adsendar-greinar Tækni og vísindi
Ólafur Ingi Ásgeirsson og Sigurður Grétar Gunnarsson hanna og smíða falleg sófaborð. Ljósm. arg

Ungir frumkvöðlar hanna og smíða sófaborð

Vinirnir Sigurður Grétar Gunnarsson og Ólafur Ingi Ásgeirsson hafa verið að hanna og smíða smekkleg sófaborð. Þeir hafa báðir alist upp á Akranesi og verið miklir vinir eins lengi og þeir muna eftir sér. Sigurður Grétar lauk námi í vélvirkjun fyrir tveimur árum og hefur síðastliðið ár unnið hjá Skaganum 3X. Ólafur útskrifaðist úr vélvirkjun í lok síðasta mánaðar og hefur verið að vinna hjá Norðuráli og hjá afa sínum í Vélsmiðju Ólafs R Guðjónssonar á Akranesi.

Byrjaði sem jólagjafir

Aðspurðir segja þeir hugmyndin að borðunum hafa kviknað snemma síðasta haust. „Við vorum eitthvað að sansa hér á verkstæðinu hjá afa og þá bara fæddist þessi hugmynd,“ segir Ólafur. „Við höfðum aldrei séð þessa útfærslu af Íslandshlutum. Það hefur margt verið gert með Ísland, Íslandsklukkur og allskonar fleira, en ekkert svona borð,“ bætir Sigurður Grétar við. Þeir byrjuðu á að smíða fjögur borð til að gefa í jólagjafir. „Þetta spurðist svo út að við hefðum gert þessi borð og margir vildu vita hvort við gætum gert fleiri. Þannig eiginlega byrjaði þetta,“ segja þeir. „Við ákváðum að smíða nokkur til viðbótar og koma okkur upp smá lager og nú erum við að byrja að koma okkur almennilega á framfæri,“ segir Ólafur.

Hraunfoss hönnun

Þeir félagarnir smíða borðin úr járni og eru bæði með borð þar sem borðplatan sjálf er eins og Ísland í laginu og ofan á hana kemur glerplata og hefðbundnari borð sem ekki eru skorin út í laginu eins og Ísland. „Við höfum líka verið að gera fatahengi úr rörum sem við sérsmíðum fyrir hvern og einn,“ bætir Sigurður Grétar við. En er þetta það sem þeir stefna á að gera að atvinnu? „Við ætlum aðeins að sjá til með það,“ svara þeir. „Við viljum sjá hvernig þetta þróast áður en við förum að gera eitthvað alvöru í kringum þessa hugmynd,“ bæta þeir við. Þeir eru búnir að stofna Instagram síðu fyrir borðin og ætla aðeins að byrja að auglýsa á samfélagsmiðlum og sjá hvernig áhugi fólks er. „Við höfum fengið Gyðu Kolbrúnu Hallgrímsdóttur til að hjálpa okkur og sjá um samfélagsmiðlana,“ segir þeir. Til að hafa samband við strákana er hægt að senda þeim tölvupóst á netfangið hraunfoss.honnun@gmail.com og einnig er hægt finna þá á Instagram undir nafninu Hraunfoss.honnun.

Hægt er að fá borð þar sem borðplatan er eins og Ísland í laginu og svo er sett glerplata yfir. Ljósm. gbh.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira