adsendar-greinar Mannlíf
Einar Þór Strand er formaður Björgunarsveitarinnar Berserkja til fjölda ára. Ljósm. kgk.

„Skiptir öllu að þekkja sjálfan sig“

Björgunarsveitin Berserkir hefur verið starfrækt í Stykkishólmi um áratuga skeið. Formaður Berserkja til fjölda ára er Einar Þór Strand. Hann lýsir sveitinni sem almennri björgunarsveit sem starfi mikið við sjóinn, en sé ekki ólík mörgum öðrum sveitum á landsbyggðinni. „Flestar björgunarsveitir úti á landi eru tiltölulega fámennar, kjarninn þetta tíu, tuttugu, kannski þrjátíu manns. Starf sveitanna er almennt séð í beinu hlutfalli við íbúafjölda á hverju svæði, fjárhagslegur bakhjarl á hverjum stað spilar auðvitað inn í líka,“ segir hann, en Berserkir voru einmitt að selja flugelda þegar Skessuhorn bar að garði mánudaginn 30. desember, eins og aðrar björgunarsveitir landsins. Einar telur að um helmingur af tekjum Berserkja komi af flugeldasölunni. „Við skulum ekki gleyma að við erum búin að vera með Neyðarkallasöluna sem hefur gengið mjög vel og svo eru bakverðir Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Vissulega, fyrstu árin, var þetta notað til að koma heildarsamtökunum á réttan kjöl. En núna fara bakverðirnir nánast 100% út til sveitanna, eftir ákveðnum formúlum, sem menn geta svo rifist um hvort eru réttar eða rangar. En peningarnir skila sér,“ segir Einar.

Helstu verkefni á hafinu

Berserkir eru til húsa að Nesvegi 1a í Stykkishólmi, í húsi sem var byggt árið 2002. Í hinum enda hússins er aðstaða Brunavarna Stykkishólms og nágrennis. Að mati Einars fer vel á því að björgunarsveit og slökkvilið séu undir sama þaki. „Oft eru sömu menn í björgunarsveitinni og slökkviliðinu, þannig að vissulega á þetta mjög vel saman. Ég hefði reyndar viljað byggja stærra á sínum tíma og taka sjúkrabílana hingað inn líka,“ segir hann og bætir því við að björgunarsveitarmenn hafi hug á því að stækka húsið á næstunni, það sé orðið of lítið fyrir starfsemi sveitarinnar. „Ef fólk kemur hingað inn þegar ekki er flugeldasala þá sjá allir að það þarf að raða inn nákvæmlega svona en ekki hinsegin, og tækin þurfa að fara inn í þessari röð og út í þessari röð,“ segir hann. „Ég veit ekki hvenær menn leggja í að stækka en við þyrftum að gera það, bæði við og slökkviliðið,“ segir Einar en bætir því við að menn séu rétt byrjaðir að ræða hugmyndina sín í millum. „En það er hugur fyrir stækkun og ætti að vera tiltölulega auðvelt að stækka húsið með því að tvöfalda dýptina á því. Taka þakið út með skúrhalla og tvöfalda salinn að stærð. Aðstaðan uppi á lofti er kannski alveg nóg fyrir okkur, það vantar aðallega að stækka salina niðri.“

Tækjakostur Berserkja er enda þónokkur, sem þarf að geyma í húsinu. „Við erum með tvo bíla, fjórhjól og sexhjól og svo tvo báta. Einn harðbotna gúmmíbát af stærri gerðinni og annan minni, sem menn kalla tuðru sem hægt er að nota á vötnum og til að komast upp í eyjar og annað slíkt,“ segir formaðurinn. Stærstu verkefni Berserkja á liðnu ári tengdust einmitt sjónum. Einar nefnir strand Blíðu síðasta sumar og síðan þegar sami bátur sökk skammt utan við Stykkishólm í byrjun nóvember. Einnig var strand farþegaskipsins Særúnar stórt verkefni björgunarsveitarinnar. „Þetta voru svona allra helstu verkefnin á árinu, en þess utan höfum við auðvitað verið í ýmsum verkefnum,“ segir hann. „Öll helstu verkefnin voru á sjónum á þessu ári, það hefur verið þannig í gegnum tíðina. Síðasta stóra verkefnið á landi var rjúpnaskyttuleit fyrir nokkrum árum síðan,“ segir Einar. Leit að göngumanninum sem týndist á Hnappadal var ekki hafin þegar Skessuhorn var hjá Berserkjum og kom það útkall því ekki til tals.

Allir skipta máli

Einar er reynslubolti á sviði björgunarsveitarmála, formaður Berserkja til fjölda ára og formaður svæðisstjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæði fimm. Það er því ekki úr vegi að spyrja hann hvað felst í því að vera björgunarsveitarmaður? „Það er lífsstíll,“ segir Einar og blaðamaður spyr hvað felist í þeim lífsstíl. „Að vera nörd,“ segir hann og hlær við, en heldur síðan áfram. „Björgunarsveitarfólk má vera alls konar, mín vegna mega það vera frá 50 kg og undir upp í 250 kg og yfir, og á hvaða aldri sem er. Það sem þarf er fólk sem er hægt að treysta á að komi þegar á þarf að halda og það er á staðnum,“ segir hann, „og síðan að hver og einn þekki sín takmörk,“ bætir hann við. „Í björgunarsveitarstarfi þurfum við ofboðslega fjölbreyttan hóp, við þurfum menn sem eru þindarlausir og geta hlaupið upp á fjall á tíu mínútum. Svo þurfum við reynsluboltana og fólk sem hugsar um baklandið,“ segir hann. Allir hafi eitthvað fram að færa og framlag allra skiptir máli. „Þú getur byrjað í björgunarsveit 18 ára, jafnvel fyrr í gegnum unglingadeildirnar, og verið í björgunarsveit þangað til þú deyrð, svo lengi sem þú veist hver þín takmörk eru, hvar þinn styrkur liggur og þínir veikleikar. Það skiptir öllu að þekkja sjálfan sig,“ segir Einar Þór Strand að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira