adsendar-greinar Mannlíf
Ný stjórn foreldrasamtakanna AK-HVA. Ljósm. arg.

Stofnfundar svæðissamtaka foreldra grunnskólabarna

Síðastliðið þriðjudagskvöld var haldinn stofnfundar svæðissamtaka foreldra grunnskólabarna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. „Vinnuheiti á nýju félagi er AK-HVA foreldrasamtökin. Það voru stjórnir foreldrafélaga grunnskólanna þriggja á svæðinu sem stóðu að stofnun þessara samtaka með stuðningi Heimilis og skóla. Hugmynd um stofnun félagsins kom upp á fulltrúafundi í stjórn Heimilis og skóla. Leitað var viðbragða skólastjórnenda sem tóku vel í að styðja við stofnun félagsins. Tilgangurinn með því að stofna AK-HVA er að búa til vettvang fyrir foreldrasamtal á svæðinu. Samtökin munu styðja við það foreldrastarf sem fyrir er í skólunum og standa fyrir ýmis konar fræðslu fyrir okkur foreldra um forvarnir, menntun, eineltismál og fleira,“ segir Tinna Steindórsdóttir á Akranesi í samtali við Skessuhorn.

Hluti af sama samfélagi

Tinna segir að foreldrasamtök í grunnskólunum þremur séu misjafnlega virk. „Á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit eru þrír grunnskólar. Þar eru foreldrafélögin misvirk, ýmist foreldrafélög fyrir allt skólastigið eða árgangafélög. Okkar markmið er að fá foreldra og starfandi félög þeirra til liðs við okkur og efla almennt foreldrastarf. Það getur snúið að fræðslu vegna til dæmis forvarna, upplýsinga um hvernig má greina merki um ný og hættuleg fíkniefni, eineltismál og fjölmargt fleira. Þá getur félagið verið tengiliður milli foreldra og skóla. Markmiðið hlýtur því að vera að að búa til öflugt tengslanet foreldra, bæði innan skólanna þriggja, en einnig brúa bilið á milli þeirra þar sem krakkarnir okkar tilheyra allir sama samfélaginu og munu flestir fara í sama framhaldsskóla að grunnskólagöngu lokinni,“ segir Tinna.

Heimilin mega ekki vera eyja í samfélaginu

Tinna segir að rannsóknir sýni að foreldraþátttaka skipti sköpum þegar kemur að forvörnum, þ.e. að foreldrar þekki ekki bara vini barna sinna, heldur foreldra þeirra einnig. „Á ensku er talað um að það þurfi allt þorpið til þess að ala upp barn. Við höfum heimili, skóla og samfélag og það er hlutverk okkar foreldranna ekki síður en skólanna að brúa bilið milli skóla og heimilis, en um leið samfélagsins sem við búum í. Stundum finnst mér heimilin svolítið eins eyjur í samfélaginu. Við einbeitum okkur að okkar eigin börnum eins og eðlilegt er, en gefum okkur ekki endilega tíma til þess að vinna að velferð og umhverfi allra barna í samfélaginu. Staðreyndin er hins vegar sú að börnin okkar eru hluti af þessu samfélagi eins og við og það hlýtur að vera allra hagur að við þau fullorðnu leggjum okkar af mörkum til þess að gera þetta samfélag eins öruggt og eflandi og við getum og það er hægt að gera á svo margan hátt, t.d. með því að leggja sig eftir að kynnast öðrum foreldrum eða taka þátt í að virða bekkjarsáttmála og svo framvegis. Mitt mat er að hér á svæðinu séu kjöraðstæður til að byggja upp öflugt foreldrastarf og nýju félagi er ætlað að efla tengslin milli okkar foreldranna svo við getum haldið saman utan um krakkana okkar. Við þurfum að þekkjast og félagið verður vettvangur til að kynnast, miðla reynslu og tala okkur saman.“

Komin með alheiminn í vasann

Tinna segir í rauninni sorglegt nú á tímum mikillar tölvu- og símanotkunar, hvað fólk talar lítið saman. „Við erum komin með hundrað nýjar aðferðir til þess að tengjast og tala saman en samt er einhvern veginn mun erfiðara að ná til fólks. Þegar ég var að alast upp kom internetið ekki fyrr en eftir að ég varð unglingur. Þá þekktust foreldrar okkar krakkanna og allir vissu dálítið um alla svo það veitti manni ákveðið öryggi og aðhald. Í dag eru börnin okkar komin með „alheiminn í vasann“ áður en þau fá fullorðinstennur og eru bara að alast upp í gjörólíkum heimi. Börnin okkar búa eiginlega í tveimur ólíkum heimum, daglegi heimurinn og snjallheimurinn. Snjallheimurinn þeirra breytist svo hratt og ef við foreldrarnir ætlum að halda í við þau og halda utan um þau þá skiptir gríðarlega miklu máli að við tölum saman og hjálpumst að við að upplýsa og fræða hvert annað um það sem er efst á baugi hjá krökkunum okkar. Það er okkar von að foreldrasamtalið rjúki í gang hérna á svæðinu. Fólk hefur mikið að gera og það geta ekki allir verið virkir í foreldrastarfi og við erum ofsalega þakklát fyrir flotta sjálfboðaliða. En allir ættu að geta tekið þátt í foreldrasamtalinu og við fögnum öllum sem leita til okkar með spurningar og ábendingar og munum svo sannarlega gera okkar til þess að koma þeim á framfæri og halda umræðunni á lofti. Við höfum bara þetta eina tækifæri til að ala upp börnin okkar og félagið verður vonandi kærkomið tækifæri til að mynda tengingu, miðla og læra af öðrum.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira