adsendar-greinar Mannlíf
Hér er verið að reka hrossin áleiðis til byggða laugardagskvöldið 15. janúar. Drónamynd/ Ronaldo Diaz.

Þrjú hross stukku til fjalla

Líklega hefur það verið á gamlárskvöld sem styggð komst að þremur hrossum af 23 í stóði í umsjón Einars Ólafssonar hrossabónda í Söðulsholti í Eyja- og Miklaholtshreppi. „Ég taldi í hópnum í lok árs og þá voru hrossin öll. Fljótlega á nýju ári kom í ljós að þrjú vantaði í hópinn og hófum við strax eftirgrennslan,“ segir Einar í samtali við Skessuhorn. „Í fyrstu fundum við þau ekki þrátt fyrir talsverða leit. Leituðum m.a. inn Núpárdalinn og upp í Núpaskarð en fundum ekki. Þá var farið að leita með dróna og sjónaukum og sást til hrossanna þar sem þau voru komin langleiðina upp á topp á fjallsstrýtuna Skyrtunnu sem er ríflega 900 metra hátt fjall hér inni á miðjum fjallgarðinum. Þar voru hrossin búin að koma sér í sjálfheldu í um 800 metra hæð.“

Einar fékk til liðs við sig vaskan hóp fólks, meðal annarra vana fjallabjörgunarmenn úr Björgunarfélagi Akraness og Atla bónda í Dalsmynni. Héldu þeir áleiðis að fjallinu á þremur sexhjólum og fjórhjóli í birtingu mánudaginn 10. janúar. Veður var slæmt, en ekið eftir GPS staðsetningartækjum. Á fjallið fóru fjallabjörgunarmennirnir búnir mannbroddum, böndum og öðrum búnaði til fjallaklifurs. Færðin á fjallinu var erfið; klakabunkar og harðfenni og skyggni auk þess lítið. Mannskapurinn fann þó hrossin og tókst að koma múl á tvö þeirra áður en haldið var í humátt niður snarbratta hlíðina. Heimferðin gekk þó ekki áfallalaust. Á einum stað runnu bæði hross og menn niður ísilagða brekkuna, um þrjátíu metra. Enginn slasaðist en annað mýlda hrossið slapp og stökk ásamt því lausa frá mönnum. Var ákveðið að skilja þau eftir. Þannig tókst að endingu að koma einu hrossanna til byggða í þessum áfanga. Ferðin tók um átta tíma og komið heim að Söðulsholti í myrkri.

Dagana á eftir var veður ófært til leitar, látlaus lægðagangur. Enn voru tvö hross í fjallinu og þegar smá glenna kom fimm dögum síðar fór hópur fólks til leitar. Meðal björgunarsveitarmanna var Ronaldo Diaz, þaulvanur björgunarsveitarmaður frá Bifröst og hafði hann dróna með í för. Eftir umfangsmikla leit á Skyrtunnu og í Núpárdal laugardaginn 15. janúar fundust hrossin loks og tókst að reka þau í aðhald á Dalsmynni og þaðan í Söðulsholt. Nokkuð var af hrossunum dregið eftir flakkið og hagleysið en þau eru nú að sögn Einars óðum að braggast. Þurftu að byrja hægt að nærast og þá voru þau hreyfð reglulega í reiðhöllinni til að koma meltingunni sem fyrst í gang.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira