adsendar-greinar Mannlíf
Kjartan Ragnarsson, einn af eigendum Landnámsseturs Íslands, ánægður með nýju húsaskiltin fyrir bæði hús Landnámssetursins. Ljósm. glh.

Viðburðaríkt ár hjá Hollvinasamtökum Borgarness

Hollvinasamtök Borgarness hafa verið með ýmis verkefni á sinni könnu á árinu sem er að líða en markmið samtakanna er að vinna að bættum lífsgæðum í Borgarnesi, bæði hvað varðar umhverfi, framboð menningar og afþreyingar fyrir bæjarbúa og gesti Borgarness. Í samstarfi við þjónustuaðila í Borgarnesi, Elín Elísabetu Einarsdóttur teiknara, Borgarbyggð og Borgarverk ehf. var gefið út nýtt götukort af Borgarnesi. Kortið er nú komið í dreifingu um alla Borgarbyggð og hefur því verið vel tekið. Meðal annarra verkefna í umsjón Hollvinasamtakanna var að koma upp húsaskiltum á elstu hús Borgarness. Í samstarfi við Heiðar Lind Hansson sagnfræðing, Heiði Hörn grafískan hönnuð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Borgarbyggð voru sett upp níu skilti á elstu hún Borgarness. Á skiltunum eru ártöl, hvenær húsin voru byggð, nöfn húsanna, auk götuheita og númers. Ætlunin er að halda þessu verkefni áfram svo að öll hús eldri en 100 ára fái þessi húsaskilti til að varðveita byggingarsögu bæjarins.

Brákarhátíð með breyttu sniði

Bæjarhátíðin í Borgarnesi, Brákarhátíð, kemur ávallt í hlut Hollvinasamtaka Borgarness að skipuleggja ár hvert. Að þessu sinni var ákveðið að halda hátíðina með breyttu sniði með tilliti til heimsfaraldursins. Viðburðum var því dreift yfir sumartímann, frá maímánuði og fram í júlí. Bæjarbúar og gestir gátu sótt fjölbreytta viðburði eins og listasmiðju hjá listakonunni Michelle Bird með sérstöku Brákarþema. Viðburðurinn „Hreinsum Borgarnes“ var haldinn 23. júní í samstarfi við Borgarbyggð þar sem bæjarbúar voru hvattir til að hreinsa í sínu nærumhverfi. Brákardagur fór fram 26. júní og hófst með skemmtihlaupi frá Granastöðum yfir í Brákarey þar sem Kvenfélagskonur buðu hlaupagörpum og öðrum gestum í dögurð. Þriðja júlí var svo haldinn sérstakur Bjargslandsdagur í fyrsta skipti. Þar var Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur með sögugöngu um Bjargsland. Gangan endaði svo á Bjargi þar sem húsráðendur á Bjargi buðu í kaffi og vöfflur. Spennandi verkefni eru á döfinni hjá Hollvinasamtökum Borgarness en þar ber hæst að nefna Frisbígolfvöll í Borgarnesi og uppsetningu á upplýsingaskilti í Borgarnesi ásamt því að skipuleggja Brákarhátíð 2022.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira