adsendar-greinar

Seinka upphafi skóladags í Borgarnesi

Nú á vorönn voru gerðar breytingar á stundatöflu og kennslufyrirkomulagi í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Í stað þess að hafa tvær 40 mínútna kennslustundir samliggjandi verður ein klukkustundar kennslustund og tvisvar í viku fara nemendur í vinnustofur. Við þessar breytingar opnaðist möguleiki á að hefja kennslu seinna að deginum eða klukkan níu. Um er að ræða tímabundið tilraunaverkefni til að sjá hvaða áhrif þetta muni hafa á líðan og námsárangur nemenda.

Að sögn Braga Þórs Svavarssonar skólameistara kom þessi breyting upphaflega til vegna Covid-19. „Vegna faraldursins urðum við að bregðast við með því að innleiða nýja kennsluhætti og þá byrjuðum við með vinnustofur í lok haustannar alla daga vikunnar. Nemendur gátu þá mætt í 25 manna hópum í eigin heimastofu og fengið aðstoð kennara við námið. Þetta kom mjög vel út og kennararnir voru ekki aðeins að hjálpa nemendum með námið heldur líka skipulag og námstækni. Þarna náðu kennarar að einbeita sér betur að hverjum og einum nemanda og veita enn persónulegri þjónustu. Við ákváðum því að halda áfram með þessar vinnustofur,“ segir Bragi.

Almennt vel tekið

„Með þessum breytingum opnaðist tækifæri að hliðra til og byrja daginn seinna og við ákváðum að grípa það. Við ætlum að prufukeyra þetta þessa önn og sjá hvernig þetta fer í nemendur og þeirra vinnulag áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið,“ segir Bragi og bætir við að margar rannsóknir styðji þessa breytingu. „Það hefur verið sýnt fram á að líkamsklukka unglinga passar ekki við klukkuna og það getur haft áhrif á svefninn þeirra. Samkvæmt rannsókn sem var gerð hér á landi 2018 eru um 70% framhaldsskólanemenda að sofa of lítið,“ segir Bragi. Það voru þó ekki nemendur sem báðu um að skóladeginum yrði seinkað heldur kemur tillagan alfarið frá stjórnendum skólans. Í vor verður hugur nemenda til þessara breytinga kannaður til að sjá hvort þetta fyrirkomulag verður til langframa. Aðspurður segir Bragi nemendur almennt hafa tekið vel í þessar breytingar en að sumir myndu samt kjósa fyrra fyrirkomulag. „Sumir nemendur vilja byrja fyrr og hætta fyrr og það er alveg skiljanlegt. Það er kannski aldrei hægt að finna fyrirkomulag sem hentar jafn vel fyrir alla,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira