adsendar-greinar Mannlíf
Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir (t.h.) og Ísold Wilberg Antonsdóttir (t.v.) syngja á fyrra undankvöldi Söngkeppni sjónvarpsins næstkomandi laugardag. Ljósm. Baldur Kristjánsson.

„Við ætlum að fara alla leið“

Eins og allir Júróvisjónaðdáendur landsins vita er fyrra undankvöldið í Söngkeppni sjónvarpsins framundan næsta laugardag. Þar munu fimm lög berjast um hylli þjóðarinnar. Þeirra á meðal er lagið Klukkan tifar, en flytjendur þess eru hin vestlenska Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir og Ísold Wilberg Antonsdóttir. Skessuhorn hitti þær Helgu og Ísold á mánudag og ræddi við þær um lagið, keppnina og skrefin sem hafa verið stigin til þessa.

Orðnar góðar vinkonur

Helga Ingibjörg ólst upp í Saurbæ í Dölum til 13 ára aldurs en flutti þá á Akranes þar sem hún hefur búið síðan. Hún sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd FVA árið 2006 en kveðst hafa lítið sungið opinberlega síðan þá, þar til fyrir um tveimur árum. Ísold er Reykvíkingur, lærði söng í FÍH og hefur starfað sem söngkona með öðru um nokkurra ára skeið. Vel að merkja var hún í rokkhljómsveitinni Rökkum með gömlum skólafélaga Helgu úr Dölunum, söng í brúðkaupi sama manns sem var einmitt haldið í Tjarnarlundi, þar sem Helga gekk í skóla fyrstu ár grunnskólagöngunnar. Ákveðnir þræðir hafa því ef til vill legið á milli þeirra í gegnum kosmósinn, en þær þekktust hins vegar ekkert áður en Júróvisjónævintýrið hófst. „Við hittumst bara í fyrsta sinn þegar við byrjuðum að æfa lagið,“ segir Helga og brosir. „Ég held að það hafi verið kostur,“ bætir hún við og heldur áfram: „Við komum ekki með neinn farangur inn í þetta samstarf. Við gátum bara byrjað með hreint borð og lögðum línurnar strax í upphafi hvernig við ætluðum að hafa þetta. Strax ákváðum við að við myndum alltaf vera hreinskilnar og við segjum allt sem okkur finnst. Ef við erum ósammála um eitthvað í atriðinu þá er það sagt,“ segir Helga og Ísold tekur undir með henni. „Fyrir vikið náum við að styðja vel við bakið á hvorri annarri og pössum vel upp á hvora aðra. Þetta snýst ekki lengur bara um lagið,“ segir Ísold og Helga samsinnir því. „Mér finnst þetta hafa verið dýrmæt reynsla og þó ekkert annað gerist en að ég labbi út úr þessu með góða vinkonu þá verð ég mjög þakklát fyrir það,“ segir Helga.

Markmiðið skýrt

En þó þær verði báðar ánægðar með vinskapinn eftir keppnina er ekki þar með sagt að þær ætli sér ekki stóra hluti. Þær búa yfir miklu keppnisskapi og markmiðið er skýrt. „Við ætlum að fara alla leið. Við byrjuðum á að setja okkur það markmið að komast á úrslitakvöldið. Þar viljum við að sjálfsögðu sigra og komast út í lokakeppnina í Hollandi,“ segja þær, en þó kappið sé mikið segja þær alveg ljóst að það verði ekki auðvelt. „Það eru mörg flott atriði í keppninni í ár. Ég myndi segja að þetta sé einhver sterkasta forkeppni sem ég man eftir, í fljótu bragði allavega,“ segir Ísold.

Sem fyrr segir keppa fimm lög um hylli áheyrenda á hvoru undankvöldi keppninnar um sig. Helga og Ísold syngja næstkomandi laugardag, 8. febrúar. Auk þeirra tveggja laga sem komast áfram á hvoru undankvöldi verður eitt atriði valið úr hópi þeirra sex sem eftir sitja til að taka þátt í úrslitakvöldinu 29. febrúar. Sigurvegarinn þar tryggir sér síðan farseðilinn í lokakeppnina í Hollandi í maí.

Tónlistin hreyfir við fólki

Lagið Klukkan tifar er eftir Birgi Stein Stefánsson og Ragnar Má Jónsson og Stefán Hilmarsson samdi íslenskan texta þess. Upp á enska tungu nefnist lagið Meet me Halfway og höfundur ensks texta eru þeir Birgir, Ragnar og Stefán. Söngkonurnar segja báðar útgáfurnar mjög góðar. „Íslenski textinn fjallar um að þakka fyrir það liðna en dvelja ekki of lengi í því, heldur lifa í núinu,“ segir Helga. „Enski textinn er mun rómantískari og fjallar meira um ástina,“ segir Ísold.

Íslenska útgáfan hefur meira verið spiluð á öldum ljósvakans í aðdraganda fyrra undankvöldsins. Helga segir að viðbrögðin við laginu hafi verið afar góð og athyglisvert að heyra á hve ólíkan hátt fólk tengi við lagið. „Ég túlka íslensku útgáfuna allt öðruvísi en Ísold og hún gerir það öðruvísi en fólk úti í bæ,“ segir hún og þær eru ánægðar með það. „Þetta snýst um að hreyfa við fólki. Það er nú ástæðan fyrir því að maður er í tónlist,“ segir Ísold. „Tónlist er sér tungumál og oft þarf fólk bara að heyra lag eða texta til að losni aðeins um tilfinningar þess og það fari að takast á við þær,“ bætir hún við.

Trúar sjálfum sér

Aðspurðar segja þær að ferlið sjálft hafi verið í senn lærdómsríkt og skemmtilegt. Hlutirnir hafi farið rólega af stað síðastliðið haust en síðan hafi allt farið á fullan snúning í janúar. Mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því æfingar hófust og að þær hafi þroskast mikið í ferlinu, en á ólíkan hátt þó. Þær hafa kynnst hvorri annarri vel og eru orðnar góðar vinkonur í dag, en lífið er ekki alltaf dans á rósum. Helga er að ganga í gegnum erfiða hluti um þessar mundir og segir að það hafi tekið sinn toll. Að taka þátt í þessu ferli og njóta stuðnings góðrar vinkonu þar hafi þó hjálpað henni að takast á við erfiðar tilfinningar. „Þess vegna kannski höfðar íslenska útgáfa lagsins svona mikið til mín, ég tengi hana rosalega mikið við allt sem ég er að ganga í gegnum. Ég brotnaði alveg niður á æfingu um daginn en þá var Ísold þar til að grípa mig og styðja við bakið á mér eins og klettur. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir Helga. „Ég held að fólk geti séð að við höfum báðar þroskast í gegnum þetta ferli og þetta lag, það hefur öðlast sér stað í hjarta okkar beggja þó við höfum ekki samið það og þó það sé með ólíkum hætti hjá hvorri okkar,“ segir Ísold. „Það mun skila sér til áheyrenda, þeir munu heyra að það er heilmikið á bakvið þetta hjá okkur og þetta skiptir okkur máli. Það er líka það sem við viljum gera, því svo lengi sem við erum trúar okkur sjálfum munum við alltaf ganga sáttar frá þessu,“ segja þær Helga og Ísold að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira