adsendar-greinar Mannlíf

Tattoo blót í Langaholti um hvítasunnuhelgina

Um Hvítasunnuhelgina, 21. til 24. maí verður haldin Vorhátíð í Langaholti á Snæfellsnesi. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir gesti en grunnstefið í hátíðinni er húðflúr og piercing enda er undirtitill hátíðarinnar Tattoo blót Langaholti. Þá verða einnig margskonar tónlistaratriði á dagskránni. Að sögn Fjölnis Geirs Bragasonar, eða Fjölnis Tattoo eins og hann er oftast kallaður, koma fjölmargir listamenn að hátíðinni en jafnframt segir Fjölnir að hátíðin verði sú fyrsta þar sem allt helsta tattoo listafólkið er konur. Listakonurnar sem verða á hátíðinni eru eftirtaldar; húðflúrarnir Habba Nero eða Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Auður Ýr og Hrefna María og auk þeirra Diljá Sigurðardóttir, piercer. Þá verður Sigurboði Grétarsson húðflúrari einnig á staðnum auk þess að flytja tónlist. Sigurboða er ýmislegt til lista lagt, hann er kunnur myndlistarmaður en nýbyrjaður að húðflúra. Þá mun tónlistarmaður Gareth Fig einnig flytja tónlist á hátíðinni. Erpur Eyvindarson gæti mögulega látið sjá sig en það er þó ekki orðið alveg öruggt enn sem komið er.

Bindi rúnin sem sést á merki viðburðarins á meðfylgjandi mynd er rún hátíðarinnar og er hún hönnuð af téðri Hrafnhildi Guðjóns, Habba Nero. Hún er einmitt unnusta Sigurboða títtnefnds. Fjölnir segir að rúnin verði svo að sjálfsögðu á boðstólum til flúrs í húðir hátíðagesta á afar sanngjörnu verði.

Fjölnir hefur haldið samskonar hátíð í Færeyjum um tíu ára skeið en þó þurft að aflýsa henni síðastliðin tvö ár vegna faraldursins. Í Færeyjum hefur hátíðin verið með alþjóðlegu sniði og tattoo listamenn komið víða að úr heiminum. Það sé þó snúið að koma því við hér á landi þar sem listamennirnir þyrftu að fara í lögbundna sóttkví ætluðu þeir að koma hingað.

Fjölnir reiknar með nokkrum fjölda mótorhjólafólks á hátíðina. Á laugardag og sunnudag verður tveggja klukkustunda hópkeyrsla bifhjólafólks þar sem ekið verður um Snæfellsnesið fagra. Farið verður frá Langaholti klukkan tvö báða dagana og endar ferðin í Langaholti.

Hátíðin komin til að vera

Að sögn Fjölnis er hátíðin komin til þess að vera um ókomin ár. Hann hefur áður staðið fyrir húðflúrviðburðum á Íslandi. Á Eistnaflugi í Neskaupstað hefur fólkið í bænum og sveitunum í kring óspart nýtt sér það þegar frábærir húðflúrlistamenn hafa mætt á hátíðina enda tækifæri sem býðst ekki á hverju degi. Telur Fjölnir líklegt að þegar fram líða stundir muni stærstur hluti fólks, bænda og búaliðs, í nærliggjandi sveitum við Langaholt vera orðnir húðflúraður.

Fyrir nokkrum árum urðu staðarhaldarar í Langaholti fyrir því að þak fauk af fjárhúsunum. Keli vert og fjölskylda byggði gripahúsin og hlöðuna upp eftir foktjónið þannig að nú er þar mjög vistleg aðstaða þar sem starfsfólk Langaholts gistir jafnan þegar Covid herjar ekki á heimsbyggðina þannig að flúrarnir verða starfandi í mjög vistlegum aðstæðum. Hver flúrari hefur sitt eigið herbergi. Fjölnir tók sérstaklega fram að allur búnaður og aðstaða eru þrifin og sótthreinsuð á milli viðskiptavina og að aðstaðan uppfylli öll skilyrði sem heilbrigðisyfirvöld setja slíkri starfsemi.

Fyrir utan það að njóta dagskrárinnar er ýmislegt í boði fyrir gesti. Sundlaugin að Lýsuhóli verður opin alla helgina en þangað er aðeins um átta mínútna akstur frá Langaholti. Golfvöllurinn verður opinn og er gestum velkomið að taka hring. Að sögn Fjölnis er ætlunin að golfmót verði haldið á vellinum samhliða hátíðinni í framtíðinni.

Blót á ströndinni

Við hótel Langaholt er strönd. „Ströndin skiptir litum eftir árstíðum og hvernig stendur á flóði og fjöru. Hún er allt frá því að vera hvít eða gullin að því að vera kolsvört,“ segir Fjölnir og bætir við að ströndin sé stórkostlegt náttúrufyrirbrigði. „Ég kalla helgina svart-hvítasunnu útaf svart hvítu ströndinni.“

Á sunnudagskvöld verður haldið blót á ströndinni neðan við Langaholt. „Blótshaldarinn á sunnudagskvöldið er hinn margslungni snillingur Sigurboði sjálfur,“ segir Fjölnir. Fjölnir var sjálfur Suðurlandsgoði um árabil og stefnir aftur á að verða goði. Hann segir það vera ferli sem tekur um tvö ár. Vonast aðstandendur hátíðarinnar til þess að Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði sjái sér fært að mæta á blótið en það var ekki orðið ljóst þegar blaðið fór í prentun.

Gestum hátíðarinnar býðst gisting á Hótel Langaholti. Hótelið býður upp á þrjár nætur á verði tveggja. Auk þess verða í boði svæði fyrir tjöld, vagna og hjólhýsi. Að sögn Fjölnis eru enn laus herbergi yfir hátíðarhelgina. Fjölnir segir bókunarstöðuna vera góða en þó eru enn einhver herbergi laus. Veitingastaðurinn Langaholt verður einnig opinn alla helgina en hann hefur getið sér gott orð og vakið mikla athygli fyrir frábæran mat.

Fjölnir segist vonast til þess að afléttingaráætlun stjórnvalda gangi eftir en í henni er reiknað með að síðari hluta maí verði fjöldatakmarkanir komnar í 100 til 1000 manns en þó fjöldatakmörk verði enn innan við 100 manns taki hátíðin mið af því.

Fjölnir hvetur áhugasamt fólk til þess að kynna sér sumarhátíðina á Facebook síðu hennar og Instagram síðu.

 

Fjölnir Tattoo, einn af aðstandendum Vorhátíðarinnar.

„Svarthvíta“ ströndin við Langaholt.

Mótorhjól í Langaholti.

Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Habba Nero húðflúrari.

Frá golfvellinum við Langaholt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir