
Samið um orkuskipti í Flatey
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, undirrituðu í síðustu viku samning um orkuskipti í Flatey á Breiðafirði. Samningurinn leggur grunninn að nýtingu fjölbreyttra endurnýjanlegra orkugjafa í raforkukerfi eyjarinnar og mun um leið draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis við framleiðslu raforku. Gert er ráð fyrir að með orkuskiptaðgerðunum verði hægt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem nemur 62%. Alls styrkir ráðuneytið verkefnið um 215 milljónir króna, en með því verður greidd leið grænna sveiflukenndra orkugjafa á borð við sólar- og vindorku.