adsendar-greinar Tækni og vísindi

Þótti brúna tunnan ekki heillandi og fann aðra lausn

Það fjölgar sífellt sveitarfélögunum sem taka upp brúnu tunnuna sem fólk setur í allan lífrænan úrgang frá heimilum. Einar Harðarson býr á Flúðum þar sem brúna tunnan er notuð. Honum fannst tunnan ekki góð lausn því þangað safnast mýsnar að sækja sér mat og svo þegar úrgangurinn brotnar niður fyllist tunnan af möðkum. „Það þrífur enginn þessa tunnu nema þú sjálfur og mér fannst það satt að segja ekki spennandi verkefni,“ segir Einar þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið. Hann vildi finna hentugri lausn en tunnuna og ákvað að urða lífræna úrganginn frá sínu heimili sjálfur í eigin garði. Hann gróf rúmlega meters djúpa holu sem er um 40 sentimetrar að innanmáli, þar sem hann setti allt lífrænt sem féll til. Hann útbjó stromp til að nota sem lok á holunni en skildi eftir einn slíkan stromp í Kaupfélagi Borgfirðinga fyrir áhugasama að skoða. „Strompurinn er nú bara fyrir lúkkið, bara lok á holunni,“ útskýrir Einar.

Með því að urða lífrænan úrgang í eigin garði getur það sparað peninga og minnkað mengun því ekki þarf sorpbíla til að tæma brúnu tunnuna. „Að keyra með tveggja vikna millibili á stórum og þungum bílum til að tæma tunnur um allar sveitir skilur eftir sig stórt kolefnisspor, allavega töluvert stærra kolefnisspor en urðun í eigin görðum gerir. Ég var um tvö ár að fylla holuna mína,“ svarar Einar spurður hversu mikið holan hans getur tekið við. „Þegar holurnar fyllast er þeim lokað með grasþöku og ný hola gerð og strompurinn færður yfir hana.“ Aðspurður segist hann hafa gert holuna með staurabor á gröfu en að það sé þó ekki nauðsynlegt. „Þú getur bara mokað þína holu eins og þú vilt, þetta snýst bara um að grafa holu, setja allt lífrænt í hana og þar brotnar það niður á umhverfisvænan hátt. Svo skemmir ekki hversu góður áburður þetta er fyrir gróðurinn. Rætur trjánna fara þangað sem næringin er og þarna gætu þær fundið góða næringu,“ segir Einar.

En hvernig datt honum þessi lausn í hug. „Hér á Flúðum er reynslan af brúnu tunninni sú að hún verður ógeðsleg og mig langaði bara ekkert að nota hana. Ég er þannig gerður að ef ég sé vandamál reyni ég að leysa þau og þannig datt mér þetta í hug. Hugsunin var að finna lausn sem væri einföld fyrir svona letingja,“ segir Einar og hlær. „Þarna þarf bara rétt aðeins að moka holu og svo er úrgangurinn þarna í jörðinni til frambúðar og nærir gróðurinn,“ segir hann.

Áhugasamir um strompinn geta haft samband við Einar fyrir frekari upplýsingar í síma 893-1454 eða á netfangið ehardar@icloud.com

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira