adsendar-greinar Mannlíf

Rafhlaupahjól með litíum rafhlöðum geta reynst hættuleg

Bjarni Kr Þorsteinsson slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar bendir á að töluvert hafi verið um að kviknað hafi í litíum rafhlöðum sem meðal annars eru orkugjafinn í rafhlaupahjólum barna og fullorðinna. Hafa orðið nokkrir brunar í og við híbýli fólks á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. „Þessar rafhlöður er einnig að finna í mörgum smærri raftækjum. Þessar rafhlöður hreinlega springa og gefa frá sér mikinn eld og reyk sem er mjög eitraður. Ekki er vitað hvort að rekja megi þessa elda til þess að fiktað hafi verið við hjólin, til þess að auka hraða þeirra, eða hvort að um tæknilega galla er að ræða. Ein kenning hefur verið á lofti um að elda í þessum hjólum megi rekja til þess að rafhlöðurnar hafi orðið fyrir skemmdum þegar farið er upp og niður af gangstéttum, en rafhlaðan er lægsti punktur undir hjólinu og gæti orðið fyrir skemmdum við það að steyta á gangstéttarköntum,“ segir Bjarni.

Hann bendir jafnframt á að fræðandi umfjöllun um þessa hættu sé að finna á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hms.is og einnig inni á heimasíðu Ólafs Gíslasonar/ Eldvarnamiðstöðvarinnar, oger.is, þar sem fjallað er um sérstök slökkvitæki til þess að fást við elda í litíumrafhlöðum.

„Tilmæli okkar hjá slökkviliði Borgarbyggðar eru eftirfarandi,“ segir Bjarni:

  • Ekki undir neinum kringumstæðum séu hjólin hlaðin innandyra í íbúðarhúsum, bílskúrum eða í geymslum fjölbýlishúsa þar sem mikill eldsmatur er í eigum íbúa.
  • Hjólin séu hlaðin utandyra og spennubreytir varinn fyrir rigningu.
  • Ekki sé verið að fúska við rafbúnað hjólsins með það fyrir augum að auka afl og hraða þess.
  • Foreldrar sem og aðrir gefi gaum að því að börn og unglingar hlaði síma sína og tölvubúnað á borði eða úti í glugga þar sem loftar um hann en ekki ofan í rúmfötum, en nokkra elda í húsum má rekja til þess að slíkt hafi verið gert.
  • Og þetta klassíska, hugum að reykskynjurum og slökkvitækjum.
Líkar þetta

Fleiri fréttir

Torfi F gefur út plötu

Þórarinn Torfi Finnbogason gaf út nýverið út plötu en hann er 45 ára fjölskyldufaðir frá Hvanneyri. Platan heitir Snjóarumvor og... Lesa meira