adsendar-greinar Mannlíf
Krakkar í fimmta bekk með bleika hanska tilbúnir í skítadreifingu.

Vistheimtarverkefni í vegkanti

Starfsfólk Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla hafði samband við Landgræðsluna snemma á liðnu ári og óskaði eftir ráðgjöf í skólaverkefni um uppgræðslu vegkants við skólann. Verkefnið er hluti af Grænfánastarfi skólans og var komið að því að kynna sér og reyna vistheimt. Iðunn Hauksdóttir, héraðsfulltrúi Vesturlands hjá Landgræðslunni, brást fljótt við og eftir gott spjall við kennara varð úr að hanna tilraunaverkefni á vegkanti til þess að rannsaka áhrif mismunandi lífræns áburðar á gróðurframvindu. Haft var samband við Rannveigu Magnúsdóttur starfsmann Landverndar sem slóst einnig með í hópinn.

Að sögn Iðunnar varð tilraunin að smækkaðri útgáfu af Vistheimtarverkefni Landverndar og voru það nemendur 5.-9. bekkjar skólans sem unnu að henni. Nemendur og kennarar við skólann sáu sjálfir um að útvega lífræna efnið en það var kúamykja, kindaskítur og moð, hænsnaskítur og hrossatað.

Verkefnið hófst vorið 2020 á kynningu frá Landgræðslunni og Landvernd um mikilvægi jarðvegs og vistheimtar. Síðan var haldið út og nemendur mældu út fimm tilraunareiti með staurum sem þeir höfðu smíðað í skólanum. Gróðurtegundir voru mældar innan allra reita. Eftir það skelltu allir nemendur sér í bleika plasthanska og hófu að þekja tilraunarreiti með lífrænu efni með tilheyrandi þef og drullumalli sem einstaklega gaman var að fylgjast með.

Haustið 2020 mætti héraðsfulltrúi Landgræðslunnar aftur á svæðið og hjálpaði hópnum að taka út gróðurinn í tilraunareitunum. Mikinn mun var að sjá á gróðri innan og utan reita en þess má geta að sauðfé komst í gróðurinn og vildu sumir meina að það hefði haft mesta lyst á kindaskítsreitnum en þetta hefur ekki verið vísindalega sannað.

Nemendur hafa unnið fjölbreytt verkefni út frá tilrauninni, t.d. útbúið rafbók með upplýsingum um verkefnið, teiknað hvernig þau sjá reitinn fyrir sér eftir tíu ár, tínt blóm og jurtir úr reitunum, þurrkað og búið til plöntuhandbók, veitt skordýr í gildrur í hverjum reit og birt niðurstöður í töfluformi.

„Héraðsfulltrúi Vesturlands þakkar kennurum og nemendum, ásamt Landvernd, fyrir skemmtilegt samstarf og hlakkar til að fylgjast með reitunum í framtíðinni,“ í tilkynningu sem Iðunn Hauksdóttir sendi Skessuhorni.

Hér er búið að reita vegkantinn niður og setja í hvern reit mismunandi húsdýraáburð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira