adsendar-greinar Mannlíf
Reynir og hljómsveitin í pottinum í Kjós þar sem þeir tóku út sína sóttkví eftir komuna til landsins.

Reynir Hauksson fer um landið með flamenco tónleika

Reynir Hauksson flamenco gítarleikari frá Hvanneyri hélt af stað í tónleikaferðalag um landið á fimmtudaginn, ásamt hljómsveit. Reynir hefur undanfarin ár búið á Granada á Spáni þar sem hann spilar flamenco gítarleik. Undanfarin ár hefur hann komið reglulega til Íslands þar sem hann hefur kynnt Íslendinga fyrir flamenco tónlistinni. Árið 2019 gaf hann út sína fyrstu plötu sem ber titilinn El Reino de Granada sem þýðir Konungsríkið Granada. „Þetta er tilvitnun í arabíska konungsríkið sem þarna var til ársins 1492, en þá tóku kaþólikkar yfir,“ útskýrir Reynir þegar blaðamaður heyrði í honum. „Við ætluðum að fylgja þessari plötu eftir með tónleikum í apríl á síðasta ári. Það var allt planað, búið að bóka flug og tónleikastaði og við byrjaðir að selja miða. En svo kom kóvid og það fór eins og það fór. Við þurftum að fresta tónleikunum en nú er loksins komið að þessu,“ segir Reynir.

Gaman að halda tónleika aftur

Auk Reynis er hljómsveitin skipuð þeim Paco De Andrea, Josue Heredia Triguero, Jacob De Carmen og Jorge Sánchez Pisao. Spurður hvort flamenco tónlistin sé að ryðja sér til rúms hér á landi segir Reynir að Íslendingar séu núna á fyrstu skrefunum og að áhuginn sé til staðar. „Það hefur verið áhugi og ef það væri meiri ástundun hjá fleirum gæti þessi tónlist náð sér á strik hér heima,“ svarar Reynir. Hann segir hópinn afskaplega spenntan að fá að halda tónleika á ný eftir langa pásu. „Þetta er ótrúlega gaman. Við erum búnir að bíða mjög lengi,“ segir hann og bætir við að á Spáni hafi ástandið verið nokkuð erfiðara en hér á Íslandi. „Ég hef sjálfur verið hér á Íslandi næstum því allt síðasta ár. En strákarnir hafa ekki verið að vinna í meira en ár og kóvid hefur haft mun meiri áhrif á Spáni en hér. Það verður ótrúlega gaman að halda tónleika aftur,“ segir Reynir.

Auk þess að halda tónleika verður líka boðið upp á fjögurra daga námskeið í flamenco dansi í Dansverkstæðinu í Reykjavík. Hægt er að skrá sig á það námskeið á Facebook viðburðinum Flamenco Dansnámskeið. Miðar á tónleikana eru nú í sölu á tix.is. Dagskrá tónleikaferðalagsins er eftirfarandi:

Tónleikar Reynis og félaga hér á Vesturlandi verða í Frystiklefanum í Rifi föstudaginn 9. júlí kl. 21:00 og á Hvanneyri Pub laugardaginn 10. júlí kl. 21:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira