Fréttir
Alþingishúsið við Austurvöll. Ljósm. mm

Flest mál ríkisstjórnarinnar önnur en veiðigjald falla dauð

Eftir eitthvert stormasamasta þing síðari tíma á Alþingi hefur nú verið samið um þinglok á morgun, mánudag. Eftir að forseti Alþingis ákvað á föstudaginn að ljúka umræðum um veiðigjöld og beita annarri málsgrein 71. greinar þingskaparlaga, má segja að friðurinn hafi endanlega verið úti á þingi, sé hægt að kalla ástandið „frið“ - þegar litið er til samskipta stjórnar og stjórnarandstöðu. Í þinglokasamningi nú eru þrjú mál samkvæmt dagskrá Alþingis í fyrramálið. Þau eru veiðigjaldafrumvarpið með áorðnum breytingum sem einkum felast í frestun áhrifa hækkaðra gjalda, frumvarp um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og lögbundin fjármálaáætlun.

Því liggur fyrir að fjölmörg mál sem ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að ljúka á þessu þingi falla einfaldlega dauð niður og þarf að taka þau upp að nýju þegar þing kemur aftur saman í september. Áhrifa þessa ástands mun væntanlega gæta strax í vikunni. Frumvarp atvinnuvegaráðherra um 48 daga strandveiðar náði ekki fram að ganga. Eftir að rúmum þúsund tonnum var bætt við strandveiðikvótann fyrir skömmu er heimilt að veiða 11.032 tonn í sumar. Miðað við veðurspá og gæftir í komandi viku mun fyllast í þann kvóta og um 780 strandveiðibátar að óbreyttu verða siglt í land fyrir vikulokin.

En fjölmörg önnur mál falla niður með tilheyrandi áhrifum. Nefna má frumvarp um almannatryggingar og endurskoðun örorkulífeyriskerfis, búvörulög, Evrópska efnahagssvæðið (bókun 35), stuðning við einkarekna fjölmiðla, húsaleigulög, kílómetragjald á ökutæki, menntasjóð námsmanna, raforkulög, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og útlendingalög sem fjalla um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Hér hefur einungis fæst þessara þingmála verið nefnd.

Flest mál ríkisstjórnarinnar önnur en veiðigjald falla dauð - Skessuhorn