Fréttir

Samþykkti uppsetningu búnaðar til veðurmælinga vegna vindorkuvera

Á afgreiðslufundi byggingafulltrúa Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag voru teknar til afgreiðslu og samþykktar umsóknir frá fyrirtækinu Norconsult ehf. um byggingarleyfi fyrir mælibúnað á tveimur jörðum í Borgarfirði. Annars vegar á Þorvaldsstöðum í Hvítársíðu og hins vegar á Hæl í Flókadal. Sótt var um leyfi fyrir uppsetningu á mælibúnaði til veður- og vindmælinga. Ekki kemur nánar fram í bókun byggingafulltrúa um hvernig búnað er um að ræða né hversu hátt hann mun rísa. „Búnaðurinn verður í notkun í eitt ár og verður fjarlægður að þeim tíma loknum,“ segir í bókun byggingafulltrúa. Fram kemur í umsóknum fyrirtækisins að fyrir liggur samþykki landeiganda beggja þessara jarða.

Samþykkti uppsetningu búnaðar til veðurmælinga vegna vindorkuvera - Skessuhorn