adsendar-greinar Mannlíf

Rakel Pálsdóttir gefur út jólalag

Skaga- og söngkonan Rakel Pálsdóttir er um þessar mundir að senda frá sér nýtt jólalag. Lagið heitir Jólaveröld vaknar og er eftir Gunnar Inga Guðmundsson og Nínu Richter. Lagið kom út á mánudaginn á Spotify og öllum þessum helstu streymisveitum. Blaðamaður Skessuhorns sló á þráðinn til Rakelar og spurði hana út í lagið. Um Gunnar Inga segir Rakel: „Ég fann hann nú bara á Instagram og komst að því í gegnum Birgi Þóris, píanóleikara á Akranesi, að Gunnar Ingi væri svolítið í því að semja popplög og þar á meðal jólalög. Ég ákvað því að slá til og spurði hann hvort hann ætti ekki gott jólalag fyrir mig, það væri kominn tími til að ég myndi gefa út jólalag. Gunnar Ingi sendi mér demo af laginu og ég varð strax svolítið skotin í því og sló til. Við fórum og tókum upp hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni í Stúdíó Bambus og þar fæddist þetta flotta poppjólalag.“

Aðspurð hvort plata sé á leiðinni segir Rakel ekki svo vera. „En kannski maður fari nú að safna í plötu. Á Spotify eru nokkur lög eftir mig, einnig gömul íslensk lög sem ég hef endurútgefið. Þar eru líka sænskt og norskt lag sem fengið hafa íslenska texta. Það hefur alveg vantað jólastemninguna en með þessu lagi kemur hún þarna inn.“

Rakel býr í Grafarvogi með manni sínum Ómari Vilhelmssyni og dætrunum Emblu, Unni Signýju og Elísu Dagmar. Hún starfar sem þroskaþjálfi í sérdeild í hverfinu auk þess sem hún sinnir tónlistinni í hjáverkum. Rakel syngur mikið í brúðkaupum og slíkum viðburðum. „Ég vil bara syngja sem mest, það er svo gefandi. Það er svo frábært að vera loksins farin að syngja aftur eftir Covid.“

Rakel keppti í undankeppni Eurovision 2017 og 2018. Aðspurð segist hún hafa sent inn lag í undankeppnina sem nú stendur yfir. „Ég söng demo og sendi inn en svo veit maður ekki hvort maður kemst inn þar. Lögin sem komast inn verða kynnt í janúar og febrúar. Auðvitað er maður með ef maður fær tækifæri til þess, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri að taka þátt í þeirri keppni. Þá hef ég líka sungið bakraddir í mörgum atriðum. Ég vona að ég fái eitthvað af þeim verkefnum ef ég fæ ekki sóló verkefni.“

Hér má nálgast lagið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir