, í samtali við Skessuhorn. Hann hefur staðið í ströngu við vorverkin á Hamarsvelli undanfarna daga og vikur, ásamt fleirum. Búið er að sanda völlinn og bera áburð á hann, en auk þess hlóð Jóhannes laglega steinbrú yfir einn lækinn sem kylfingar ganga yfir þegar leikið er á Hamarsvelli. Allar sandglompurnar hafa verið teknir í gegn, göngustígarnir einnig og útbúnir nýir teigar, eins og gengur og gerist á golfvöllum að vori, enda farið að styttast í opnun. „Af fenginni reynslu myndi ég halda að við getum opnað völlinn fyrri partinn í maí. En það fer svolítið eftir því hvernig spilast með hitastig, veður og annað slíkt næstu tvær vikur eða svo,“ segir Jóhannes.

Öðruvísi sumar

Framkvæmdastjórinn segir öðruvísi golfsumar framundan á Hamri en undanfarin ár, vegna Covid-19 faraldursins. „Það stefnir auðvitað í litla sem enga umferð erlendra ferðamanna á hótelinu, sem er klúbbhúsið okkar. Þannig að við reiknum með að fylla hótelið af íslenskum kylfingum í sumar. Við erum meira að segja þegar byrjaðir að taka á móti bókunum og búnir að bóka töluvert marga hópa kylfinga, stóra sem smáa,“ segir hann. „Golfklúbburinn er að þessu leyti ákveðin stoð undir rekstur hótelsins sem ég held að komi til með að reynast því dýrmætt í sumar,“ bætir hann við. „Hvað varðar leikinn sjálfan þá er hreyfingin um þessar mundir að fara að gefa út reglur sem verða viðhafðar við golfiðkun fyrstu vikur sumarsins. Þær koma í sjálfu sér ekki til með að hafa mikil áhrif á golfið sem slíkt. Áfram geta fjórir leikið í hverju holli svo lengi sem þeir virða tveggja metra regluna. Þá verða klúbbar að finna lausnir varðandi stangir á flötum, svo kylfingar þurfi ekki að snerta þær þegar þeir sækja boltann ofan í holuna. Við munum leysa það með litlu stykki sem er sett utan á stöngina. Ofan í það getur kylfingurinn stungið kylfu og dregið upp og þá rúllar kúlan upp úr holunni, þannig að maður þarf aldrei að snerta stöngina. Svo verða auðvitað engar hrífur í sandglompunum til að byrja með, menn verða bara að slétta eftir sig með fótum og kylfum,“ segir Jóhannes.

Þurfa að aðlaga sig

Um klúbbhús gilda síðan auðvitað sömu reglur og um hverja aðra veitingastaði. Það er því spurning hvernig verður með stærri viðburði í tengslum við íþróttina í sumar, svo sem mótahald og annað slíkt. „Í sjálfu sér væri ekkert mál að halda stórt mót, 200 manna mót, út frá keppninni sjálfri. En það er annað mál með veitingar á mótinu, verðlaunaafhendingar og annað slíkt þar sem öllum er safnað saman,“ bætir hann við. „En það ætti ekki að vera neitt mál að æfa og spila, því plássið er mikið á völlunum og ekki líkamleg snerting í golfi eins og mörgum öðrum í þróttum. Þannig að kylfingar ættu að geta spilað sitt golf í sumar, við þurfum bara að aðlaga okkur eins og aðrir,“ segir Jóhannes Ármannsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir