
Annir í löggæslu
Það hefur verið í mörg horn að líta hjá lögreglumönnum hjá embætti Lögreglunnar á Vesturlandi undanfarna viku og má rekja hluta þeirra verkefna til fjölmennra samkoma. Um 60 ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu fyrir of hraðan akstur og að auki voru 350 ökumenn myndaðir af myndavélarbíl embættisins og eiga þeir von á sekt. Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja, en ellefu að auki vegna aksturs undir áhrifum áfengis. Fjórir voru staðnir að því að tala í farsíma við akstur án þess að notast við handfrjálsan búnað. Loks voru þrír ökumenn stöðvaðir sem reyndust vera án ökuréttinda.