adsendar-greinar Mannlíf
Brynjar Máni Jóhannsson, Hildur Karen Aðalsteinsdóttir og Kristjana Guðrún Fanný Björnsdóttir. Ljósm. mm

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga

Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni sem nefnist Saman á Skaga. Markmið þess er að auka félagslega virkni fatlaðs fólks og horft er til hóps 18 ára og eldri. Tildrög þess að verkefninu var ýtt úr vör var heimsfaraldur Covid-19. Veiran hálfpartinn lamaði mannlífið hér á landi fyrir rúmum tveimur árum og ákvað ríkisstjórnin, sem einn af aðgerðapökkum sínum, að leita til sveitarfélaga um að auka við félagsstarf fyrir fullorðið fatlað fólk. Vorið 2020 fékk Akraneskaupstaður framlag til þessa verkefnis og óskaði Hvalfjarðarsveit eftir að gerast meðaðili í því. Við því var orðið og ákváðu sveitarfélögin að standa saman að verkefninu. Akraneskaupstaður skipulagði útfærslu á verkefninu fyrir þátttakendur með fjölbreyttu félagsstarfi, viðburðum og tilboðum og réð Hildi Karen til að stýra því.

Fram til þessa hefur ekki átt sér stað opinber kynning á verkefninu, en í ljósi þess að nú er í umræðunni að Akraneskaupstaður haldi þessu verkefni áfram var ákveðið að segja frá því hvernig til hefur tekist og hver næstu skref verða. Hildur Karen kom á ritstjórn Skessuhorns til að ræða við blaðamann en með henni í för voru þau Kristjana Guðrún Fanný Björnsdóttir og Brynjar Máni Jóhannsson. Þau hafa bæði verið virkir þátttakendur í þeim viðburðum sem skipulagðir hafa verið á undanförnum misserum.

Hugmyndabanki búinn til

Hildur Karen segir að í upphafi hafi verið leitað eftir ábendingum frá þátttakendum um hvar áhugasviðið þeirra lægi til að hægt væri að skipuleggja frístundatilboð í samræmi við það. Fyrsta árið voru átta viðburðir skipulagðir, tíu á síðasta ári og tíu verða einnig í ár. Hildur Karen segist njóta þess að starfa með þessum hætti með einstaklingum með fötlun, það sé í senn gefandi og skemmtilegt. Fyrri menntun og reynsla nýtist henni í þessu starfi, en hún er kennari og stundar um þessar mundir framhaldsnám í sérkennslufræðum og skóla margbreytileikans við HÍ.

„Á vorin er kallað eftir hugmyndum um hvað fólk langar að gera. Auðvitað koma fjölmargar tillögur og við reynum að vinna úr þeim fjölbreytta dagskrá svo fólk geti valið viðburði sem það langar að taka þátt í. Þannig höfum við verið með marga og ólíka viðburði. Höfum til dæmis farið í keilu og boccia, bakað saman og eldað, farið í sjóferð með björgunarfélaginu, haldið sundlaugarpartý, farið út að borða, í sveitaferð og fengið Pál Óskar í heimsókn. Svo förum við alltaf á hverju ári í eina lengri ferð, gjarnan suður til Reykjavíkur.“

Viðburðum dreift yfir árið

Kristjana og Máni segja aðspurð að þau hafi notið þess að taka þátt í þeim viðburðum sem skipulagðir hafa verið. „Við kynnumst betur öðru fólki og höfum lært alveg helling,“ segir Kristjana. Máni tekur undir það og segir verkefnið gott til að rjúfa ákveðna félagslega einangrun og sé um leið mikil tilbreyting. Sjálfur er hann búsettur í Hvalfjarðarsveit, en ætlar að flytja á Akranes í haust. Þá segir hann að það verði auðveldara fyrir sig að sækja fleiri viðburði sem skipulagðir verða. Hildur Karen segir að í skipulagningu dagskrár fyrir næsta ár verði lögð áhersla á að dreifa viðburðunum yfir árið, en ekki eingöngu yfir sumartímann.

„Við höfum reynt að hafa sem flesta viðburði okkar í heimabyggð. Höfum virkjað íþróttafélögin sem hér eru starfandi, svo sem klifurfélagið, keilufélagið, golfklúbbinn og fimleikafélagið, en svo höfum við einnig nýtt húsnæði sveitarfélaganna beggja fyrir viðburði eins og að baka, elda og halda partí. Valgerður Jónsdóttir á Smiðjuloftinu bauð okkur t.d. að koma og það var ótrúlega skemmtilegt og gefandi að fá að prófa ólík hljóðfæri og njóta leiðsagnar hjá henni.“

Nota samfélagsmiðla til kynningar

Hildur Karen stofnaði lokaðan Facebook hóp þar sem hópurinn hefur samskipti sín á milli, kynnir viðburði, deilir myndum úr starfinu og sitthvað fleira. Þeir sem ekki eru á samfélagsmiðlum eru svo látnir vita með öðrum leiðum hvað standi til að gera. „Einstaklingar með fötlun 18 ára og eldri og aðstandendur þeirra geta óskað eftir inngöngu í hópinn Saman á Skaga. Við höfum ekki fyrr en núna sagt opinberlega frá þessu starfi, en nú geta fleiri fullorðnir fatlaðir einstaklingar látið okkur vita um áhuga sinn, eða haft samband við Laufeyju Jónsdóttur hjá Akraneskaupstað, en hún er ábyrgðaraðili verkefnisins.“

Þegar viðburðir eru kynntir gerir Hildur Karen auglýsingu sem sett er á FB síðu hópsins, en hún er einnig prentuð út og sett á valda staði eins og á Holtsflötina, Laugarbraut, í Fjöliðjuna, starfsbraut FVA og til annarra tengiliða. Þannig er reynt að láta sem flesta vita um hvað er í gangi og fjölga þátttakendum. Á undanförnum tveimur árum segir hún að um áttatíu einstaklingar hafi tekið þátt í einum eða fleiri viðburðum, en skráðir meðlimir á FB síðu hópsins eru nú 129 en þar á meðal eru einnig nokkrir aðstandendur. Hún tekur það einnig fram að samvinna og samstarf við starfsfólk hinna ýmsu staða sem tengjast fötluðum sé ómetanlegt fyrir hópinn, þeir hafi verið afar hjálpsamir svo sem við að skutla á viðburði og leggja hönd á plóg til að virkni fólks sé sem mest.

Velja það sem hentar

Máni segir það hafa verið mjög gaman að taka þátt í Saman á Skaga. Hann segist hafa verið með í fjórum viðburðum á þessu ári. Kristjana segist taka þátt í flestum þeim viðburðum sem henta hennar áhugasviði og sleppi því sumu. Þau hvetja alla fullorðna fatlaða til að skrá sig í hópinn. „Það er bara gaman að fá að kynnast fleira fólki. Í Saman á Skaga er alltaf val um að vera með eða sleppa, það er svo gott við þetta verkefni,“ segir Kristjana.

Einangrun ekki bundin við Covid

Hildur Karen segir að þegar þetta verkefni fór upphaflega af stað hafi markmiðið verið að draga úr félagslegri einangrun og styðja einstaklinga til þess að takast á við afleiðingar Covid-19. „Eftir því sem verkefninu hefur undið fram kemur betur í ljós að einangrun þessa hóps er ekki bundin við afleiðingar Covid-19 heldur hefur hún verið til staðar fyrir faraldurinn og mun verða til staðar eftir faraldurinn ef ekki er haldið áfram markvissu starfi til að draga úr þeirri einangrun.“

Hún segir að einstaklingar sem nú mynda hópinn Saman á Skaga hafi sumir hverjir áður ekki tilheyrt neinum hópi félagslega. „Margir voru nokkuð einangraðir í sínu lífi og með sína fötlun. Um leið og hópurinn hefur orðið sterkari verður hann sýnilegri í samfélaginu og hafa einhver íþróttafélög m.a. séð möguleika í því að bjóða upp á íþróttaæfingar fyrir þennan hóp. Fyrir það erum við rosalega þakklát og vonum við að það verði hvatning fyrir fleiri félög að gera það. Það að geta boðið upp á fjölbreytta viðburði er ekki framkvæmanlegt nema með velvilja einstaklinga, félaga og fyrirtækja sem hafa reynst boðin og búin til að aðstoða við að gera upplifun hópsins sem eftirminnilegasta. Ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir. Þá má ekki gleyma starfsfólki og stjórnendum sveitarfélaganna sem að verkefninu standa. Þeir hafa komið verkefninu á skrið og eiga miklar þakkir skildar. Um leið rís þó krafan um að tryggja að framhald verði á þessu góða starfi fyrir okkar viðkvæmustu meðborgara, ekki eingöngu yfir sumartímann, heldur einnig vetrarmánuðina. Þar hafa m.a. heyrst hugmyndir um jólaball, þorrablót, árshátíð og mögulega leikhúsferð fyrir hópinn,“ segir Hildur Karen.

Margir stigið út úr skelinni

Fram að þessu hefur ríkið stutt sveitarfélögin til verkefnisins, en Hildur Karen segir að ekki megi hætta þessu verkefni þó svo ríkisstyrkir hætti að berast og verður leitað til bæjaryfirvalda um að þetta verkefni haldi áfram og verði fastur liður í starfsemi bæjarfélagsins.

„Nú á þriðja ári þessa verkefnis, sem snýst um að draga úr félagslegri einangrun fullorðinna fatlaðra, hefur komið í ljós að verkefnið skilar árangri. Ljóst er að margir hafa verið að skríða úr skelinni, stíga út fyrir þægindarammann sem hafði þrengst ár frá ári og prófa hluti í fyrsta sinn á ævinni eða fyrsta sinn í langan tíma. Betur var mætt á viðburðina 2021 heldur en 2020 og enn betur á það sem við höfum gert á þessu ári. Aðstandendur hafa einnig tekið meiri þátt og almenn ánægja hefur aukist, bæði meðal þátttakenda en ekki síður aðstandenda sem sáu meiri félagslega virkni hjá ættingjum sínum. Ljóst er að verkefni sem þetta hefur mikinn samfélags- og lýðheilsulegan ávinning og þarf því að halda áfram,“ segir Hildur Karen. Máni og Kristjana taka undir þau orð hennar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir