adsendar-greinar Mannlíf
Fyrsti sláttur að hefjast á Hlíðarenda. Ljósm. úr einkasafni/ Gróa Jóhannsdóttir.

Sauðfjárbændur uggandi vegna áburðarverðshækkana

Árið 2021 fluttu 24 fyrirtæki inn tæp 58 þúsund tonn af áburði og jarðvegsbætandi efnum, alls 368 tegundir. Innlendir framleiðendur eru 16 á skrá en það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni hér á landi. Áburðarfyrirtæki sem voru með skráða starfsemi á árinu eru því 40. Þetta kemur fram í samantekt Matvælastofnunar. Langmestur áburður var notaður til jarðræktar hjá bændum, eða 44 þúsund tonn, næst mest var notað í ylrækt eða tæp tvö þúsund tonn, en annar áburður er notaður á íþróttavelli, sem blómaáburður og til jarðvegsbætingar. Nú eru innflytjendur tilbúins áburðar farnir að birta verðskrár sínar. Fyrir bændur í landinu boðar verðskráin váleg tíðindi, því algeng hækkun á áburði er um 100% frá síðasta ári. Í sauðfjárrækt þar sem afkoman hefur ekki verið góð standa bændur því frammi fyrir vanda vegna áburðarkostnaðar, sem bætist við lágt afurðaverð.

Fyrstu kemur fyrstur fær

Hjónin Gróa Jóhannsdóttir og Arnaldur Sigurðsson búa með sauðfé á jörð sinni Hlíðarenda á Breiðdal, hafa um 300 fjár. Gróa er fædd og uppalin í Álftártungu á Mýrum. Þau hjónin urðu búfræðingar frá Hvanneyri 1985 og hafa síðan búið fyrir austan. Hafa bæði unnið samhliða búrekstri sínum í mismiklum stöðugildum. Gróa skrifar áhugaverða færslu á Facebook síðu sína í liðinni viku þar sem hún velti upp þeirri þröngu stöðu sem hún og aðrir sauðfjárbændur standa frammi fyrir: „Í gærkvöldi settist ég niður og ætlaði að fara að panta áburðinn, vissi alveg af þeim hækkunum sem boðaðar hafa verið (upp undir 100%). En þegar maður fer að setja upp í Excel verður þetta allt skuggalega raunverulegt. Miðað við árið í fyrra fór um 31,5% af innlegginu í áburðarkaup en ef ég reikna með að ég panti sama magn af áburði núna og árið 2021 þá fara um 62,5% af afurðaverði síðasta hausts í áburðarkaup (hef ekki neinar forsendur aðrar en að reikna út frá því afurðaverði, þar sem ekki er ljóst hvert afurðaverð haustsins verður),“ skrifar Gróa. Hún segir að bændur hafi verið hvattir til að panta áburð sem fyrst til að tryggja sér áburð því ekki sé víst að hægt verði að tryggja það magn sem þarf og því gildi fyrstur kemur fyrstur fær.

Vilja ekki þurfa að leita á náðir ríkisins

„Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja 700 milljónir króna í að styrkja bændur vegna þessara hækkana. Ég veit ekki hvernig það verður reiknað á bú, en trúlega út frá áburðarnotkun síðustu ára. Einhvers staðar sá ég því fleygt að aukakostnaður bænda vegna þessara hækkana væri ca. tveir milljarðar þannig að þetta dekkar líklega um þriðjung af því. Það er svo langt frá því að vera æskilegt að greinin okkar skuli vera í þeirri stöðu að þurfa að leita á náðir ríkisins í hvert skipti sem eitthvað gefur á og rekstrarumhverfið þannig að við þolum ekki neinar ágjafir. Og hver er kominn til með að segja að áburðarverð eða aðrar aðfangahækkanir komi til með að vera gengnar til baka næsta ár og þá hvað,“ spyr Gróa.

Hún tekur það fram að flestir bændur hafa nýtt sér þann húsdýraáburð sem fellur til á búunum og áburðarkaup hafa tekið mið af því þannig að hann getur ekki verið sú björg að spara áburðarkaup í stórum mæli. „Mig langar ekki til að vera svartsýn en því miður sé ég bara ekki hvernig á að láta þetta dæmi ganga upp og sú spurning leitar á mig hvort þetta verði í síðasta skipti eða næst síðasta skipti sem ég sest niður til að panta áburð,“ skrifar Gróa Jóhannsdóttir.

Gróa og Arnaldur eru hér að bólusetja fé, sem er hefðbundið vorverk sauðfjárbænda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira