adsendar-greinar Mannlíf
Ingibjörg Valdimarsdóttir og Dýrfinna Torfadóttir sitja nú í stjórn Atvinnurekendadeildar Félags kvenna í atvinnulífinu. Ljósm. arg

Vestlendingar í stjórn Atvinnurekendadeildar Félags kvenna í atvinnulífinu

Ný stjórn Atvinnurekendadeildar Félags kvenna í atvinnulífinu, AFKA, tók til starfa á aðalfundi deildarinnar fyrr í mánuðinum. Í nýrri stjórn sitja tvær konur í atvinnurekstri á Vesturlandi, þær Dýrfinna Torfadóttir, gullsmiður og skartgripahönnuður, og Ingibjörg Valdimarsdóttir, eigandi Ritara og Stay West. Auk þess er Margrét Rósa Einarsdóttir á Hótel Glym og Englendingavík í varastjórn deildarinnar.

AFKA er deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu en það er félag fyrir allar konur á vinnumarkaði hér á landi. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Dýrfinnu og Ingibjörgu og ræddi við þær um starfsemi FKA og Atvinnurekendadeildarinnar. „FKA er félag sem allar konur í atvinnulífinu geta gengið í en innan félagsins eru deildir sem þær geta skráð sig í eftir því sem við á. Við erum með svæðisdeildir fyrir konur af landsbyggðinni og svo erum við með deildir fyrir konur í atvinnurekstri, yngri konur sem vilja ná langt og fyrir konur með mikla stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu,“ útskýrir Ingibjörg og bætir við að Atvinnurekendadeild er ætluð konum af öllu landinu sem eru í fyrirtækjarekstri og eiga að lágmarki 50% í sínu fyrirtæki. Tilgangur deildarinnar er að skapa vettvang fyrir konur í rekstri fyrirtækja að vinna saman, efla hver aðra og mynda gott tengslanet óháð því hversu stór þeirra fyrirtæki eru. „Þetta er góður vettvangur til að skapa tengslanet og kynnast öðrum konum í rekstri fyrirtækja og jafnvel eiga viðskipti við þær,“ segir Dýrfinna.

Vinna saman

Meðlimum FKA er boðið upp á reglulega morgunverðafundi, fræðslufundi og aðra viðburði bæði til að kynna sína starfsemi og til að komast í samband við aðrar konur í atvinnulífinu. „Atvinnurekendadeildin hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni kvenna í atvinnurekstri en það hefur hallað á konur í rekstri í samfélaginu en með því að vinna meira saman getum við rétt úr þessum halla,“ segir Ingibjörg og Dýrfinna tekur undir það. Innan nýju stjórnarinnar er fjölbreyttur hópur kvenna af ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þar eru konur sem selja bílavarahluti, vinna kollagen, hanna skartgripi, starfa innan ferðaþjónustunnar, reka barnafataverslun og fleira. „Konur eru ekki alltaf nógu ákveðnar að sækja fram og svona félagsskapur getur styrkt þær í því,“ segir Dýrfinna.

Voru fyrst lítið virkar í félaginu

Spurðar hvernig það vildi til að þær sitji nú í stjórn félagsins brosa þær og svara að það sé í raun tilviljun. Ingibjörg var lítið virk innan félagsins þar til árið 2019 þegar Atvinnurekendadeildin fór í árlega vorferð og ferðinni var heitið á Vesturland. Hún var beðin um að taka móti hópnum og kynna sína starfsemi. „Þær komu fyrst hingað á Akranes og ég kynnti fyrir þeim það sem ég er að gera en svo ákvað ég bara að fara upp í rútu og fara með þeim út á Snæfellsnes,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi aðeins þekkt eina konu í ferðinni þegar hún ákvað að fara með hópnum. „Það var meira að segja svo að ég var að fara að gista á hóteli í herbergi með konu sem ég vissi ekkert hver var,“ segir hún og hlær. Ferðina segir hún hafa kveikt áhuga á að vera meira virk í félaginu. „Þarna kom ég inn, alveg ný og þekkti enga konu þarna og þær bara tóku allar utan um mig og buðu mig velkomna. Ég varð strax bara partur af hópnum. Þetta er alveg þannig hópur, þar sem við leggjum áherslu á að styðja hver aðra,“ segir Ingibjörg.

Bætum hver aðra upp

Það var svo Ingibjörg sem hafði samband við Dýrfinnu og fékk hana með sér í stjórn deildarinnar. Dýrfinna hafði verið skráð í FKA í nokkurn tíma og farið stundum á morgunverðafundi og slíkt en ekki verið mjög virk innan félagsins. „Það hitti bara vel á hjá mér á þessum tíma í lífinu. Ég hef verið í eigin rekstri í fjóra áratugi núna og lært margt. Ég var bara komin á þann stað að ég vildi fara að hjálpa öðrum og gefa meira af mér og fannst þetta góð leið til þess,“ segir Dýrfinna. Þá segist hún sjálf hafa fundið það snemma hversu mikilvægt það sé að mynda gott tengslanet og nýta þau tengsl sem maður hefur. „Ég leitaði einmitt til Ingibjargar þegar mig vantaði aðstoð með samfélagsmiðla, að læra hvernig ég gæti notað Facebook og slíkt. Ingibjörg hjálpaði mér af stað og kenndi mér að nota miðlana sjálf. Við eigum að nýta okkur þau tengsl sem við höfum, við nefnilega bætum hver aðra upp.“ segir Dýrfinna og brosir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira