adsendar-greinar Mannlíf
Bjarni Stefán Konráðsson með fyrri sex bækurnar. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Tólf ljóðabækur með nafni sem síðar kemur í ljós

Bókaútgáfan Hólar hefur ákveðið að ráðast í útgáfu á tólf ljóðabókum eftir Bjarna Stefán Konráðsson frá Frostastöðum í Skagafirði. Bjarni segir í samtali við Skessuhorn að bækurnar komi út í tvennu lagi, sex í hvort sinn. „Sex fyrri bækurnar eru komnar út en hinar koma út á næsta ári. Þær heita allar einu orði sem í eru tólf stafir. Því er einn bókstafur á forsíðu og kili hverrar bókar. Hvað allar bækurnar heita kemur ekki í ljós fyrr en þeim hefur öllum tólf verið raðað í rétta röð. Þetta er því eins konar stafarugl og orðaleikur í leiðinni,“ segir hann.

„Ástæða þessa er að mér datt einfaldlega ekki í hug annað heiti yfir bækurnar, en þetta eina orð. En svo vel vill til að bækurnar eru jafnmargar og grunntónar í tónlist, eða tólf talsins. Og tónlist skipar stóran sess í útgáfunni, vegna þess að tvær bókanna eru textar/ljóð sem samin hafa verið við lög hinna ýmsu tónskálda.“

Þar með er ekki öll sagan sögð. „Mörg tónskáld sjá fyrir sér liti þegar þau heyra ákveðna tóna. Rússneska tónskáldið Alexander Scriabin hefur gengið hvað lengst í þessum fræðum. Því var ákveðið að hafa bækurnar í þeim litum sem hann sér fyrir sér fyrir hvern grunntón. Hann raðar tónunum upp eins og vísum á klukku og gefur hverri „klukkustund“ sinn lit. Fyrstu sex bækurnar bera því sama lit og sex fyrstu „klukkustundirnar“ á „tónalitaklukku“ hans. Hver bók er 48 blaðsíður að lengd. Tvær bókanna innihalda vísur/stökur, ein inniheldur hefðbundin ljóð og sú fjórða óhefðbundin ljóð. Að lokum eru tvær bækur með 31 ljóði við jafnmörg lög sem hinir ýmsu flytjendur hafa gefið út á diskum undanfarin 20-25 ár.“

Bjarni Stefán segir að með bókapakkanum fylgi aðgangur að öllum þessum lögum í gegnum tölvu. „Kaupendur gefa einfaldlega upp netfang sitt og fá þá aðgang að möppu á netinu sem í er þetta 31 lag. Flytjendur eru m.a. Skagfirska söngsveitin í Reykjavík, Álftagerðisbræður, Léttsveit Reykjavíkur, Óskar Pétursson, Björgvin Halldórsson og Bergþór Pálsson. Fyrri pakkinn, sem inniheldur sex bækur, eins og fyrr var getið, kostar 7.500 krónur, auk sendingarkostnaðar ef um það er að ræða. Annars mun ég reyna að koma bókunum til fólks ef nokkur kostur er. Bókin verður ekki til sölu í búðum eins og staðan er núna að minnsta kosti,“ segir höfundurinn og bendir á að hægt er að panta bækurnar í gegnum netfangið; bas@mh.is

Ingunn Snædal og Ragnar Ingi Aðalsteinsson veittu höfundi ómetanleg ráð við útgáfuna og kann Bjarni Stefán þeim mínar bestu þakkir fyrir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir